Samfélagsmiðlar

Hvað ætla bandarísku sjóðirnir að gera með Icelandair og SAS?

Það átti sér stað mikil samþjöppun í bandarískum fluggeira á síðasta áratug og röðin er komin að þeim evrópska að margra mati. Nú eru bandarískir fjárfestar að komast í bílstjórasætið hjá Icelandair og það sama gæti gerst hjá SAS innan skamms.

Þota Icelandair í fánalitunum við Schiphol í Amsterdam.

Það er lítið að marka hluthafalista flugfélagsins SAS þessa dagana því núverandi hlutafé verður nær allt afskrifað innan skamms. Þetta hefur legið ljóst fyrir allt frá því að þetta stærsta flugfélag Norðurlanda fékk heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar hjá bandarískum dómstólum um mitt síðasta ár.

Ferlið kallast Chapter-11 og sá tími sem stjórnendur SAS hafa til að ná samningum við kröfuhafa og flugvélaleigur um afskriftir og nýja leigusamninga rennur út nú í sumar.

Í kjölfarið á að safna í það minnsta 9,5 milljörðum sænskra króna, um 127 milljörðum íslenskra kr., í nýtt hlutafé og þá munu leiðir tveggja stærstu hluthafanna skilja. Sænska ríkið ætlar nefnilega ekki að taka þátt í hlutafjáraukningunni nema með því að breyta skuldum í hlutafé. Danskir ráðamenn hafa aftur á móti að hug á því að eignast allt að 30 prósent í SAS en í dag á danski ríkissjóðurinn 21,8 prósent og Svíar fara fyrir jafn stórum hlut.

Þota SAS við Gardermoen í Ósló -Mynd: Avinor

Norska ríkið fór hins vegar út úr SAS sumarið 2018 en mun fá lítinn hlut í félaginu eftir komandi hlutafjárútboð þar sem Norðmenn hafa samþykkt að breyta lánum í hlutafé.

Skandinavísku ríkin þrjú hafa allt frá stofnun SAS, um miðja síðustu öld, farið með ráðandi hlut í flugfélaginu og nú síðast í félagi við fjárfestingasjóð Wallenberg ættarinnar. Í heildina eru hluthafar SAS um 250 þúsund talsins.

Röðin komin að Evrópu

Að öllu óbreyttu verður það nafn Apollo Capital Management sem mun tróna efst á hluthafalista SAS að loknu komandi hlutafjárútboði að því fram kemur í nýrri úttekt Svenska dagbladet. Þessi bandaríski sjóður lánaði flugfélaginu 700 milljónir dollara (um 100 milljarða kr.) til að koma sér í gegnum Chapter-11 ferlið og fékk á móti veð í eignum flugfélagsins og forgang á kaupum á nýju hlutafé í flugfélaginu.

Það er fastlega búist við að bandaríski sjóðurinn nýti sér þennan forgangsrétt og eignist ráðandi hlut í SAS. Það yrði ekki í fyrsta sinn sem Apollo færi þessa leið því sjóðurinn tók einnig stóran hlut í mexíkóska flugfélaginu Aeroméxico fyrir ári síðan með svipuðum hætti.

Áður hafði Apollo komið að fjárhagslegri endurskipulagningu bandaríska félagsins Sun Country sem endaði með hlutafjárútboði í hittifyrra þar sem sjóðurinn margfaldaði fjárfestingu sína. Í grein Svenska Dagbladet segir að Apollo sé klassíkur hrægammasjóður sem fókusi á fluggeirann og lánveitingin til SAS sé fyrsta skrefið inn á evrópska markaðinn.

En því hefur lengi verið spáð að töluverð samþjöppun muni eiga sér stað í evrópskum fluggeira í takt við það sem gerðist vestanhafs á síðasta áratug. Við þá breytingu batnaði afkoma bandarískra flugfélaga til muna.

Koma flugfélaginu í verð sem fyrst

Það er annar bandarískur sjóður sem rær á sömu mið og Apollo en það er Bain Capital sem hefur verið langstærsti hluthafinn í Icelandair í nærri 2 ár.

Stuttu fyrir fjárfestinguna í Icelandair þá keypti Bain Capital allt hlutafé í flugfélaginu Virgin Australia sem þá var í greiðslustöðvun. Bain Capital var ekki eitt um hituna og meðal þeirra sem gerðu tilboð var Indigo Partners, fjárfestingafélagið sem sýndi Wow Air áhuga á sínum tíma. Þáverandi forstjóri Virgin Australia lýsti aftur á móti opinberlega yfir stuðningi við Bain Capital sem reyndist árangursríkt þegar kom að því að sannfæra starfsmenn um tilboð sjóðsins og líka kröfuhafa.

Þau hjá Bain Capital gerði mikið úr þessum stuðningi forstjórans enda var sá vinsæll í röðum starfsfólks líkt og rakið var í grein Financial Review. Sex vikum eftir að sjóðurinn eignaðist Virgin þá var forstjóranum hins vegar sparkað.

Jayne Hrdlicka var ráðgjafi Bain Capital þegar Virgin Australia var keypt. Hún settist í forstjórastólinn stuttu síðar. – Mynd: Virgin Australia

Nú gengur rekstur Virgin Australia miklu betur enda heyra sóttvarnaraðgerðir sögunni til og Bain bíður ekki boðanna. Nú er nefnilega unnið að hlutafjárútboði þar sem búist er við að bandaríski sjóðurinn selji alltaf helmings hlut í flugfélaginu, rétt um tveimur árum eftir fjárfestinguna.

Hlutur bandarísku sjóðanna stækkar

Sem fyrr segir er Bain Capital langstærsti hluthafinn í Icelandair með 17,2 prósent hlut en til viðbótar fara útlendingar, mest bandarískir sjóðir, fyrir um tíu prósentum til viðbótar. Fyrir fimm árum síðan áttu íslenskir fjárfestar, helst lífeyrissjóðir, flugfélagið með húð og hári.

Mögulega horfa þessir bandarísku fjárfestar til langs tíma með fjárfestingu sinni í Icelandair sem skilgreint hefur verið sem þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki hér á landi. Reksturinn gengur líka betur en á árunum fyrir Covid-19 þegar Icelandair var rekið með miklu tapi þó flest önnur vestræn flugfélög hafi verið í plús.

Mikill taprekstur einkenndi Icelandair og Wow Air á árunum fyrir heimsfaraldur – Mynd: Isavia

Icelandair var af þessum sökum óspennandi kostur fyrir stóru evrópsku flugfélagasamsteypunnar líkt og Nick Wyatt, yfirmaður rannsóknasviðs GlobalData, fór yfir með Túrista á sínum tíma.

Hann sagðist ekki telja að smæð Icelandair gerði yfirtöku á félaginu ósennilega. Fjárhagsleg staða flugfélagsins skipti meira máli og mögulegir kaupendur myndu vilja sjá Icelandair komast réttum megin við núllið á nýjan leik.

Núgildandi afkomuspá Icelandair gerir einmitt ráð fyrir að félagið skili hagnaði í ár í fyrsta sinn síðan 2017 og þó framundan séu fjárfestingar í nýjum flugvélum þá telur forstjóri Icelandair það ekki koma í veg fyrir arðgreiðslur.

Erlendu fjárfestarnir, sem nú eiga orðið ríflega fjórðung í Icelandair, gætu vissulega verið að horfa til þess að að fá sinn hlut af hagnaðinum og vonast til að íslenskir lífeyrissjóðir vilji svo á ný eignast ráðandi hluti í flugfélaginu. Það verður alla vega ekki hlaupið að því fyrir Bandaríkjamennina að selja svona stóran hlut í Icelandair til almennra fjárfesta.

Stórt norrænt flugfélag

Önnur leið til að fá fjárfestinguna í flugfélaginu tilbaka er að Icelandair verði hluti af samþjöppuninni í Evrópu. Einn þeirra sem talar fyrir sameiningum er Hollendingurinn Anko van der Werff sem nú er forstjóri SAS. Verði Apollo stærsti hluthafinn í SAS síðar á árinu þá gætu sameiningar við önnur félög orðið eitt af helstu verkefnum forstjórans.

Anko van der Warff, forstjóri SAS.

SAS hefur reyndar lengi verið orðað við Lufthansa Group og það kæmi því engum á óvart ef Þjóðverjarnir myndu lýsa yfir áhuga sínum á SAS á ný. Norræni flugmarkaðurinn þykir líka áhugaverður því kaupgeta neytenda er almennt mikil og fjarlægðin gerir það að verkum að svæðið þarf á tíðum flugferðum að halda. Það hefur líka reynst erlendum félögum erfitt að ná sterkri stöðu á skandinavíska markaðnum því tryggðin við SAS og Norwegian er mikil.

Að SAS verði keypt af stærra flugfélagi er þó ekki eini kosturinn í stöðunni. Í því samhengi má rifja upp hugmyndir sem Eivind Roald, fyrrum framkvæmdastjóri SAS, viðraði við upphaf heimsfaraldursins.

Roald sá þar fyrir sér nýja norræna samsteypu þar sem eignarhaldið á SAS, Finnair, Norwegian og Icelandair yrði sameinað þó vörumerkin yrðu ennþá notuð. Í þessu félagi yrði það helsta hlutverk Icelandair að halda úti tíðum ferðum til Norður-Ameríku. Hin félögin myndu þá fljúga farþegum sínum hingað til lands í auknum mæli í stað þess að halda úti eigin ferðum til Bandaríkjanna og Kanada.

Framtíðin að hluta til í höndum sjóðanna

Ennþá liggur ekki fyrir hvort Apollo Capital verði stærsti hluthafinn í SAS en ljóst er að bandarískir sjóðir eru að komast í bílstjórasætið hjá Icelandair.

Það skal því ekki útiloka að þau sem ráða ríkjum hjá þessum sjóðum telji að besta leiðin til að fá sem mest fyrir fjárfestinguna sé vinna saman að því koma Icelandair og SAS í eina sæng og þaðan í hendurnar á stórri evrópskri samsteypu. Því eins og forstjóri Icelandair benti nýverið á þá er ekki sjálfgefið að höfuðstöðvar flugfélagsins séu á Íslandi.

Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …