Beint frá Egilsstöðum til Tenerife

Við sundlaugarbakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Ásókn Íslendinga í ferðir til Tenerife hefur ekki framhjá nokkrum manni farið og eftirspurnin er ekki á niðurleið. Það sýndi loftbrúin milli Keflavíkurflugvallar og spænsku eyjunnar um nýliðna páska vel.

Flugið til Tenerife hefur hins vegar takmarkast við Keflavíkurflugvöll og Akureyri en þann 10. júlí ætlar Úrval-Útsýn að spreyta sig á beinu flugi frá Egilsstöðum. Flogið verður heim frá Tenerife þann 20. júlí og í boði eru 186 sæti.

Þetta er í fyrsta sinn sem Úrval-Útsýn standa fyrir beinu flugi frá Egilsstöðum til Tenerife og spurð um þessi áform þá segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar, að hún telji að markaður sér á Austurlandi fyrir beint flug til Tenerife. Þórunn segist því ekki útiloka að fleiri ferðir verði farnar ef viðtökurnar verði góðar fyrir austan.

Líkt og greint var frá hér á síðunni þá settu Heimsferðir nýverið í sölu tvær ferðir frá Akureyri til Tenerife í sumar.