Flug til Tenerife fyrir lítið um helgina

La Orotava á norðurhluta Tenerife MYND: UNSPLASH

Á þessum tíma í fyrra voru flugmiðarnir héðan til Tenerife þeir dýrustu sem í boði voru og síðan þá hefur brottförunum til spænsku eyjunnar fjölgað. Þess sjást þó merki að eftirspurnin hafi ekki aukist í sama takti því nú er hægt að fá flugmiða til Tenerife með stuttum fyrirvara fyrir lítið.

Plúsferðir bjóða til að mynda upp á flug þangað á sunnudaginn fyrir 9.900 krónur og hjá Play kostar miðinn í sunnudagsferðina 15.550 kr. Borga þarf aukalega fyrir innritaðan farangur í báðum tilvikum.

Hjá Icelandair eru farmiðarnir um helgina mun dýrari en hjá keppinautunum og það á líka við um næsta mánuð. Að jafnaði kostar farið héðan til Tenerife með Icelandair 55.892 krónur í maí en meðalfargjaldið hjá Plúsferðum er 17.400 og 27.819 hjá Play.

Í öllum tilvikum er bara um að ræða flugferðina út og greiða þarf sérstaklega fyrir ferðatöskur.