Samfélagsmiðlar

Flugrekstur undir þrýstingi

„Það sem flugfélögin óttast mest er að ríkisstjórnir freistist til að draga með ýmsum ráðum úr flugumferð í leit sinni að skjótri lausn við loftslagsvandanum,” segir í fréttaskýringu í Financial Times. Rekja má um tvö og hálft prósent allrar kolefnislosunar tll flugumferðar. Franska ríkisstjórnin boðar auknar álögur á einkaþotur.

Styttur á Kastrup

Frá Kaupmannahafnar-flugvelli á Kastrup

Það fer ekki framhjá neinum sem fylgist með alþjóðafréttum að vaxandi þrýstingur er á ríkisstjórnir landa heims að grípa til einbeittari og harðari aðgerða til að hægja á kolefnislosun. Í síðasta mánuði sagði António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, að þörf væri á risaskrefi í aðgerðum til að minnka losun ef ætti að vera mögulegt að takmarka hlýnun við eina og hálfa gráðu.

Hollenska ríkisstjórnin brást m.a. við með því að takmarka fjölda flugtaka og lendinga á Schiphol-flugvelli til að draga úr hávaða og loftmengun. Þeirri var ákvörðun var hinsvegar hnekkt tímabundið fyrir dómi vegna tæknilegra ágalla en ríkisstjórnin er staðráðin að halda til streitu áformum um að minnka flugvöllinn stóra við Amsterdam. Til að sýna þann vilja í verki, tilkynntu stjórnvöld um bann við næturflugi og takmörkun á ferðum einkaþota og annarra háværra loftfara, eins og Túristi hefur greint frá. 

Flugvél Emirates á Malpensa-flugvelli í Mílanó – MYND: ÓJ

Financial Times bendir á að margir í fluggeiranum óttist að ráðstafanir eins og þær sem eigendur Schiphol hafa gripið til og boðað dugi skammt. Blaðið hefur eftir ónefndum reynslubolta að erfitt verði að komast hjá því að stýra eftirspurn með beinni og meira afgerandi hætti. Lausnir fluggeirans miðist við að skila árangri á löngum tíma en hraði loftslagsbreytinganna krefjist þess að grípa verði til mun harðari aðgerða til að minnka losun en hingað til hafi verið stefnt að. Þau sem gagnrýnt hafa aðgerðirnar á Schiphol hafi sagt að þær skili engu. Flugumferðin færist einfaldlega annað. En þá horfi gagnrýnendur framhjá því að þessar aðgerðir eru einmitt vísbending um það sem koma skal. Fleiri muni fylgja fordæmi Schiphol. Það taki hinsvegar fluggeirann langan tíma að þróa og innleiða notkun á sjálfbæru eldsneyti og taka í notkun vistvænar farþegaflugvélar. Það verði því torsótt að óbreyttu að ná markmiðinu um kolefnishlutleysi árið 2050 – aðallega vegna þess hversu skammur tími sé til stefnu en vandinn ógnvænlegur. Þörf sé á tafarlausri minnkun losunar. 

Á Schiphol-flugvelli – MYND: ÓJ

Harðnandi kröfur um tafarlausar aðgerðir til að minnka losun frá flugi koma fram á sama tíma og flugumferðin vex hratt eftir doðann á árum heimsfaraldursins. Þessi hraða endurkoma er áberandi og gerir flugiðnaðinn viðkvæman fyrir gagnrýni og því er freistandi fyrir stjórnmálamennina að líta til hans þegar grípa þarf til skjótra lausna. Financial Times bendir á að þetta sé þegar að gerast. Franski samgönguráðherrann hafi í síðustu viku lagt til að skattur á eldsneyti einkaþota verði hækkaður um 70 prósent. Þá hafi hann hvatt til harðra aðgerða innan Evrópusambandsins til að takmarka flug einkaþota, sem eru ekki ábyrgar fyrir stórum hluta heildarmengunar af flugi en hlutfall kolefnislosunar á hvern farþega einkaþotanna er auðvitað mjög hátt. Búast má við að vaxandi þrýstingur verði á að hinir ríku sem ferðast einir um háloftin verði látnir borga umtalsvert meira fyrir þann stórmengandi lúxus. 

Einkaþotur
Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Stefna Evrópusambandsins um meiri gjöld á losun frá farþegaflugi er auðvitað hluti af þessu viðbragði við loftslagsvandanum. Og á eftir að koma í ljós hversu skilningsríkir ráðamenn í Brussel verða gagnvart óskum íslenskra stjórnvalda um undanþágur. En gefum Peggy Hollinger á Financial Times lokaorðin:

„Fluggeirinn getur horft framhjá eða barist af hörku gegn ógninni af stýringu eftirspurnar. En það væru mistök. Farsælla er fyrir fluggeirann, farþega og loftslagið að taka þátt í uppbyggilegu samtali um það hvernig vöxtur í greininni getur samrýmst óskum um flugferðir án mengunar.”

Farið yfir málin úti á flugvelli – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …