Stefnt að því að kaupa Airbus þotur

Frá og með árinu 2025 mun Icelandair fljúga bæði Airbus og Boeing þotum. Árið 2029 bætast við langdrægar A321XLR þotur. TÖLVUTEIKNING AIRBUS

Icelandair og Airbus hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup á 13 flugvélum af gerðinni Airbus A321XLR og kauprétt að 12 flugvélum til viðbótar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í nótt.

Flugvélarnar verða afhentar frá og með árinu 2029 en Icelandair gerir ráð fyrir að hefja rekstur á Airbus vélum strax á þarnæsta ári en samningar um leigu á fjórum flugvélum af gerðinni Airbus A321LR eru á lokametrunum. Auk þess sem gert er ráð fyrir fleiri slíkum vélum í rekstur fram til ársins 2029. Icelandair hefur unnið að endurnýjun flugflotans á undanförnum árum og munu þessar Airbus vélar endanlega leysa Boeing 757 vélar félagsins af hólmi.

Kaupverð vélanna er trúnaðarmál á milli samningsaðila. Fjármögnun verður ákveðin þegar nær dregur að afhendingu þar sem fjölbreyttir fjármögnunarkostir verða skoðaðir.

Flugvélategundirnar sem hér um ræðir eru hluti af Airbus A320neo fjölskyldu flugvéla sem búa bæði yfir mikilli drægni og eru af nýrri kynslóð sparneytnari og umhverfisvænni flugvéla.

Í tilkynningu Icelandair segir að þessar flugvélar séu með þeim hagkvæmustu sem völ er á og munu stuðla að lækkun rekstrarkostnaðar, styðja við loftslagsmarkmið Icelandair, og bjóða farþegum þægindi og ánægjulega upplifun. Þess ber að geta að allar flugvélarnar í flota Play teljast líka til A320neo en engin þeirra er þó eins langdræg og nýju þoturnar sem Icelandair ætlar að taka í gagnið frá og með árinu 2025.

Icelandair gerir ráð fyrir 190 farþegum í sínum þotum en til samanburðar rúma Boeing 757 flugvélar félagsins 183 farþega, Boeing 737 MAX-8 160 farþega og Boeing 737 MAX-9 178 farþega.

Airbus A321XLR flugvélin hefur allt að 8.700 km drægni sem gerir Icelandair kleift að nýta vélina á fjarlægari áfangastaði í núverandi leiðakerfi ásamt því að skapa tækifæri til þess að fljúga á nýja áfangastaði. Airbus A321LR flugvélin hefur allt að 7.400 km. drægni og hentar því í núverandi leiðakerfi.

„Það er ánægjulegt að tilkynna að við höfum nú komist að niðurstöðu um framtíðarflota Icelandair. Við höfum ákveðið að Airbus A321LR og A321XLR verði arftakar Boeing 757 flugvéla félagsins sem  munu hætta í rekstri  á næstu árum. Boeing 757 vélin sem hefur þjónað félaginu frá árinu 1990 og reynst okkur afar vel hefur verið í lykilhlutverki í uppbyggingu Íslands sem tengimiðstöðvar í flugi og okkar yfirgripsmikla leiðakerfis. Nú munu hinar öflugu Airbus vélar taka við. Þær munu gera okkur kleift að þróa viðskiptalíkan félagsins enn frekar í flugi yfir Atlantshafið og jafnframt skapa tækifæri til að sækja á nýja og spennandi markaði,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Icelandir gerir ráð fyrir að Boeing 757, 767 og 737 MAX flugvélarnar muni áfram halda áfram að gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Icelandair á komandi árum.

„Icelandair hefur átt farsælt viðskiptasamband við Boeing í áratugi og hafa Boeing vélarnar verið lykilþáttur í þróun og árangri félagsins. Fram til ársins 2025 mun Icelandair áfram reka flugflota sem samanstendur einungis af Boeing flugvélum en frá afhendingu fyrstu Airbus vélanna mun félagið reka blandaðan flota sem mun samanstanda bæði af Airbus og Boeing flugvélum,“ er útskýrt í tilkynningu.