Samfélagsmiðlar

„Maður sýnir ekki plan B“

„Þetta er eitt mikilvægasta mál sem Ísland stendur frammi fyrir," sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, í Brussel í morgun um boðaðar breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir frá flugi. Hún er vongóð um að tekið verði tillit til hagsmuna Íslands en vill ekkert segja hvaða afleiðingar það hefði á stöðu Íslands innan EES ef breytingar nást ekki fram.

Lilja í Brussel

Lilja Dögg Alfreðsdóttir á fundi Airlines4Europe í morgun.

Evrópuþingið samþykkti í lok síðasta árs auknar álögur á losun frá flugi. Íslensk stjórnvöld hafa síðustu misseri reynt að að hafa áhrif á þessar breytingar þar sem þær munu leggja þyngri byrðar á íslensk flugfélög en önnur evrópsk. Ástæðan er meðal annars sú að rekstur Icelandair, Play og Keflavíkurflugvallar byggist á tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, kom inn á þessa stöðu í pallborðsumræðum á fundi evrópskra flugfélaga í Brussel í dag. Túristi var á fundinum og ræddi við ráðherra að honum loknum.

„Við viljum taka þátt í því að gera flugiðnaðinn grænni og þegar við skoðum hvað er að gerast þá eru vélarnar sem Icelandair og fleiri eru að nota sparneytnari og losa minna. Álagning á íslensku flugfélögin verður mun meiri en til að mynda á flugi til og frá tengimiðstöðinni í Frankfurt. Það virðist vera mikill skilningur á því að við viljum taka þátt í þessari vegferð – en að það sé búin til lausn sem tekur mið af ríki sem getur ekki nýtt járnbrautir. Eina leiðin til að fara fram og til baka frá Íslandi er með flugi. Ég er nokkuð vongóð um að það sé að skapast ríkari skilningur fyrir þessari sérstöðu okkar. Þessi samtöl ganga vel,” sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir í Brussel í dag að loknum fundi hagsmunasamtaka evrópskra flugfélaga.

Þið hafið ekki langan tíma? Það þarf að ganga frá þessu á næstu mánuðum enda ganga nýju reglurnar í gildi um næstu áramót. Það hefur komið fram í máli utanríkisráðherra að það komi ekki til greina að hleypa þessum reglum óbreyttum inn í EES samninginn. Hvaða afleiðingar hefði það að samþykkja þetta ekki?

„Ég tel að við nálgumst lausn á þessu: Að miðað verði við fjarlægðina, flug til Íslands er að jafnaði 2.200 km en 850 km milli annarra landa í Evrópu að meðaltali. Ég myndi telja skynsamlegt að koma með leið sem tekur mið af fjarlægðinni og samkeppnishæfni flugfélaganna verði jöfnuð út frá því.” 

Það hefur samt ekki tekist að koma þessari leið að hingað til og nú er Evrópuþingið búið að samþykkja breyttar reglur.

„Núna erum við að fara í þetta á vettvangi EES og við munum koma með tillögu sem miðar að því að verja okkar þjóðarhagsmuni. Þetta er eitt mikilvægasta mál sem Ísland stendur frammi fyrir. Um 14 prósent af landsframleiðslu tengist flugiðnaði og 30 prósent af gjaldeyristekjunum. Þannig að við munum ekki geta unað við þessa útfærslu en ég er vongóð um að það komi til breytingar.”

Morgunsól í mars á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Er Ísland samt ekki komið upp við vegg úr því að ferlið er komið þetta langt innan ESB?

„Ég er sannfærð um að það verði fundin farsæl lausn.”

Eruð þið með plan B – ef ekki finnst viðunandi lausn ?

„Já, það er alltaf plan B. Maður sýnir ekki plan B.”

Ef Ísland beitir neitunarvaldi er þá ekki hætta á að við missum rétt til frjálsra vöru- og fólksflutninga innan Evrópu?

„Ég tel að við þurfum að berjast fyrir hagsmunum lands og þjóðar eins og stjórnvöld á Íslandi gera ævinlega. Við leggjum mikla áherslu á fjórfrelsið í EES-samningnum og það er ekki svo að það sé ekki skilningur á efnahagslegu mikilvægi málsins. Núna erum við að fara inn í þátt EES og erum í samtölum og viðræðum. Ég ítreka að þau viðbrögð sem við höfum fengið, til að mynda á fundum hér í Brussel morgun, eru góð.”

Flugvélar á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Málið er samt ekki nýtilkomið á dagskrá og Ísland hefur ekki fengið sínu framgengt hingað til. En þú átt von á að það breytist núna á síðustu metrunum?

„Já.”

Er þetta mál það stórt að það er þess virði að leggja EES-samninginn í hættu?

Þetta er það stórt mál að við getum ekki unað við stöðuna eins og hún er.

Ef við fáum ekki okkar framgengt, hvað þá?

„Ég ætla ekki að fara í svona spekúlasjónir.”

En þið hljótið að hafa velt því fyrir ykkur?

„Að sjálfsögðu erum við að gera það. Ég get ekki farið yfir það. Ég er bara að segja að við getum ekki unað við stöðuna eins og hún er og erum að mæta skilningi á þeim sjónarmiðum. Ég átti mjög góðan fund hér í morgun og forsætisráðherra hefur rætt við Olaf Scholz, Þýskalandskanslara, og Ursulu von der Leyen, forseta Framkvæmdastjórnar ESB. Sendiráðið er á fullu í hagsmunagæslu fyrir okkur þannig að spyrjum að leikslokum. Við erum alla vega að vinna okkar heimavinnu.”

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …