Fólksflutningar til Tenerife á fullri ferð fyrir páska

Það eru ófáir Íslendingar sem hafa átt leið um flugstöðina á suðurhluta Tenerife síðustu daga og fleiri eru væntanlegir. MYND: AENA

Um helgina fóru sjö þotur frá Keflavíkurflugvelli til Tenerife og ein frá Akureyri. Í dag eru svo fjórar brottfarir á dagskrá Keflavíkurflugvallar, ein á morgun og tvær á miðvikudag. Í heildina eru sæti fyrir hátt í þrjú þúsund manns í þessum páskaferðum til spænsku eyjunnar.

Það er nærri þrefalt meira framboð en fyrir páskana 2018 og 2019 samkvæmt ferðagögnum Túrista.

Á þeim árum flaug Icelandair aðeins til Tenerife með farþega ferðaskrifstofa en núna er Tenerife orðinn einn helsti áfangastaður flugfélagsins. Umsvif Icelandair í sólarlandaflugi með Íslendinga hafa líka aukist mjög eftir heimsfaraldur og ferðaskrifstofan Vita heitir núna Icelandair Vita.