Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynnti um úthlutunina í Vík í Mýrdal í síðustu viku. Fjármagnaðar eru framkvæmdir á ferðamannastöðum og leiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Meðal þess sem fé er látið renna í eru framkvæmdir sem lúta að því að auka öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja, eins og segir í tilkynningu Ferðamálastofu.

„Verkefnin sem hljóta styrk í ár snúa að fjölbreyttri uppbyggingu um land allt. Það er sérstaklega ánægjulegt að 20 af 28 verkefnum sem hljóta styrk eru skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis,“ er haft eftir Lilju Dögg.
Hæsti styrkurinn í ár er í verkefnið „Baugur Bjólfs,“ 157,6 milljónir króna, sem er fyrirhugaður útsýnispallur á fjallinu Bæjarbrún, sem er innst í dalnum fyrir ofan Seyðisfjörð. Þaðan er glæsileg útsýn yfir dalinn, kaupstaðinn, fjallahringinn og út fyrir fjarðarmynni. Útsýnispallurinn verður við snjóvarnargarðana í Bjólfi en tindar hans gnæfa þarna yfir.
Aðalhönnuðir í samkeppni um hönnun útsýnispallsins voru Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá ESJA ARCHITECTURE og Arnar Björn Björnsson frá Exa Nordic, sem hannaði burðarvirki. Í niðurstöðu dómnefndar sagði: „Einföld, sérstæð og sterk byggingarlist hér á ferð sem dómnefnd telur að geti haft mjög mikið aðdráttarafl og hefur alla burði til þess að bjóða upp á einstaka upplifun.“
Þau verkefni sem hljóta næst hæstu styrkina eru 81,1 milljón króna til að sinna öryggi og náttúruvernd við Stuðlagil og 72 milljónir í útsýnispall sem reisa á í hlíðum Reynisfjalls.
Alls barst 101 umsókn um styrki. Hér að neðan er listi sem birtur er á vef Ferðamálastofu um veitta styrki 2023:
- 157,6 m. kr. Baugur Bjólfs útsýnispallur á Seyðisfirði
- 81,1 m. kr. Öryggi og náttúrvernd við Stuðlagil
- 72 m. kr. Útsýnispallur í hlíðum Reynisfjalls
- 27 m. kr. Hrísey – greið leið um fornar slóðir
- 24 m. kr. Uppbygging á Englandi í Borgarbyggð
- 21 m. kr. Yltjörn – Bætt aðgengi
- 20 m. kr. Seltún – áframhaldandi uppbygging
- 18,7 m. kr. Múlagljúfur – 2. áfangi. Framkvæmd og frekari hönnun áfangastaðar
- 15,5 m. kr. Innviðauppbygging, náttúruvernd og öryggismál í selafjörunni við Ytri-Tungu á Snæfellsnesi
- 13 m. kr. Staðarbjargavík – Hönnun útsýnispalla og stiga
- 12,3 m. kr. Umbætur í Ölfusdölum – Reykjadalur og nærliggjandi svæði
- 11,4 m. kr. Spákonufellshöfði – Fasi 2
- 10,5 m. kr. Hrunalaug uppbygging
- 10,2 m. kr Stikun og merkingar á gönguleið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar
- 8,3 m. kr. Uppbygging Hóla í Hjaltadal sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.
- 6,8 m. kr. Grímsey – bætt upplifun og öryggi
- 6 m. kr. Gengið úr leirnum
- 5,9 m. kr. Glymur í botni Hvalfjarðar
- 5,8 m. kr. Hólmsá-Rauðibotn-Hólmsárlón, skipulag, hönnun og merkingar
- 4,7 m. kr. Valagil – göngustígur og áfangastaður
- 4,5 m. kr. Hönnun á aðgengi og sturtuaðstöðu á Langasandi.
- 3,3 m. kr. Stikun og merkingar gönguleiðar yfir Fimmvörðuháls
- 3 m. kr. Göngustígar og aðgengi Listasafni Samúels í Selárdal
- 2,8 m. kr. Gönguleið að Selvíkurvita og rústum Evangers – 1. Hluti
- 2,5 m. kr. Bætt aðgengi að Sviðsetningu Haugsnesbardaga
- 600 þ. kr. Merking gönguleiðarinnar um Snæfjallahringinn
- 500 þ. kr. Áningarhólf við Skjöld í Stykkishólmi-Helgafellssveit
- 460 þ. kr. Gönguleið: Fellsströnd – Skarðsströnd