Amsterdam hefur lengi verið einn arðbærasti áfangastaðurinn í leiðakerfi Icelandair og nýtir félagið reglulega breiðþotur í ferðirnar til Schiphol flugvallar og getur þá flutt fleiri farþega og þyngri frakt. Sterk staða í Amsterdam byggir einnig á áratugalöngu samstarfi Icelandair og hollenska flugfélagsins KLM.
Wow Air var ekki í neinu þess háttar sambandi en flaug engu að síður líka breiðþotum til hollensku höfuðborgarinnar sem skrifaðist að hluta til á verkefnaskort fyrir þessar stóru vélar eftir að dregið var úr ferðum til Kaliforníu.
Yfirvöld í Hollandi vilja hins vegar draga úr umferðinni við Schiphol og Play fékk aðeins tímabundið leyfi til að fljúga til Amsterdam frá desember 2021 og fram í mars í fyrra. Í dag hóf félagið svo sölu með stuttum fyrirvara á ferðum til borgarinnar frá 5. júní og fram í lok október. Flogið verður allt að fimm sinnum í viku.

„Schiphol-flugvöllur er þriðji stærsti flugvöllur Evrópu og því ákaflega mikilvæg viðbót við leiðakerfi Play. Það er ekki hlaupið að því að fá lendingarleyfi á flugvellinum í dag. Þess vegna stukkum við til þegar okkur bauðst lendingarleyfi þar í sumar. Við vonumst að sjálfsögðu til að geta boðið upp á áætlunarferðir til Amsterdam allt árið og er þessi ákvörðun liður í því að koma okkur í þá stöðu. Markmiðið okkar í ár er að auka hlut hliðartekna verulega í okkar rekstri og með því að taka stefnuna til Amsterdam erum við að setja okkur í frábæra stöðu til að gera það með vöruflutningum,” segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu.
Til að halda úti fluginu til Amsterdam þá hefur Play á móti hætt við áform sín um tvö flug til Árósa í sumar og einnig var ferðunum til Parísar fækkar úr 10 í viku niður í 8 yfir sumarmánuðina samkvæmt svörum frá Play við fyrirspurn Túrista.
Farþegum sem áttu bókað flug með Play til og frá Árósum fá miða sína endurgreidda að fullu.
Icelandair og Play eru ekki ein um að fljúga milli Keflavíkurflugvallar og Schiphol því Transavia heldur líka úti ferðum allt árið um kring á þessari leið.