Vanguard á lista yfir stærstu hluthafa Icelandair

Þota Icelandair á bandarískri grundu. Mynd: Denver

Bandarískir sjóðir halda áfram að auka hlut sinn í Icelandair því samkvæmt nýjum hluthafa lista þá hefur bandaríska sjóðastýringafyrirtækið Vanguard eignast 0,89 prósent hlut í Icelandair. Flugfélagið bætist þar með í hóp fjölda skráðra íslenskra fyrirtækja sem Vanguard hefur fjárfest í undanfarin misseri.

Um leið eykst vægi erlendra fjárfesta í eigendahópi Icelandair en líkt og fram kom í nýlegri fréttaskýringu Túrista þá hefur eignarhaldið á Icelandair gjörbreyst síðustu ár. Áður áttu Íslendingar félagið að öllu leyti en nú fer hlutur erlendra fjárfesta að nálgast 30 prósent.

Þar af fer bandaríski sjóðurinn Bain Capital fyrir 17 prósentum en sú eign er reyndar skráð á írskt skúffufélag.