Innan og utan hrings

Hringvegurinn, eða réttar sagt þjóðvegur eitt, er mikilvirk leið til að dreifa ferðafólki um landið. Hann er 1.321 kílómetri að lengd og tengir saman alla landshluta nema Vestfirði. Flest erlent ferðafólk ferðast um landið á bílaleigubílum og fer þá gjarnan hringinn. Vonandi sjá þó sífellt fleiri hversu margt er að sjá utan hringsins - jafnvel bara spölkorn frá þjóðveginum.

Litagleði á Hvammstanga, sem er 6 kílómetrum frá hringveginum MYND: ÓJ

Hringvegurinn fullkomnaðist í júlí 1974 þegar Skeiðarárbrú var tekin í notkun. Forseti Íslands, Kristján Eldjárn, og Magnús Torfi Ólafsson, samgönguráðherra, fluttu ræður við fjölmenna opnunarathöfnina – upptendraðir af þessari miklu samgöngubyltingu á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Bílarnir streymdu hringinn þetta þjóðahátíðarsumar. Aðeins örfáir erlendir ferðamenn fóru hringinn 1974. Ætli þeim sem þó komu hafi ekki verið spenntari fyrir því að fara hálendisvegina.

Fjaran við Hvammstanga – MYND: ÓJ

Það er þess virði að koma við í sölubúð Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga – MYND: ÓJ

Það var auðvitað stóráfangi í samgöngusögu þjóðarinnar að brúa Skeiðará, Sandgígjukvísl og Núpsvötn en mörgum þótti hægt ganga að ljúka heildarverkinu, ef svo má segja. Árið 1995 var lokið við að leggja slitlag á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar en það var ekki fyrr en 2019 sem að fullu var lokið við að eyða malarköflum á hringveginum. Enn eru um 30 einbreiðar brýr á þessari leið. Nokkrir stóráfangar bættust þó vissulega við eftir að hringurinn lokaðist. Nægir þar að nefna Borgarfjarðarbrú, Hvalfjarðargöngin og Vaðlaheiðargöng.

Kirkjan á Þingeyrum er listasmíð og útsýni þaðan dásamlegt – MYND: ÓJ

Næstu stórverkefni í vegagerð Íslendinga er að ljúka gangagerð og vegabótum á Vestfjörðum. Allir ferðafrömuðir eru sammála um að þá opnist nýr heimur í ferðaþjónustunni. Einhver stærstu tækifæri íslenskrar ferðaþjónustu liggi í því að lokka ferðafólkið vestur – en auðvitað líka austur og norður.

Hillebrandtshúsið á Blönduósi, byggt 1877, er elsta húsið í merkilegum miðbæ gamla Blönduós – MYND: ÓJ

Eins góður og hringvegurinn er þá er auðvitað hætta á að fólk einblíni á það leiðarkerfi og gleymi stöðum utan hringsins. Auðvitað má nefna marga staði í þessu sambandi en lesendur geta sjálfur fundið þá á kortinu. TÚRISTI fór á dögunum nokkur spölkorn út af þjóðvegi eitt, skoðaði Hvammstanga, Þingeyrar og gamla bæinn á Blönduósi. Þetta var bara byrjunin. Sumarið bíður.

Hótel Blönduós, Helgafell og gamla kirkjan á Blönduósi séð úr fjörunni – MYND: ÓJ