Samfélagsmiðlar

Ítalíu fyrirgefst allt

„Mengunin í loftinu er umtalsverð þennan svala vordag. Líklega var tíminn ekki nýttur nógu vel. Eins og svo oft áður, þá fór þrek ítalskra stjórnmálamanna að mestu í deilur og valdabrölt.” TÚRISTI var í Mílanó á dögunum og velti fyrir sér endurreisn ferðaþjónustunnar eftir Covid-19

Á Dómkirkjutorginu í Mílanó

Rómantík á Dómkirkjutorginu í Mílanó

Nú stendur yfir rannsókn á meintum embættisglöpum Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu 2018 – 2021, vegna viðbragða við Covid-19-faraldrinum sem braust út í landinu snemma árs 2020. Rannsóknin nær líka til fyrrverandi heilbrigðisráðherra Ítalíu, héraðsstjórans í Langbarðalands og fleiri embættismanna. Það eru saksóknarar í Bergamo sem leiða rannsóknina. Minningin um Covid-hryllinginn er ljóslifandi fyrir íbúum Bergamo og eflaust muna margir lesenda Túrista fréttamyndir af löngum röðum af líkkistum þetta vor árið 2020. Í marsmánuði einum dóu 670 borgarbúar af völdum Covid-19.

Flogið yfir Langbarðaland til lendingar á Malpensa – MYND: ÓJ

Ekki langt frá er bærinn Codogno, þar sem fyrsta tilvikið í Evrópu um þennan dularfulla sjúkdóm var greint. Það var 16. febrúar að 38 ára karlmaður fór inn á heilsugæslustöð í Codogno vegna öndunarerfiðleika. Þessi maður varð fyrsti Evrópumaðurinn með engin tengsl við Kína sem greindist jákvæður í Covid-prófi. Veiran breiddist hratt út frá bænum sem þó var einangraður 22. febrúar. Í lok marsmánaðar 2023 var vitað um nærri 189 þúsund andlát á Ítalíu af völdum Covid-19 og nú er rannsakað hvort einhverjir stjórnmála- og embættismenn hafi gerst sekir um glæpsamlega vanrækslu. Meðal þess sem rýnt er í eru skilaboð sem gengu á milli stjórnmálamanna og yfirmanna í heilbrigðiskerfinu á WhatsApp-samskiptaforritinu í byrjun faraldursins, þar sem kemur í ljós að leiðtogar landsins reyndu að verja ímynd Ítalíu, vildu beina athyglinni frá ástandinu í landinu og hylja sem mest þá staðreynd að þar upphófst faraldurinn í Evrópu – um leið og þeir virðast tala af léttúð um þann vanda sem við var að glíma. Saksóknararnir í Bergamo vilja ekki síst fá skýringar á því af hverju svo langur tími leið þar til borgin var einangruð. Codogno var einangruð aðeins fáeinum dögum eftir að fyrsta tilvikið greindist en tvær vikur liðu áður en Bergamo og gjörvallt Langbarðaland voru einangruð. Margir telja að bjarga hefði mátt lífi 4.000 af þeim 6.000 íbúum Bergamo sem létust í fyrstu bylgjunni ef gripið hefði verið strax til viðeigandi ráðstafana. 

Lent á Malpensa-flugvelli – MYND: ÓJ

Túristi er lentur á Malpensa-flugvelli við Mílanó þremur árum eftir að Covid-19 setti allt úr skorðum á Langbarðalandi, Ítalíu allri, Evrópu – heiminum öllum. Rannsókn á eftir að leiða það í ljós hvort Conte forsætisráðherra og aðrir háttsettir stjórnmála- og embættismenn hafi lagt meira upp úr því að verja ímynd landsins en grípa til viðeigandi aðgerða við þær háskalegu aðstæður sem sköpuðust vorið 2020.

Ferðaþjónustan er vissulega mikilvæg á Ítalíu. Um 12 prósent af landsframleiðslunni tengist ferðaþjónustu og við hana starfa um 15 prósent vinnandi fólks í landinu. Til Ítalíu komu 63 milljónir erlendra ferðamanna árið 2018. Já, ferðaþjónustan vegur þungt í þjóðarbúskapnum og hugsanlega héldu skammsýnir stjórnmálamenn að það væri best að draga ekki of mikla athygli að faraldrinum. Það gæti spillt ímynd landsins. En auðvitað er raunveruleikinn sá að það eru miklu fremur spilltir og vanhæfir stjórnmála- og embættismenn sem skaðað hafa ímynd Ítalíu í augum heimsins um langan aldur. Landið sjálft er svo gjöfult og menningin svo rík að ekkert getur haldið ferðafólki frá.

Ítalía lokkar stöðugt. 

Lestin frá Malpensa að koma á endastöð á aðalbrautastöðina í Mílanó – MYND: ÓJ

Malpensa-flugvöllur er um 50 km norðvestur af Mílanó. Árið 2019 fóru nærri 29 milljónir farþega um völlinn, sem er mikilvæg tengimiðstöð EasyJet, Rynair, ítalska Neos, Wizz Air, Malta Air og fleiri flugfélaga. Íslendingar flykktust til Ítalíu í fyrrasumar og nú í sumar fljúga Icelandair, Wizz Air og EasyJet milli Íslands og Mílanó. Því má bæta við að Play flýgur til Bologna og Feneyja og Úrval-Útsýn vikulega til Verona. Það ætti því ekki að vera erfitt fyrir Íslendinga að komast til norðanverðrar Ítalíu í sumar.

Milano Centrale – MYND: ÓJ

Túristi sest upp í hraðlestina sem flytur hann á aðalbrautarstöðina í Mílanó á 50 mínútum. Fólk er ekki með grímur fyrir andliti. Við reynum öll að gleyma Covid-19. Hátt í 4 milljónir farþega ferðast árlega á þessari leið sem hraðlestin fer 145 sinnum á sólarhring. Fjórði hver farþegi er útlendingur. Þægilegt, ódýrt og vistvænt. Miðinn kostaði 14 evrur og er líklega best að kaupa hann fyrirfram á netinu. 

Aðalbrautarstöðin, Milano Centrale – MYND: ÓJ

Þegar lestin er komin á áfangastað, á tröllslega stóra aðalbrautarstöðina, Milano Centrale, verður Túrista hugsað til háskalegasta stjórnmálamanns ítalskrar nútímasögu, Benito Mussolini, sem vildi einmitt að þessi stóra og glæsilega stöðvarbygging yrði vitnisburður um endureisn ítalsks glæsileika og styrks. Hún var tekin í notkun 1931 og leysti aðra eldri af hólmi. Þetta er næst stærsta lestarstöð Ítalíu með aðliggjandi 24 brautarteinum. Um 320 þúsund manns fara daglega um stöðina. Frá aðalbrautarstöðinni er stutt að fara með neðanjarðarlestum eða leigubílum dýpra inn í miðborgina. 

Annir á Milano Centrale – MYND: ÓJ

Já, svikulir eða lævísir stjórnmálamenn eru áberandi í ítalskri sögu. Stjórnsýslan og allt kerfið hefur lengi verið þjakað af spillingu og vangetu. Efnahagur Ítalíu varð fyrir meira höggi vegna Covid-19 en dæmi eru um annars staðar í álfunni. Þáverandi ríkisstjórn brást við efnahagssamdrættinum með aðgerðum sem kynntar voru í lok júli 2020. Þær beindist ekki síst að því að styrkja stoðir ferðaþjónustunnar en líka að því að framleiðslu hágæða bíla með sprengihreyfla – svo og rafbíla og bíla með blendingsvélar. Það átti að nota Covid-tímann til að endurmeta stefnuna, færa ferðaþjónustu og samgöngur í átt að meiri sjálfbærni. Túristi hugsar um þetta þegar hann reynir að komast yfir umferðarþunga götu í miðborg Mílanó. Fæst eru ökutækin rafknúin. Mengunin í loftinu er umtalsverð þennan svala vordag.

Kaffihús í Mílanó – MYND: ÓJ

Líklega var tíminn ekki nýttur nógu vel á Covid-tímanum. Eins og svo oft áður, þá fór þrek ítalskra stjórnmálamanna að mestu í deilur og valdabrölt. Stjórnarkreppa var á Ítalíu á árinu 2022. Ríkisstjórn popúlistans Guiseppe Conte hafði hrakist frá í febrúar 2021 eftir tæplega þriggja ára valdatíma, ári eftir að Covid-19 brast á. Við tók stjórn Mario Draghi, sem hélt völdum í aðeins tæp tvö ár – fram í október 2022, þegar við tók núverandi hægri ríkisstjórn hinnar þjóðernissinnuðu Georgia Meloni. Þessi óróleiki hefur ekki hjálpað til við að móta Ítalíu stefnu inn í framtíðina og að takast á við risavaxin verkefni á sviði umhverfis- og loftslagsmála – og að endurmeta stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar.  

Á Dómkirkjutorginu – MYND: ÓJ

Landamærin voru opnuð ferðafólki að nýju 1. júní í fyrra. Hjólin í ferðaþjónustunni fóru að snúast að nýju. En ekki fór á milli mála að þjónustan var löskuð. Margir veitingastaðir og hótel opnuðu ekki strax og það vantaði starfsfólk. Margt fólkið sem var að vinna þjáðist af þreytu og leiða eftir erfiðleika heimsfaraldursins. Auðvitað andaði fólk samt léttar: grímurnar féllu og fólk hittist. Endurreisnin eftir Covid-19 blasti við Túrista fyrir framan dómkirkjuna, Duomo di Milano, í miðborginni. Þúsundir manna nutu vorsólarinnar. Margir streymdi inn í þessa glæsilegu byggingu sem þarna hefur staðið í 600 ár. Aðrir leita uppi hátísku í verslunum þarna í kring eða rölta inn í Galleria Vittorio Emanuele II og verða agndofa. Verslanahöllin, sem kennd er við fyrsta kóng endursameinaðrar Ítalíu, var opnuð var 1877.

Galleria Vittorio Emanuele II – MYND: ÓJ

Þessar glæsibyggingar undir ótrúlegum hvolþökum úr járni og gleri eru jafnan yfirfullar af ferðafólki, sem streymir þarna í gegn – þó ekki væri nema til að taka eina sjálfu. Meðal merkustu plássa í Galleríinu er vafalaust Camparino-barinn. Þangað sogast aðdáendur bittersins rauða úr öllum heimshornum.

Útsýn af Camparino yfir að Duomo di Milano – MYND: ÓJ

Af þessum sögulega bar gæti leiðin legið síðan yfir í Scala á óperusýningu. Þá er nauðsynlegt að hafa með góðum fyrirvara tryggt sér miða – eða fara í allt öðruvísi andrúmsloft í I Navigli-hverfinu í Mílanó, þar sem finna má fjölda veitingastaða og verslana við síkin.

Mílanó
Sólin að setjast við Milano Naviglio Grande – Mynd: ÓJ

Ítalía stendur fyrir sínu, eiginlega hvar sem borið er niður í landinu. Ferðamaðurinn fagnar því að geta komið til þessa stórkostlega lands og vonar að það takist að stýra betur álagi, draga úr áhrifum gestakoma á andrúmsloftið, umhverfið – samfélagið allt.

Kvöld í Mílanó – MYND: ÓJ

Túristi gerði sitt um kvöldið til að minnka álagið á vinsælustu slóðunum, fór inn á veitingahús við fáfarna og fremur dimma hliðargötu sem augljóslega heimafólk sækir, settist niður og pantaði saltfisk á pólentubeði. 

Ítalíu fyrirgefst allt – þegar sest er niður við matarborðið. 

Polenta e baccalà – MYND: ÓJ
Nýtt efni

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …