Rekstur Niceair stöðvast

Þota Niceair á Akureyrarflugvelli. MYND: ISAVIA

Jómfrúarferð Niceair frá Akureyri var farin í byrjun júní í fyrra og síðasta brottförin var á dagskrá um nýliðna helgi því nú hefur verið gert hlé á rekstri félagsins. Í tilkynningu segir að þetta sé gert í ljósi þess að erlendur flugrekstraraðili félagsins, HiFly, hafi misst einu þotu félagsins vegna vanskila við eiganda flugvélarinnar.

„Þetta gerir Niceair ómögulegt að standa við skuldbindingar gagnvart flugfarþegum. Þrátt fyrir góðan árangur á sl. ári, sterka bókunarstöðu og góðar horfur inn í árið 2023, þá er upp komin staða sem gerir Niceair ómögulegt að veita þá þjónustu sem til stóð. Því verður gert hlé á starfseminni og stefnt að endurskipulagningu,“ segir í tilkynningu.

Þar er haft eftir Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, stofnanda og framkvæmdastjóra Niceair, að niðurstaðan sé sorgleg en félagið hafi nýverið lokið við „fjármögnunarlotu sem tryggja á rekstur þess fram veginn.“

Farþegum Niceair er bent á að senda fyrirspurnir í gegnum heimasíðu félagsins.

Þessa tíu mánuði sem Niceair var í loftinu hélt félagið úti áætlunarflugi til Kaupmannahafnar og Tenerife og bauð einnig upp á stakar ferðir til annarra áfangastaða.

Áform um áætlunarflug til London og Manchester runnu út í sandinn þar sem bresk flugmálayfirvöld gáfu ekki leyfi fyrir útgerðinni en Niceair var ekki flugrekandi heldur leigði þotu og áhöfn frá HiFly líkt og fyrr segir.

Þessi tíðindi af Niceair koma í beinu framhaldi af ákvörðun stjórnenda þýska flugfélagsins Condor um að hætta áætlunarflugi til bæði Akureyrar og Egilsstaða frá Frankfurt. Ekkert varð heldur af áformum Icelandair um beint flug milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar í sumar en reiknað er með þær ferðir hefjist á næsta ári.

Eins og staðan er í dag verður hið svissneska Edelweiss eitt um að halda úti millilandaflugi til og frá Akureyri en Túristi hafði það eftir talsmanni félagsins nýverið að eftirspurn eftir ferðum félagsins, til bæði Keflavíkurflugvallar og Akureyrar, væri gríðarleg.