Áfram hækka aukagjöldin hjá Play

kef taska 860
Það kostar sitt að taka með sér stóra tösku í flugið hjá Play. MYND: ISAVIA

Þegar Play hóf að selja farmiða fyrir tveimur árum síðan þá þurfti að borga á bilinu 3.400 til 4.600 krónur fyrir að innrita hefðbundna ferðatösku í flug með félaginu. Gjaldið var hækkað í árslok 2021 og aftur í fyrrasumar og nú hefur enn ein hækkunin verið gerð. Farþegar Play sem ætla að ferðast með 20 kílóa tösku verða í dag að borga 5.865 til 7.225 krónur en allt að 8.415 ef 23 kíló eru í töskunni.

Þessar upphæðir eiga aðeins við einn fluglegg og farþegi sem flýgur með Play til Tenerife og heim aftur með 23 kílóa tösku getur þurft að borga allt að 16.830 kr. fyrir farangurinn.

Gjaldtaka Play vegna handfarangurs hefur líka hækkað. Í upphafi kostaði 3.100 að taka með sér tösku í farþegarýmið sem ekki komst undir sætin en núna getur gjaldið fyrir þess háttar farangur verið tvöfalt hærra eða 6.205 krónur.

Hækkunin á sætisgjöldunum nemur helmingi því þau dýrustu kosta núna 6.545 kr. eða voru á 4.200 þegar Play hóf miðasölu vorið 2021. Þá gátu farþegar reyndar aðeins pantað berstrípuð fargjöld þar sem ekkert að ofantöldu var innifalið. Núna býður Play hins vegar upp á þrjár tegundir fargjalda og er farangur og val á sætum hluti af þeim dýrari.

Play er ekki eitt um að rukka aukalega fyrir farangur og val á sætum. Icelandair hefur til að mynda aukið þess háttar gjaldtöku töluvert síðustu ár því í dag geta farþegar með Ecomony Light miða ekki valið sér eitt einasta sæti nema borga greiða aukalega fyrir.