Samfélagsmiðlar

„Þetta er auðvitað mikið áfall“

Ferðaþjónustufólk lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun þýska flugfélagsins Condor að hætta við flug til Akureyrar og Egilsstaða í sumar en vonast eftir að það komi síðar og að sú mikla undirbúningsvinna sem unnin hefur verið nýtist vel.

Mikil eftirvænting hefur verið á Norðurlandi og Austurlandi vegna fyrirhugaðs áætlunarflugs þýska flugfélagsins Condor til Akureyrar og Egilsstaða í sumar. Condor tilkynnti með skömmum fyrirvara að fallið hefði verið frá áformunum – en flugið átti að hefjast um miðjan maí og standa fram í október. 

Jóna Árný, Clea Braun, Bogi Nils
Jóna Árný, Clea Braun frá Condor og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair á Mannamótum – MYND: Urður Gunnarsdóttir

Meðal þeirra sem unnu að því að opna augu Condor fyrir þessum möguleikum – að fljúga beint norður og austur í stað þess að láta duga að lenda á Keflavíkurflugvelli var Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar: 

„Þetta eru náttúrulega vondar fréttir, það hefur gríðarleg vinna farið í að vinna að því að af þessu flugi yrði og að undirbúa móttöku farþega Condor hér. Hér höfum við öll lagt mikið á okkur undanfarna mánuði í undirbúningi fyrir flugið.” 

Þráinn Lárusson
Þráinn Lárusson, eigandi 701 Hotels – MYND: ÓJ

Félagi Jónu Árnýjar í þeirri baráttu að vekja athygli flugfélaga á beinu flugi til Egilsstaða er Þráinn Lárusson, hótelhaldari og stjórnarmaður í Austurbrú: 

„Þetta er auðvitað mikið áfall sem vekur í fljótu bragði upp ótal spurningar. Hins vegar þýðir ekki að leggja árar í bát. Það er ljóst að áhugi fyrir Norður- og Austurlandi er fyrir hendi. Það er ekki spurning. Ég verð þó að viðurkenna að ég var farin að hafa töluverðar áhyggjur af þessu vegna þeirra ástæðna sem ég hef margoft bent á, það er að það vantar aukna fjárfestingu hér til að taka við fleiri gestum yfir háannatímann. Ferðaskrifstofur tóku vel við sér í upphafi, þegar flugið var ákveðið, og ætluðu að taka mikið af sætum en þegar til kom virðist þeim ekki hafa gengið að taka frá það magn af gistingu sem þurfti með svo stuttum fyrirvara. Það þarf að hafa í huga að bókanir hjá okkur fyrir sumarið í sumar eru að stærstum hluta frá seinniparti ársins 2021.”

Lögurinn
Við Lagarfljót – MYND: ÓJ

Hver er líkleg skýring á þessari ákvörðun, Jóna Árný?

„Condor hefur sjálft sagt það vera hversu seint var farið af stað með að markaðssetja flugið en það gerði þeim erfitt um vik varðandi gistingu. Þegar ferðaskrifstofur erlendis tóku við sér var þegar búið að bóka of mikið til að hægt væri að koma fyrir stórum hópum. Minni hópar og einstaklingar hefðu hins vegar vel fundið gistingu en slík bein markaðssetning var ekki farin nægilega af stað hjá Condor enda mun umfangsmeiri og tímafrekari en markaðssetning til ferðaskrifstofa eingöngu.”

Þráinn, hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun, telur þú?

„Ég átta mig ekki á því í svipan. Þetta hefur held ég ekki mikil áhrif á bókunarstöðuna í sumar, ef nokkur, allavega ekki hjá mínu fyrirtæki þar sem það var það mikið bókað. Auðvitað verður minna um bókanir með skömmum fyrirvara, en það verður nóg hvort sem er.”

Jóna Árný Þórðardóttir
Jóna Árný Þórðardóttir – MYND: ÓJ

Ekkert uppgjafarhljóð er í Jónu Árný, sem tekur fljótlega við starfi bæjarstjóra Fjarðabyggðar – en íbúar þar standa nú í ströngu að vinna úr afleiðingum snjóflóða.

„Við höldum ótrauð áfram. Þetta hefur sýnt svo ekki verður um villst að það er eftirspurn eftir Austurlandi og það er bara spurning um tíma hvenær hingað verður reglulegt beint millilandaflug. Nú leggjumst við yfir það hvernig við getum bætt innviði í ferðaþjónustu, aukið gistirými o.fl. Svona ákvörðun má ekki verða til þess að fólk missi móðinn; áhuginn á að fljúga hingað fer vaxandi og við eigum bara að nota tímann eins vel og okkur er unnt.” 

Arnheiður Jóhannsdóttir
Arnheiður Jóhannsdóttir – MYND: ÓJ

Norður á Akureyri voru líka bundnar miklar vonir við komu Condor. Arnheiður Jóhannsdóttir er framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands: 

„Það eru okkur vonbrigði að Condor hafi ákveðið að fella niður flug til Akureyrar og Egilsstaða sem hefjast átti í maí. Eftirspurnin er til staðar en greinilegt að lengri tíma og meiri skuldbindingu hefði þurft til að láta þetta ganga upp fyrir sumarið. Við horfum auðvitað til þess í hverju flugverkefni sem fer af stað að skuldbindingin sé til lengri tíma og að aðilar hafi trú á áfangastaðnum og séu til búnir að leggja alla sína krafta með ferðaþjónustunni hér á svæðinu í verkefnið. Það er því von okkar að við náum Þýskalandi aftur inn í beinu flugi til Norður- og Austurlands enda var mikill áhugi á verkefninu og spenna fyrir því að verið sé að opna nýjar gáttir til landsins og að nýjar vörur og þjónusta séu í boði. Þennan áhuga höfum við fundið skýrt á vinnustofum og ferðasýningum sem við höfum sótt á undanförnum mánuðum.

Framkvæmdir við Akureyrarflugvöll í haust – MYND: ÓJ

Skýringin er væntanlega sú að væntanleg nýting í vélunum hefur verið undir væntingum. Aðrir áfangastaðir hafa kallað á að vélin verði nýtt í þau verkefni frekar en að taka þá áhættu og vinnu sem það í raun er að starta tveimur nýjum flugleiðum.

Áhrifin eru auðvitað mikil enda var hér um að ræða hátt í 50 flug inn á svæðið sem hefðu getað haft gríðarlega mikil jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna, ekki síst flugin sem náðu fram á haustið. Hér hefur verið unnin mikil undirbúningsvinna sem auðvitað fer að einhverju leyti í súginn en að einhverju leyti er þetta vinna sem mun nýtast fyrir aðra áfangastaði og þróun tengda þeim.

Egilsstaðaflugvöllur
Egilsstaðaflugvöllur í sumar – MYND: ÓJ

Hvað segir Jóna Árný um það: Fer mikil vinna í súginn?

„Ég ætla að vera jákvæð og segja nei, ég trúi því að öll þessi vinna nýtist okkur,  bæði til að búa betur í haginn fyrir ferðamenn á leið til okkar og til að vinna áfram að því að koma á beinu flugi að utan.“

Þráinn Lárusson á Hallormsstað er sama sinnis: 

„Ég held að þessi vinna muni nýtast í framhaldið enda hef ég fulla trú á þessu markaðssvæði. Það að þetta þekkta flugfélag tók ákvörðunin um að fljúga hingað er til marks um að Norður- og Austurland er áhugavert markaðsvæði sem á mikið inni og bara spurning um tíma hvenær það tekst að koma á slíku flugi. Það er styttra í það en margir halda og þegar það gerist verðum við bara betur undir það búin.  

Okkar verkefni hlýtur svo í framhaldinu að gera svæðið að enn betri kosti fyrir ferðamenn.

Huga þarf enn betur að innviðum í ferðaþjónustu, auka gistirými o.fl. Svona ákvörðun verður ekki til þess að fólkið hér missi móðinn við erum vön mótlæti; áhuginn á að fljúga hingað fer vaxandi það er ekki spurning.”

Hafði verið ráðist í fjárfestingar vegna komu Condor, Jóna Árný?

„Ég þori ekki að segja til um umfangið en við vitum að flugið vakti aukna athygli á Austurlandi og ýmislegt jákvætt hefur gerst undanfarna mánuði. Ég ítreka hins vegar, að ég tel að allt jákvætt sem hefur gerst muni nýtast við að taka á móti ferðamönnum hér í fjórðungnum á næstu mánuðum. Þetta sýnir svo ekki er um villst að það er þörf fyrir aukna fjárfestingu í landshlutanum og við væntum þess að bæði fjárfestar og rekstraraðilar vinni að þeim málum á næstu misserum. Við vitum að það er erfitt að komast á þann stað að byggja undir heilsársstarfsemi en það er greinilegt að við verðum líka að stækka sumarið svo við komumst þangað.” 

Arnheiður Jóhannsdóttir
Arnheiður Jóhannsdóttir – MYND: ÓJ

Arnheiður á Akureyri hefur lýst eftir meiri fjárfestingu í innviðum á Norðurlandi. En veldur ákvörðun Condor bakslagi?

„Fjárfestingar vegna Condor hafa ekki verið miklar enda undirbúningstíminn ekki verið langur. Því má segja að skaðinn fyrir svæðin sé helst í framtíðartekjum sem hefðu getað orðið af þessu flugi. Hinsvegar má segja að þessi niðurstaða sýni okkur enn og aftur hversu mikilvægt er að horfa á uppbyggingu flugsins sem langtímaverkefni. Nauðsynlegt er að öll sem að því koma átti sig á að ekki er verið að tjalda til einnar nætur og hafa þarf úthald í verkefnið og þjónustuna við flugfélögin. Markaðssetning á Íslandi er áfram gríðarlega mikilvæg, ekki síst til að fjölga flugverkefnum að vetri til og á jaðartímum. Staða á beinu flugi um Akureyrarflugvöll er þrátt fyrir þetta bakslag betri en áður hefur verið og við höldum ótrauð áfram ásamt samstarfsaðilum okkar inn í næstu verkefni með bjartsýnina að leiðarljósi og trúna á það að þannig getum við breytt þróun ferðaþjónustu á Íslandi og styrkt áfangastaðinn Ísland til lengri tíma.“  

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson – MYND: ÓJ

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er framkvæmdastjóri Niceair. Hann hafði fagnað komu Condor til Akureyrar og sagt að með meiri áhuga styrktist svæðið. Hver eru hans viðbrögð við tilkynningunni um að Condor væri hætt við?

„Þetta kemur ekki alveg á óvart, en sjálf frestuðum við Düsseldorf-flugi okkar um eitt ár þar sem þýskar ferðaskrifstofur töldu sig ekki geta tryggt gistirými í Norður- og Austurlandi fyrir sína hópa. Það er að verða gömul tugga að gistirými á svæðinu er að mestu uppselt yfir sumarmánuðina og því ekki alveg óvænt að þetta komi á daginn.

Vonandi nýta þeir tímann vel fram til 2024 og undirbúa endurkomu, því það hefði sannarlega verið góð viðbót að sjá flug þeirra um Akureyri og Egilsstaði.“

Steingrímur Birgisson
Steingrímur Birgisson – MYND: ÓJ

Steingrímur Birgisson, Forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar, lýsir vonbrigðum eins og aðrir með þessa niðurstöðu:

„Þetta er auðvitað sorglegt enda bundnar töluverðar vonir við þetta flug og margir ferðaþjónustuaðilar farnir að undirbúa sig fyrir þessi flug, ráða aukafólk ofl. Kemur samt því miður ekki mjög á óvart því markaðssetning þessa flugs virtist hafa farið mjög seint og hægt í gang – hreinlega vissu margir ekki af þessu fyrr en um seint og síðir.  Héðan frá séð, þá vantaði töluvert uppá markaðssetningu þessa flugs.“

Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir – MYND: ÓJ

Auk þess að gegna formennsku í Samtökum ferðaþjónustunnar á og rekur Bjarnheiður Hallsdóttir ferðaskrifstofuna Katla DMI. Hvernig bregst hún við þessum fréttum:

„Þetta er í fyrsta lagi mjög leitt að heyra, þar sem flug til Egilsstaða og Akureyrar samræmist þeirri stefnu vel að efla ferðaþjónustu á landsbyggðinni og stuðla að lengri dvöl ferðamanna í þeim landshlutum sem við á. Líkleg skýring þykir mér að Condor hafi einfaldlega tekið ákvörðun um þessi flug of seint, þ.e. eftir að stærstu ferðaheildsalarnir í Þýskalandi voru búnir að gera sínar áætlanir og bóka eða fela íslenskum ferðaskrifstofum að bóka fyrir sína viðskiptavini miðað við flug til Keflavíkur. Þeir sem síðan þrátt fyrir það hefðu viljað nýta flugið, hafa svo verið of seint á ferð til að tryggja sér gistingu og jafnvel aðra þjónustu, bæði í nágrenni flugvallanna og svo áfram, hvert sem ferðinni var heitið. Eftirspurn einstaklinga á eigin vegum hefur ekki dugað til. 

Það er mikilvægt og í raun nauðsynlegt fyrir framhaldið að þau flugfélög sem hyggja á flug til þessara valla séu tilbúin til að skuldbinda sig yfir lengri tíma, þar sem það tekur tíma að markaðssetja nýja flugvelli og koma þeim á kortið, sérstaklega hjá ferðaheildsölum. Það er vonandi að Condor sé tilbúið að taka upp þráðinn fyrir næsta ár og vera þá fyrr á ferðinni með að tilkynna flugáætlun og ekki væri verra ef ekki væri eingöngu einblínt á háannatímann.“

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …