Strax í gær hófust aðgerðir hjá Verdi (Vereinte Dienstleistungsgewerkschaft), næst stærstu verkalýðssamtökum Þýskalands, þegar umferð um flugvöllinn í München stöðvaðist vegna verkfallsaðgerða. Í dag héldu aðgerðir áfram og stöðvuðu m.a. flugumferð um Fankfurt-flugvöll og lestarsamgöngur fóru úr skorðum.
„Verkföll hafa aðeins áhrif ef með þeim eru send skýr skilaboð,“ sagði Frank Werneke, formaður Verdi, í viðtali við Bild am Sonntag. Hann segist ekki vera með slæma samvisku. Starfsfólk sem haldi samgöngukerfi landsins gangandi sé á alltof lágum launum og þurfi að þola of mikið álag – ekki síst vegna þess að illa gengur að ráða í störfin. Í stað þess að bregðast við sanngjörnum kröfum hunsi atvinnurekendur þær.
Þess vegna eru skilaboð okkar skýr: Við samþykkjum þetta ekki.“
Verkföllin í dag eru þau umfangsmestu í landinu frá 1992.

„Við hefjum verkfall á mánudegi full sjálfstrausts. Þetta er enginn leikur. Við bregðumst við af nauðsyn en ekki léttúð. Meirihluti þjóðarinnar styður kröfur okkar,“ segir Werneke.
Verdi hefur farið fram á 10,5 prósenta almenna launahækkun, sem er óvenjulega há krafa í þýsku samhengi og hafa viðsemjendur hingað til algjörlega hafnað henni.
Icelandair og Lufthansa felldu niður flugferðir til München í gær. Í dag fellir Icelandair niður flug til beggja borga. Hinsvegar flaug Play til Berlínar í morgun.