Sjálfbærniátakið á Grænlandi hófst árið 2018. Niðurstaða ráðstefnu sem haldin var það ár voru ellefu tillögur um þróun ferðaþjónustunnar og voru þær lagðar til grundvallar stefnu Ferðamálaráðs Grænlands fyrir árin 2021 til 24.

Þau 100 sem koma saman á Hotel Hans Egede í Nuuk í vikunni ætla að reyna að móta sameiginlega sýn ferðaþjónustunnar og allra hagaðila um það hvert skuli halda.
„Það hefur margt gerst frá árinu 2018. Kórónaveirufaraldurinn breytti umtalsvert stöðu innlendrar og alþjóðlegrar ferðaþjónustu. Við þurfum ekki að byrja upp á nýtt heldur fara yfir reynslu síðustu ára og uppfæra markmið okkar. Það hafa líka orðið breytingar á mati á því hvað skipti máli – bæði hvað varðar það hvernig staðið er að uppbyggingu áfangastaða en einnig á afstöðu og kröfum þeirra gesta sem heimsækja okkur. Einu sinni ræddum við hvernig gera ætti hlutina en nú þurfum við að einbeita okkur að því að gera sömu hluti enn betur,“ segir Anne Nivíka Grødem, ferðamálastjóri Grænlands.
Haft er eftir Anette Lings, formanni Ferðamálaráðs Grænlands, á vef þess að þar sem ferðaþjónustan starfi um allt landið sé mikilvægt að efla þverfaglegt samstarf til að tryggja að að þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í með uppbyggingu flugvalla landsins skili sér sem best. Forsenda fyrir þessu sé að það takist að gera ferðaþjónustuna sjálfbæra í félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu tilliti.
„Sameiginlegt átak til að auka vöxt og samvinnu getur skilað af sér þróunarverkefnum sem eiga eftir að nýtast landinu í heild. Á sama tíma viljum þróa og styrkja vörumerkið Grænland, sem tákn fyrir viðurkenndan og eftirsóknarverðan ævintýrastað – þar sem einblínt er á gæði, öryggi og sjálfbærni,“ segir Anette Ling.
