Töpuðu samtals 12,3 milljörðum króna

Myndir: London Stansted og Icelandair/Sigurjón Ragnar

Icelandair og Play birtu seinnipartinn í dag uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Sá fjórðungur er vanalega í mínus hjá evrópskum flugfélögum sem reyna að vinna upp tapið yfir sumarmánuðina. Tap Icelandair á fyrsta ársfjórðungi nam 9,2 milljörðum króna fyrir skatt og Play tapaði 3 milljörðum miðað við meðalgengi bandaríkjadollars.

Á sama tíma í fyrra var afkoma félaganna tveggja neikvæð um 9,3 milljarða króna en þá gætti ennþá áhrifa Covid-faraldursins. Engu að síður var afkoman þá mun betri hjá báðum félögum sem skrifast að hluta til á sterkari krónu á þeim tíma. Icelandair tapaði 7,5 milljarði fyrir skatt á fyrsta fjórðungi 2022 og Play 1,8 milljarði kr.

Umsvif félaganna tveggja hafa aukist verulega milli ára og í tilkynningum dagsins eru forstjórar Icelandair og Play bjartsýnir á komandi mánuði. Bókunarstaðan sé betri og fargjöldin hærri en á sama tíma í fyrra.

Aftur á móti hafi undirbúningur fyrir komandi vertíð verið kostnaðarsamur og það hafi neikvæð áhrif á afkomuna í ársbyrjun.

Túristi mun fjalla nánar um uppgjör Icelandair og Play á morgun.