Fljúga „innanlandsvélunum“ til útlanda

Ein af Q400 flugvélum Icelandair. MYND: ICELANDAIR

Þeir sem eiga bóka far með Icelandair til Bergen, Dublin, Manchester eða Óslóar í sumarbyrjun gætu átt von á því að fljúga héðan með Q400 flugvélum félagsins. Þessar flugvélar eru dagsdaglega nýttar í innanlandsflug Icelandair og ferðir til Grænlands.

Spurður um ástæður þess að flugvélarnar verða nýttar í lengri flugferðir þá segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Icelandair, að um sé að ræða fyrirbyggjandi aðgerð til að búa til aukið rými til að klára viðhald á flugvélum áður en háönnin hefst.

„Viðhaldsvinna hefur tekið heldur lengri tíma í kjölfar Covid, meðal annars vegna aðfangakeðja, eins og þekkt er orðið. Einungis er um að ræða 14 ferðir á Q400 til áfangastaða utan Íslands og Grænlands í júní. Það nemur tæplega 0,01 prósenti af 1630 ferðum okkar í mánuðinum,“ útskýrir Guðni.

Á árunum fyrir heimsfaraldur flaug Icelandair Q400 flugvélum til bæði Belfast á Norður-Írlandi og skosku borgarinnar Aberdeen en ferðirnar til þessara borga hafa ekki ratað aftur inn á leiðakerfi félagsins.