Greiðslufyrirkomulagi við hlið bílastæða á Keflavíkurflugvelli verður breytt

Bílastæðahlið
Núverandi staur við hliðið út af langtímastæðinu á Keflavíkurflugvelli MYND: ÓJ

Flestir sem hafa þurft að leggja bíl á stæðum við Keflavíkurflugvöll hafa líklega orðið vitni að því eða sjálfir upplifað það sjálfir að búnaðurinn við hliðið virkar ekki sem skyldi. Röð getur þá myndast á meðan leyst er úr málum.

Vafstur með kort eða miða við hliðin í myrkri og leiðindaveðri er heldur óskemmtilegt. Stundum þarf að hafa samband við vaktmenn til að opna hliðin.

Við hliðið á langtímastæðinu á Keflavíkurfugvelli að morgni skírdags – MYND: ÓJ

Nú er komið að því að skipta út þessum búnaði, sem hefur verið gjarn á að bila, t.d. vegna þess að vatn hefur farið inn um raufar á greiðsluvél.

Maren Lind Másdóttir – MYND: ÓJ

Maren Lind Másdóttir er forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli:

„Við erum að breyta bílastæðabúnaði okkar. Komið verður upp númeralesurum og ökumenn geta notað hin ýmsu smáforrit til að greiða fyrir lagningu. Með þessu erum við að auka möguleika farþegans á að velja sér greiðsluleið en einnig að bæta upplifun hans af bílastæðum, ásamt því að bæta endingu bílastæðabúnaðarins. Við áætlum að taka nýja búnaðinn í notkun fyrir sumarið og erum spennt að sjá það raungerast.”

Ekið út um hlið á langtímastæði – MYND: ÓJ

Ítarlegt viðtal við Maren um verkefni sem unnið er að á Kelavíkurflugvelli birtist í áskrifendum Túrista fyrir páska.

Langtímastæðin eru þéttskipuð fyrir páska – MYND: ÓJ