Samfélagsmiðlar

Vilja jafna stöðu í samkeppni við skemmtiferðaskipin og Airbnb

„Ég hef trú á að augu almennings og stjórnmálamanna séu að opnast," segir Kristófer Oliversson, formaður FHG, um troðningstúrismann sem fylgir komum skemmtiferðaskipanna sem lítið skilji eftir af tekjum. Hógvær krafa hótelanna sé að fá að keppa á jafnréttisgrundvelli við skipin og Airbnb-íbúðirnar.

Kristófer Oliversson

Kristófer Oliversson á Hótel Miðgarði við Laugaveg

Center Hotels er hótelkeðja í eigu fjölskyldu hjónanna Kristófers Oliverssonar og Svanfríðar Jónsdóttur, sem hafa beitt kröftum sínum að miðborg Reykjavíkur en líka skoðað aðra möguleika. Hótelin eru orðin átta í Reykjavík auk hótelíbúða. Alls eru herbergin um 1.000 talsins. Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels, segir að fjölskyldan hafi sett sér það eina markmið að lifa af kórónaveirufaraldurinn. Það hafi tekist. Kristófer er jafnframt formaður FHG, Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.

Hótel Grandi við Seljaveg – MYND: ÓJ

„Spurningunni um framtíðina er ég vanur að svara svona: Við erum ung og frísk og skoðum öll tækifæri. Við núverandi aðstæður byggjum við ekki meira. Nú á dögunum bættum við reyndar við nokkrum hótelíbúðum við Þingholtsstræti. Nýlokið er framkvæmdum við Granda-hótelið í Héðinshúsinu. Verkið tafðist um tvö ár í kerfinu. 

Inngangur móttökusalar Hótel Granda – MYND: ÓJ

Við vorum komin mjög langt með áform á Akureyri. Vildum byggja 150 herbergja hótel á reitnum milli Hafnarstrætis og Drottningarbrautar í samstarfi við KEA-fjárfestingar en ekki tókst að fjármagna áformin á viðunandi kjörum. Þá hafði okkur gengið vel í nokkur ár og við vorum tilbúin að taka þetta stökk. Ég hafði tröllatrú á pródúktinu. Reyndar myndi ég heldur vilja að alþjóðaflugið á Norðurlandi færi um Húsavíkurflugvöll í Aðaldal en Akureyrarflugvöll. Byggja þá upp og nýta betur hótelin á Húsavík, í Mývatnssveit og á Akureyri – allt í innan við 40 mínútna akstursfjarlægð. Það myndi styrkja verulega alþjóðaflug til Norðurlands að geta bent á tvo flugvelli sem hægt væri að fara um: Húsavík og Akureyri.”

Á þessum reit á Akureyri stóð til að reisa hótel – MYND: ÓJ

Þið eruð Reykjavíkurkeðja og það er ekkert í kortunum um að það breytist á næstunni?

„Við gerðum atrennu að því að kaupa fyrirtæki á Suðurlandi en það tókst ekki. Áformin á Akureyri gengu ekki upp.

Það er okkar lán að vera frekar blönk, höfum enga á bak við okkur, þurfum að fara varlega. Okkar eina markmið er að þessi fjölskyldurekna hótelkeðja haldi velli. Og það gengur bærilega!”

Erlendir aðilar hafa á síðustu misserum látið til sín taka í hótelrekstri hérlendis og ný áform hafa verið kynnt, t.d. um byggingu hótels í Skálafelli. Víða á landsbyggðinni bíða tækifæri til að mæta vaxandi eftirspurn og skapa forsendur fyrir því að dreifa meira álaginu sem fylgir þeim fjölda sem kemur. Ertu ekki sammála því?

Kristófer fagnar blaðamanni – MYND: ÓJ

„Jú, bæði mæta sókninni og byggja upp eftirspurn. Við byrjuðum 1994 hér í Reykjavík og þá voru þetta bara viðskipti í nokkra mánuði. Síðan breyttist það á árunum eftir bankahrun. Þá varð smám saman til heilsárs starfsemi hér í miðborg Reykjavíkur. Þetta varð miklu skemmtilegra eftir að hótelreksturinn varð atvinnugrein allt árið. Þú vinnur með sama fólki árið um kring – byggir upp með því. Vinnur ekki bara með því yfir sumarið og missir það síðan að hausti og þarft að byrja upp á nýtt næsta vor.”

Ferðafólk á gangi við Berjaya-hótelið Marina við Daníelsslipp – MYND: ÓJ

Þið sem rekið hótel í Reykjavík eruð í harðri samkeppni við skemmtiferðaskipin sem leggjast hér að bryggju við Skarfabakka og ferðamannaíbúðir eins og hjá Airbnb. Er þetta heilbrigð samkeppni?

„Nei. Okkar hógværa ósk er að fá að keppa á jafnréttisgrundvelli. Við erum ekki smeyk að keppa við þessa aðila. Reyndar undrast ég svolítið að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, láti það ekki fara í taugarnar á sér að skemmtiferðaskip með 600 herbergi komi hingað hvert á fætur öðru – og sigli svo í kringum landið. Þessi skip eru skráð í öðrum ríkjum og greiða enga skatta og skyldur af rekstrinum, þar með talið launum starfsfólks, til Íslands. Þessar útgerðir greiða aðeins hafnargjöld og lágt farþegagjald, sem nemur bara örlitlu broti af því sem hótelin greiða. Krafan um jafna aðstöðu nær heldur ekki til Airbnb-íbúðanna, sem undanþegnar eru öllum leyfum, sköttum og skyldum fyrstu 90 dagana. Meira að segja eldurinn þarf að virða 90 daga regluna, þ.e. mun vægari kröfur eru um eldvarnir þar en gagnvart hótelunum.”

Hótel Arnarhvoll á horni Skúlagötu og Ingólfsstrætis – MYND: ÓJ

Túristi sagði frá því á dögunum að ríkisstjórn sósíalista í Portúgal ætlaði að þjarma að Airbnb með því að veita ekki ný leyfi – fækka ferðamannaíbúðum í miðborgum Lissabon og Porto. Telur þú að íslensk stjórnvöld ættu að gera slíkt hið sama?

„Já, alveg hiklaust. Við höfum sent þeim skýrar tillögur um að stytta leyfilegan leigutíma niður í 30 daga. Heimagisting miðast við leigu á lögheimili viðkomandi og á einni íbúð til viðbótar í samanlagt 90 daga á ári. Þróunin hefur orðið sú að einstaka aðilar hafa eignast fjölda íbúða og leigt þær ferðamönnum. Ég held að sá stærsti hafi verið kominn með 300-400 milljóna veltu í skattfrjálsu Airbnb-umhverfi. Þessir aðilar greiða hvorki virðisaukaskatt né gistináttaskatt – og greiða ekki tryggingagjald, áfengisgjald og önnur slík gjöld. Fasteignaskatturinn er aðeins um tíundi hluti af því sem hótelin greiða. Fasteignaskattur á hótel er 1,6 prósent af fasteignamati þeirra en aðeins 0,18 prósent á íbúðahúsnæði.

Ferðamannahópur fær leiðsögn í miðborginni. Hótel Plaza í baksýn – MYND: ÓJ

Þetta er einnig að stórum hluta svört atvinnustarfsemi. Það heyrum við frá fólki sem vinnur á þessum stöðum. Við verðum ekki vör við Airbnb-fólkið á launagreiðendaskrám og þessir aðilar sóttu ekki um stuðning vegna tekjufalls í kórónaveirufaraldrinum. Sumir skrá sig hjá sýslumanni – ekki allir. Þetta er bara gullæði, algjört Klondike. Við erum alveg til í að keppa við Airbnb – ef við fáum að keppa við þá á sama grundvelli. Þessi staða bitnar ekki síst á húsnæðisleit fólks með lægri tekjur, sem ekki getur keppt við hið uppsprengda leiguverð í miðbænum sem Airbnb hefur átt stóran þátt í að búa til.

Það er af þessum ástæðum sem ríkisstjórnin í Portúgal er að bregðast við og takmarka verulega slíka útleigu til ferðamanna.”

Túristar og rafskútur – MYND: ÓJ

Hvaða áhrif hefur Airbnb á miðborg Reykjavíkur, þar sem þið rekið ykkar hótel?

„Við hótelrekendur fáum í andlitið allar skammirnar vegna offjölgunar túrista í miðborginni. En þegar þeir fylla stóran hluta íbúða á svæðinu þá blasir við hver áhrifin verða. Árið 2018 voru 5.000 hótelherbergi í Reykjavík en 8.500 Airbnb-herbergi. Nú eru hótelherbergin að nálgast að vera 6.000 og um áramót voru Airbnb-herbergin álíka mörg. Ríkisskattstjóri hafði afskipti af þeim stórtækustu í Airbnb. Ef bornar eru saman tekjurnar af þessum tveimur rekstrarformum þá blasir munurinn við. Hvert herbergi á miðlungshóteli í Reykjavík borgar 2 milljónir á ári í gistináttaskatt, virðisaukaskatt, tryggingagjöld, staðgreiðslu af launum starfsfólks, áfengisskatt, fasteignagjöld. Þetta borgum við allt.” 

Hótel Klöpp við Klapparstíg – MYND: ÓJ

Svo eru það skemmtiferðaskipin.

„Já, síðan koma skemmtiferðaskip á vorin, sigla í íslenskri lögsögu á milli hafna – leggja nærri okkar hótelum í landi en borga ekki nein af þessum gjöldum. Þau borga smáaura í hafnargjöld, sem teljast ekki miklir fjármunir fyrir þjóðina þótt hafnirnar sækist eðlilega eftir þeim tekjum.“

Hvað skýrir það að stjórnvöld taki ekki á þessum málum – setji skýrar og afmarkandi reglur um komur þessara fljótandi hótela. Eru þið svona lágróma að á ykkur er ekki hlustað?

„Sveitarfélögin eru með sterka rödd og þau sem tala mjög fyrir mikilvægi móttöku skemmtiferðaskipanna, Grundarfjörður, Ísafjörður og Akureyri, lýsa þessu sem stórkostlegum ávinningi. En í heildina eru þetta smáaurar. Samkvæmt hafnarlögum þá mega sveitarfélög ekki hagnast af rekstri hafnanna. Þannig að eftir því sem hafnirnar græða meira á komum skemmtiferðaskipanna þá verður að lækka gjöldin á öðrum viðskiptavinum eða stækka stöðugt og byggja upp stærri hafnir. Það er verið að byggja upp á Skarfabakka, á Ísafirði, Akranesi og Akureyri.

Þrjú skemmtiferðaskip við bryggju á Akureyri – MYND: ÓJ

Það er bara eitt markmið með þessari uppbyggingu: Að taka á móti fleiri skemmtiferðaskipum. Þá sópast hingað inn í Disneylandið – svo ég noti samlíkingu portúgalska forsætisráðherrans – aragrúi af fólki sem situr um fjölsótta ferðamannastaði. Þeir staðir eru líka auðlind okkar sem búum á Íslandi. Við erum til í að deila þeim með ferðamönnum sem skilja eftir miklar tekjur í okkar samfélagi – en við eigum ekki að galopna þær auðlindir fyrir slíkum troðningstúrisma sem skilur lítið eða ekkert eftir í landinu.

Ég hef trú á að augu almennings og stjórnmálamanna séu að opnast. Eins og ég sagði, þá borgar meðal hótelherbergi um 2 milljónir króna á ári í ríkissjóð. Center Hotels eru með um 1.000 herbergi og í Reykjavík eru um 6.000 hótelherbergi alls. Það gerir 12 milljarða króna í gjöld á ári í ríkissjóð. Af því fara um 75 prósent í ríkissjóð og um 25 prósent í sveitarsjóð í formi útsvars og fasteignagjalda. Svo bætast við önnur umsvif í kringum reksturinn.”

Hótel Skjaldbreið við Laugaveg – MYND: ÓJ

Gerir þú þér vonir um að tekið verði á þessu í nýrri stefnumótun ferðamálaráðherra?

„Ég væri ekki í þessu ef ég væri ekki bjartsýnn. Við erum búin að tala um þetta í mjög mörg ár. Nú finnst mér vera hljómgrunnur. Þegar fólk sér fram á 40 prósenta fjölgun í komum skemmtiferðaskipa á ári. Hvað viltu fjölga þeim mikið? Við þurfum að búa í siðuðu samfélagi, þar sem sömu leikreglur gilda fyrir alla. Þá erum við til í slaginn.”

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …