Samfélagsmiðlar

Fimm stjörnu veisla í Flatey á Skjálfanda

Flogið var með erlenda gesti í fjórum þyrlum út í Flatey á Skjálfanda í gærkvöld þar sem þeirra beið glæsileg veisla sem starfsfólk Gentle Giants á Húsavík hafði undirbúið. Stefán Guðmundsson, skipstjóri og eigandi Gentle Giants, segist bjartsýnn á að sumarið verði gott fyrir norðan.

Hús Gentle Giants í Flatey á Skjálfanda

„Þetta var náttúrulega bráðskemmtilegt. Við erum auðvitað ánægð þegar fólk er tilbúið að fara út í þessa paradís og njóta þess sem við höfum þar upp á að bjóða,“ segir Stefán Guðmundsson og er mjög sáttur með hvernig til tókst í Flatey í gær.

Stefán (lengst til vinstri á myndinni) ásamt félögum við Flatey í gærkvöld – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

„Við fengum pöntun með tiltölulega stuttum fyrirvara frá aðila sem við höfum unnið töluvert með um Flateyjarferð þennan dag. Þetta kemur upp óvenju snemma árs. En þegar leysa þarf eitthvert verkefni þá gerum við það með sóma. Fyrst stóð til að farþegar flygju til Húsavíkur og færu með okkur í bátum út í eyna en við fögnuðum því þegar planinu var breytt. Það hefur verið nístingskalt á Skjálfanda síðustu daga.

Ein þyrlanna í Flatey – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Úr varð að um 20 gestir okkar voru fluttir með fjórum þyrlum á tilteknum tíma út í Flatey. Síðan fóru þyrlurnar aftur til Akureyrar að sækja eldsneyti og sóttu síðan gestina síðar um kvöldið og flugu með þá burt.“

Hvað beið þessara gesta í Flatey?

„Við fórum út í Flatey snemma í gærmorgun á tveimur bátum, sem óskað hafði verið eftir: trébátnum Faldi ÞH og einum RIB-bátnum okkar, Ömmu Helgu ÞH. Þetta voru 10 manns, áhafnir bátanna, kokkar og þjónar, starfsfólk Gentle Giants. Við gerðum allt klárt.

Allt klárt fyrir gestina – og nikkan þanin á hlaðinu – MYNDIR: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Þegar gestirnir svo komu var haft ofan fyrir þeim og síðan gengið til veislu. Eftir matinn var farið í sjóstangaveiði í logninu við Flatey. Allir fóru með bros á vör til baka.“

Umræddir gestir eru á ferð um Ísland, fara á vel valda staði, gjarnan í þyrlum, og njóta margs þess besta sem ferðaþjónustan hefur að bjóða. Stefán hjá Gentle Giants orðar það snyrtilega þegar hann segir að þessir gestir séu úr „efri hillum“ í efnalegu tilliti.

„Eins og fólk veit í þessum bransa þá eru hillurnar nokkuð margar. Undanfarna áratugi hef ég alltaf sagt að við þurfum á öllum hillunum að halda – öllum tegundum ferðamanna. Þarna vorum við að vinna með fólki úr efstu hillu og það er auðvitað bæði mjög skemmtilegt og sérstaklega krefjandi. En við gerum okkar besta eins og alltaf.“

Þú ert sáttur hvernig til tókst í gærkvöld?

„Þetta gekk eins og í sögu og skýrist af því að mannskapurinn hefur gert þetta í mörg ár. Við vitum hvernig umgjörðin á að vera og hvernig halda skal á málum.“

Kokkar og þjónar bíða gesta – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Veislan í gærkvöld fór fram í húsi í Flatey þar sem áður var járnsmiðja langafa Stefáns og sambyggt lifrarsamlag. Stefán og félagar endurbyggðu þessi hús og voru þau tekin í notkun fyrir einu ári.

„Húsin voru einmitt hugsuð þannig að hægt væri að taka á móti hópum fólks sem vill gera sér dagamun í Flatey og njóta þar veitinga. Síðasta sumar bauð veðrið ekki upp á að margir færu þangað en nú erum við vongóð. Þegar hafa nokkrir hópar bókað Flateyjarferð í sumar til að njóta þess sem við höfum þar að bjóða, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn.“

Gentle Giants hafa um árabil sinnt hvalaskoðun og skoðunarferðum á Skjálfanda en Stefán er með skýra sýn hvað varðar ferðaþjónustu í Flatey.

„Við viljum ekki að í Flatey verði fjöldasamkomur, heldur hafa þetta allt í minni sniðum en víða tíðkast núorðið.“

Móttökuhúsið í Flatey – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Hvernig horfir sumarið við ykkur? Hafa margir bókað ferðir í hvalaskoðun frá Húsavík?

„Bókanir fyrir sumarið líta vel út. Svo verður auðvitað tíðarfarið að ráða hvernig vinnst úr því. En við erum tiltölulega bjartsýn – og alveg í skýjunum með það að geta aukið víddina í okkar starfi með þessu nýja húsi í Flatey og þeirri aðstöðu sem það býður upp á.“

Nýtt efni

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …