Sameinast um kynningu á höfuðborgarsvæðinu

Frá stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins í gær. Aðsend

Markaðsstofur er að finna í öllum landshlutum og í gær var ein slík stofnum á höfuðborgarsvæðinu eftir tveggja ára undirbúning. Það eru Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins sem koma að stofnuninni og lagt er upp með að nýja markaðsstofan verði vettvangur til að markaðsetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í heild og ná þannig betri árangri að því segir í tilkynningu.

„Undanfarin tvö ár hafa SSH unnið ötullega með ferðaþjónustunni að því að greina með hvaða hætti uppbyggingu og markaðsetningu ferðaþjónustu verði best háttað á höfuðborgarsvæðinu. Með stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins er stigið mikilvægt skref í að tryggja samræmdar aðgerðir sem tengjast ferðaþjónustu á sviði markaðsmála og þróun áfangastaðarins.  Með tilkomu stofunnar verður til öflugt samstarf sem mun efla samkeppnishæfni áfangastaðarins, ferðaþjónustunni og höfuðborgarsvæðinu til heilla,“ segir Regína Ásvaldsdóttir formaður stjórnar SSH.

Þórir Garðarsson, formaður Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins, bætir við að ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafi lengi kallað eftir því að stofnuð yrði markaðstofa á höfuðborgarsvæðinu.

„Með þessu er kominn vettvangur fyrir fyrirtæki til að hafa með beinum hætti áhrif á hvernig markaðssetning og þróun ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu muni verða á næstu árum. Er óhætt að segja að þetta er eitt stærsta framfaraskrefið í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórir.