Samfélagsmiðlar

Viltu hitta nágranna þína í sumarfríinu?

Í sumarfríinu viltu ekkert endilega hitta nágranna þína eða heyra kunnuglegt skvaldrið í löndum þínum hvar sem þú kemur. TÚRISTI velti þessu fyrir sér eftir að hafa lesið að bandarískir ferðamenn vilja ekki hitta of marga sína líka í fríinu.

Við Trevi-brunninn

Mannfjöldi við Trevi-brunninn í Róm

Mjög margir kunna því vel að ferðast með löndum sínum, verja fríinu með þeim í sundlaugargarðinum, á ströndinni eða í skoðunarferðum. Aðrir eru ekki jafn spenntir fyrir þessu, vilja ekki hafa heimahagana með í farteskinu – vera stöðugt minntir á upprunann og allt sem honum fylgir. Einhverjir kjósa báðar þessar stíltegundir ferðalaga, fara á víxl um slóðir sem fáir landar þeirra þekkja og svo þangað sem fullvíst má telja að margir þeirra séu þar fyrir á fleti. Nepal eða Tenerife? Þar liggur efinn.

Navigli-hverfið í Mílanó – MYND: ÓJ

Bandaríkjamenn eru mikilvægasti ferðamannahópurinn í Evrópu – líka á Íslandi. Þeir streyma til Evrópulanda eftir að heimsfaraldrinum lauk með umtalsverða kaupgetu vegna hás gengis dollarsins – sólgnir í nýja og spennandi reynslu eftir innilokun og leiðindi covid-áranna.

„Hvers vilja Bandaríkjamenn njóta í Evrópufríinu? Færri Bandaríkjamanna,” sagði í fyrirsögn greinar í ferðadálki The Wall Street Journal. Spurning og svar. Fyrirsögnininni fylgdi ekki mikil úttekt eða greining á þessu. Þarna var frekar verið að enduróma þá tilfinningu ýmissa í ferðabransanum að þegar eftirsóknarverðustu staðirnir yfirfyllast af bandarískum ferðamönnum sækist æ fleiri þeirra eftir því að fara eitthvert allt annað. 

Signa
Á brú yfir Signu – MYND: ÓJ

Eins og alkunna er ferðuðust Bandaríkjamenn mikið á síðasta ári og nú er útlit fyrir að þeir ferðist enn meira árið 2023. Bókunartölur eru allar upp á við. Sala á Evrópuferðum er um átta prósentum meiri en síðasta sumar og í síðustu viku var haft eftir forstjóra Delta Air Lines að þegar væri búið að bóka 75 prósent af sætum í fyrirhuguðu Evrópuflugi sumarsins. Ferðaleitarvélar eins og Skyscanner sýna mikinn áhuga á kunnuglegum áfangastöðum eins og Mílanó og London en líka stóraukna forvitni um staði sem Bandaríkjamenn hafa ekki horft mikið til, eins og Split í Króatíu og Tírana í Albaníu. Lækkun á gengi norsku krónunnar hefur líklega haft þau áhrif að hástökkvarinn í leitarvél Skyscanner er Ósló. Áhuginn á höfuðborg Noregs er þrefaldur á við það sem hann var í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Skyscanner

Sumar í Lissabon – MYND: ÓJ

Þó að dollarinn sé sterkur þá eru bandarískir ferðamenn auðvitað ekki ónæmir fyrir verðhækkunum. Verðið á farmiðunum hefur hækkað – og allt hefur hækkað á áfangastöðunum í Evrópu. Það getur orðið þrautinni þyngra að finna hótelherbergi á viðráðanlegu verði í vinsælustu borgunum: París, London, Barselóna, Róm – eða bara í Reykjavík og undir Vatnajökli. Og ef þú hefur hvort eð er komið áður til frægu borganna og vinsælustu staðanna á samfélagsmiðlunum er þá ekki réttast að fara eitthvert annað? Þegar svo bætist við að á vinsælu stöðunum hittir þú aðallega fyrir landa þína, aðra Ameríkana, þá er líklega best að setja stefnuna á nýjar slóðir. 

Við Spænsku tröppurnar í Róm – MYND: ÓJ

The Wall Street Journal hefur eftir eiganda ferðaskrifstofu í New York að fólk sem fór til Evrópu síðasta sumar ryðji nú brautina að nýjum áfangastöðum. Þegar það gat loks ferðast eftir faraldurinn urðu viðurkenndir áfangastaðir fyrir valinu, staðir sem fólkið vissi fyrirfram að væru eftirsóknarverðir – hátt skrifaðir í huga fjöldans. Mannfjöldi á þessum slóðum hræddi ekki, eins og margir höfðu búist við. Fólk var óhrætt við að lenda í dálítilli kös. Gríman var þó höfð til taks. Öðru máli hafi gegnt um samsetningu manngrúans. Á mörgum helstu ferðamannaslóðum Evrópu hafi bandaríski ferðamaðurinn verið umkringdur af öðrum bandarískum ferðamönnum. Blaðið hefur eftir 31 árs gamallli konu sem býr í Brooklyn í New York að hún hafi kosið að fara til Lissabon í sína fyrstu Evrópuferð í fyrrasumar vegna fullvissu um að þar myndi henni líða vel við kunnuglegar aðstæður. Nú segist hún vilja fara til einhvers staðar þar sem landar hennar eru ekki á hverju götuhorni. Hún setji því stefnuna á Tiblísi í Georgíu, vilji ferðast um landið, koma við á víngerðarhúsum og skoða klaustur. 

Á vínekru – MYND: ÓJ

Ein tilhneigingin er, samkvæmt The Wall Street Journal, að fólk leitar áfangastaða sem á einhvern hátt eru áþekkir vinsælustu stöðunum. Blaðið hefur eftir ferðaskipuleggjendum að þannig beinist sjónir æ fleiri að Albaníu í stað Króatíu. Fólk hugleiði að fara frekar til Slóveníu en Ítalíu – eða leggi leið sína til Norður-Grikklands eða Tyrklands í stað þess að halda út í margrómaðar grísku eyjarnar.

En svo er vandinn sá að áfangastaðir sem ekki hafa lent á ratsjá ferðafólks gera það svo snögglega og verða ógnar vinsælir. Þannig var bandarískum ferðamönnum gjarnan beint til Sikileyjar í fyrrasumar vegna þrengslanna á Amalfíströndinni og í Feneyjum. Hinsvegar er svo komið að Sikiley er mjög eftirsótt af ferðamönnum í sumar.

„Nú mæli ég frekar með Korsíku og Sardiníu eða héruðum á meginlandinu eins og Puglia,” segir einn ferðaskipuleggjandinn. 

Hvað með strandferð til Flæmingjalands? – MYND: ÓJ

Hafa ber í huga að það er þó ekki jafn einfalt – og ekki endilega ódýrara – að halda á fáfarnari slóðir. Þrautreyndustu ferðamannastaðirnir búa að öflugu samgönguneti, mikilli reynslu af þjónustu og meiri tungumálahæfni fólks í þjónustustörfum. Fleiri tala ensku. Ekki er endilega ódýrt eða einfalt að komast til Rúmeníu eða Möltu vegna skorts á flugtengingum og tímans sem það tekur. Og það er líklegra að þjóninn í París tali ensku en starfsfélagi hans í Tíblísi. Hinsvegar er varla nokkur vafi á því á hvorum staðnum hótelgistingin er ódýrari, vínglasið og kvöldmaturinn.

Hjá kjötkaupmanni í Madríd – MYND: ÓJ

Góðar flugtengingar við Ísland eru auðvitað megin skýringin á vinsældum landsins meðal bandarískra ferðamanna. Þriðjungur ferðamanna á Íslandi fyrir faraldurinn kom frá Bandaríkjunum. Bandarískir ferðamenn eru áberandi á götum Reykjavíkur og á vinsælustu ferðamannastöðunum á Suðurlandi. Enn vilja margir Bandaríkjamenn ferðast til Íslands. Delta-flugfélagið fann fyrir þessum áhuga og ákvað að hefja Íslandsflug fyrr á árinu en það hefur gert.

Þegar skoðaðar eru tölur um gistinætur á síðustu árunum fyrir faraldur sést hversu góðir viðskiptavinir bandarískir ferðamenn eru á Íslandi. TÚRISTI flettir upp í tölum frá hagstofum Íslands og Danmerkur – til að fá samanburð. Árið 2018 voru gistinætur bandarískra ferðamanna í Danmörku 690 þúsund en 1,3 milljónir á Íslandi. Árið 2019 voru bandarísku gistinæturnar 760 þúsund í Danmörku en 1,2 milljónir á Íslandi. Þessi samanburður talar sínu máli. Ísland er hátt á óskalista bandaríska ferðamannsins – allavega ennþá.

Í ferðamannaverslun á Íslandi – MYND: ÓJ

Verður Bandaríkjamaðurinn þreyttur á því að hitta endalaust landa sína á ferð um Ísland – á Þingvöllum, í Reynisfjöru, við Geysi eða á Húsavík? Það vitum við ekki. Þó má ætla að framansögðu að mikilvægur hluti ferðalags í huga þeirra sem telja eftirsóknarvert að ferðast sé að kanna hið óþekkta, kynnast einhverju nýju, heyra eitthvað nýtt – ekki bara skvaldrið að heiman. Íslenskir ferðafrömuðir eru líklegir til að taka mið af þessu – enda margt að sjá og margs njóta í Dölunum, norður á Ströndum, í Húnaþingi, í Öxarfirði, á Melrakkasléttu, á Langanesi, austur á Héraði – og á öllum hinum fáfarnari ferðaslóðum Íslands.

Nýtt efni

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …