Mikil eftirspurn vestanhafs eftir ferðum til Íslands og meginlands Evrópu

Mikil eftirspurn er eftir ferðum til Íslands og meginlands Evrópu frá Bandaríkjunum.

Icelandair þota í Vancouver en ferðir til kanadísku borgarinnar verða á ný hluti af vetrardagskrá flugfélagsins Mynd: Vancouver flugvöllur

Þotur Icelandair munu fljúga til 36 áfangastaða næsta vetur og fjölgar um leið framboði á flugsætum um 20 til 25 prósent frá vetrinum sem nú er senn á enda. Aldrei áður hefur áætlun Icelandair gert ráð fyrir jafn miklum umsvifum yfir vetrarmánuðina að því segir í tilkynningu.

Þar er haft eftir Tómasi Ingasyni, framkvæmdastjóra leiðakerfis og sölu, að áformin séu til marks um sterka eftirspurn og metnaðarfulla þróun á leiðakerfi félagsins.

„Icelandair hefur um árabil lagt áherslu á að efla tengingar við Ísland yfir vetrartímann enda er það mikið hagsmunamál fyrir íslenska ferðaþjónustu og atvinnulíf, auk þess sem það gerir okkur kleift að nýta okkar innviði og flugflota betur.

Við erum þess fullviss að farþegar okkar munu taka nýjungum eins og dagflugi til Bandaríkjanna allt árið fagnandi enda gefa þau kost á þægilegum ferðatíma og ótal tengingum út um öll Bandaríkin með samstarfsaðila okkar, JetBlue. Að sama skapi gerum við ráð fyrir að flug til Rómar og Barcelona verði sérstaklega vinsæl í haust og vetur hjá farþegum til og frá Íslandi sem og tengifarþegum yfir hafið,“ segir Tómas.

Auk þess að spreyta sig í fyrsta sinn á vetrarferðum til Rómar og Barcelona þá áformar Icelandair einnig að fljúga til Vancouver í Kanada á ný allt árið um kring. Bandarísku borgirnar Raleigh og Baltimore eru líka hluti af vetraráætluninni en hætt var við áætlunarferðirnar til þeirrar síðarnefndu nú í ársbyrjun.

Spurður um ástæður þess að hægt verði halda úti daglegum ferðum til Baltimore næsta vetur þá segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Icelandair, að eftirspurn á Bandaríkjamarkaði, hvort sem er til Íslands eða yfir hafið, sé mjög sterk og aukningin á Baltimore og aðra áfangastaði í Norður-Ameríku taki mið af því.

Til viðbótar við nýja áfangastaði þá mun Icelandair einnig í fyrsta sinn bjóða upp á brottfarir til Boston og New York að morgni til utan sumarmánaða. Í heildina verða farnar 11 ferðir í viku til fyrrnefndu borgarinnar og 21 í viku til New York.