Rafskútur eru vinsælar í borgum. Leigufyrirtæki tryggja greiðan aðgang íbúa og ferðafólks að þessum farartækjum. Eina sem fólk þarf að gera er að hlaða niður smáforriti sem tengt er greiðslukorti. Þessi ferðamáti sló í gegn í París eins og annars staðar og hafa leigurnar starfað þar núna í fimm ár. Í dag, sunnudaginn 2. apríl, ræðst hvort starfsleyfi leigufyrirtækjanna renna út í sumar og verða ekki endurnýjuð. Borgaryfirvöld setja fram einfalda spurningu: Ertu hlynnt/ur eða andvíg/ur sjálfsafgreiðslurafskútum í París? Borgarstjóri lofar að niðurstaðan verði bindandi.
En það eru ekki einungis ferðamennirnir sem eru hrifnir af rafskútunum. Yngri kynslóðir Parísarbúa hafa tekið því fagnandi að skjótast á rafskútu með goluna í andlitinu í stað þess að fara niður í jörðina og taka lestina. Borgarstjórinn, Anne Hidalgo, og hennar fólk í ráðhúsi Parísar, hefur hinsvegar látið sannfærast af málflutningi þeirra sem segja rafskúturnar óttalega plágu og ógn í umferðinni og mikilvægt sé að losna við þær áður en Ólympíuleikarnir verða haldnir sumarið 2024. Hundruð slysa hafa orðið fólki sem farið hefur ógætilega á rafskútum eða að ökumenn bíla hafi ekki tekið tillit til þeirra – og svo er bent á slysahættu og óþægindi á gangstéttum þar sem skúturnar liggja eins og hráviði.

Anne Hidalgo vonast til að borgarar Parísar samþykki í dag bann við rafskútunum, sem fluttu nærri tvær milljónir manna milli staða í borginni í fyrra. Þrír af hverjum fjórum notendum eru undir 35 ára aldri. Nú er spurningin hvort þetta unga fólk streymir á kjörstað til að verja rafskútuna – eða hvort það verður gamla fólkið sem ákveður örlög þessara farartækja sem það sjálft notar ekki.