Markmið alþjóðasamfélagsins er að hafa minnkað kolefnisfótspor mannsins um 70 prósent árið 2030 – frá því sem var 1990. Útreikningur á hlut ferðaþjónustunnar í Danmörku og því sem fylgir ferðum Dana um heiminn er liður í því að meta betur losunina og fnna út úr því hvernig hægt er að draga úr henni. Ljóst er að þjóðir heims þurfa að vinna stórvirki á allra næstu árum til að ná markmiðinu um stórminnkaða losun og á endanum kolefnishlutleysi.

Ferðamálaráð Danmerkur hóf undirbúning þessa verks á samstarfsvettvangi um eflingu sjálfbærrar ferðaþjónustu og með rannsóknarstofnun í ferðamálum, CRT, á síðasta ári. Unnið er út frá fyrirliggjandi tölum um fjölda ferðamanna og umsvif þjónustunnar við þá til að meta loftslagsáhrif af neyslunni. Hægt verður að greina losun vegna ferðamanna í landinu og áætla líka það sem fylgir ferðum Dana sjálfra um heiminn. Losunin verður flokkuð eftir hvort um er að ræða gistiþjónustu, veitingarekstur eða fólksflutninga í Danmörku. Þannig verður betur hægt í framtíðinni að sjá hvar draga megi úr losun.
Haft er eftir Anne Thomas, forstjóra CRT, á vef Danska ferðamálaráðsins að mikill alþjóðlegur áhugi sé á þessu framtaki Dana. Hún nefnir Norðurlandaþjóðirnar en líka Þýskaland, Króatíu og Wales. Unnið verði áfram að því að þróa og bæta aðferðirnar. Á næsta ári sé stefnt að því að vinna með losunartölur frá einstökum áfangastöðum ferðamanna í landinu, greina betur neyslumynstur ferðamanna og viðleitni fyrirtækja í umhverfismálum, t.d. ráðstafanir hótela til að draga úr orkunotkun og þar með minnka kolefnisfótspor sitt.