Samfélagsmiðlar

„Að búa til eitthvað geggjað“

„Til þess að fólk raunverulega mæli með einhverju þarf það að vera nægilega uppnumið til að vilja tala um það," segir Ragnhildur Ágústsdóttir hjá Lava Show, sýningunni sem fer fram úr væntingum gesta vegna nálægðarinnar við eldinn og hitann - og áhrifamikillar frásagnar af sambýli fólks og náttúruafla. Nú horfa stofnendur til tækifæra úti í heimi.

Ragnhildur Ágústsdóttir í Lava Show

Lava Show var opnað í Vík í Mýrdal haustið 2018, einkaframtak hjónanna Ragnhildar Ágústsdóttur og Júlíusar Inga Jónssonar, sem ákváðu að láta drauminn rætast og setja upp sýningu um eldvirkni á Íslandi. Háönnin var liðin þetta árið og byrjunin var óttalegt ströggl. Allt tiltækt fé fór í uppbyggingu. Ekkert var eftir til að setja í markaðskynningu. En smám saman náði sýningin athygli fólks. Lava Show spurðist vel út.

Stofnendurnir Ragnhildur og Júlíus – MYND: Lava Show

Áhrifamáttur sýningarinnar kom gestum á óvart – ekki síst auðvitað að fá tækifæri til að sjá logandi hraun renna og storkna, skynja hitann og finna lyktina af glóandi hrauni. Sú reynsla verður flestum örugglega minnisstæð en eftir situr líka myndrænn fróðleikurinn um áhrif eldgosa á samfélag fólks í þessu landi.

Þéttsetinn bekkurinn í Vík – MYND: Lava Show

Lava Show í Vík fékk ekki að njóta ótruflaðrar velgengni lengi. Heimsfaraldur brast á. Þá höfðu landsmenn hinsvegar kveikt á perunni og komu við í Vík á hringferðum um landið. Þetta hélt þeim Ragnhildi og Júlíusi á floti rekstrarlega – og lífi í draumi þessara duglegu hjóna um að opna aðra sýningu í höfuðborginni.

Maðurinn sem stýrir hraunflæðinu í Reykjavík er vel búinn – MYND: ÓJ

Í nóvember 2022 var Lava Show opnað í Reykjavík, í rúmgóðu húsnæði á Fiskislóð vestur á Granda. Þar er ekki aðeins tilkomumikill brennsluofn og sýningarsalur með fyrsta flokks bíósætum heldur líka vel búin og falleg setustofa með bar, sem hópar geta nýtt sér að loknum sýningum.

Glæsileg setustofan á Fiskislóð – MYND: Lava Show

TÚRISTI settist þar niður með Ragnhildi til að fræðast aðeins um þetta merkilega framtak til að bjóða ferðafólki – og auðvitað öllum sem áhuga hafa – upp á sérhannaða sýningu um það sem Ísland er frægast fyrir: Eldinn sem logar undir. 

Sýningarstjórinn og logandi hraunið – MYNDIR: ÓJ

„Upphaflega ætluðum við alltaf að byrja í Reykjavík og höfðum auga á Grandanum. En eins og svo oft þegar um er að ræða frumkvöðlaverkefni þá fara hlutirnir ekki alveg eins og ætlað var. Erfitt reyndist að finna húsnæði við hæfi. Við þurftum ákveðna lofthæð og nauðsynlegt var að geta sett upp öflugt loftræstikerfi, svo eitthvað sé nefnt. Þá var auðvitað ekki búið að sannreyna hversu góð þessi hugmynd var og ekki voru allir tilbúnir að hleypa okkur að með slíka starfsemi. Verðið á því húsnæði sem við skoðuðum var auk þess út úr korti. Lítið frumkvöðlafyrirtæki gat ekki ráðið við kostnaðinn. Þess vegna opnuðum við fyrst í Vík.

Það var líka svo skemmtilegt að geta þar stuðst við tengingu Júlíusar við svæðið en hann er ættaður úr Álftaveri, sveitinni austan Mýrdalssands. Júlíus ólst upp við söguna af langafa sínum sem var að smala við rætur Mýrdalsjökuls þegar eldgosið í Kötlu hefst 1918. Þessi saga var við það að falla í gleymsku og við erum stolt af því að hafa endurvakið hana, búið til upplifun fyrir öll skynfæri og blandað saman á áhugaverðan og skemmtilegan hátt fræðslu, sögu og menningu – segja frá því hvernig fólki tókst að búa með þessari ógn. Við vorum ákveðin í að reyna að skapa þessa tengingu líka hér í Reykjavík þó að þetta sé allt önnur sýning.”

Lava Show á Fiskislóð 73 – MYND: ÓJ

Einhver gæti sagt: Þið eruð frumkvöðlar með lítið fjármagn, byrjið í Vík í Mýrdal og gengur þar vel. Af hverju hélduð þið ekki bara áfram þar?

„Lava Show í Vík gengur mjög vel og stendur undir sér. En þetta byggir á íslensku hugviti. Svona lagað hefur hvergi í heiminum verið gert áður. Okkur langaði til að stækka konseptið – og ekki bara til Reykjavíkur. Við erum með stórar hugmyndir um að fara jafnvel með þetta út fyrir landsteinana. Að fara til Reykjavíkur var rökrétt næsta skref.

Og ef ég fer á persónulegar nótur, þá vorum við hjónin búin að vera í fjarbúð í næstum fjögur ár. Við hugleiddum að flytjast austur en gerðum það ekki af því við eigum tvo einhverfa drengi með sínar sérþarfir, sem ekki gátu fengið sambærilega þjónustu í Vík. Þetta kom í veg fyrir að við flyttumst öll austur. Svo kemur Covid. Þá ílengdist Júlíus í Vík af því að við þurftum að skera niður til að lifa það af. Þá stóðum við frammi fyrir vali: Annað hvort myndum við hætta þessu og leggja upp laupana eða halda áfram í Vík og bæta við Reykjavík – svo Júlíus kæmist í bæinn til okkar.”

Sýningarstjórinn sýnir eiginleika logandi efnisins – MYND: ÓJ

Þú nefnir möguleikann á að fara næst út fyrir landsteinana. Gæti Lava Show orðið útflutningsvara með einhverjum hætti?

„Já, klárt! Alveg 100 prósent. Okkur langar að fara með þetta konsept á heita reiti í heiminum, þar sem eru eldfjöll og eldfjallaferðamennska. Ég hef líka rætt við Íslandsstofu og markaðsstofurnar út um allt land um að við gætum gert betur í að markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir eldfjallaferðamenn. Það er risastór hópur. Stór hópur kom þegar gaus við Fagradalsfjall og margir komu í leiðinni á sýninguna hjá okkur.”

Þið áttuð tvo stráka áður en þið fóruð af stað og sá þriðji bætist við sama ár og þið byrjið í Vík. Hvernig á maður að lýsa fólki sem lætur ekkert stöðva sig – sama á hverju gengur – er það dálítið brjálað eða bara svona duglegt? 

„Líklega sitt lítið af hverju. Það þarf pínu dirfsku og áhættusækni – dass af brjálæði – til að keyra á svona verkefni. Við eigum bæði tvö dásamlegar fjölskyldur, erum komin af frábæru fólki. En foreldrar okkar beggja eru og hafa alltaf verið opinberir starfsmenn. Þeim þótti þetta dálítið djarft hjá okkur, þessari fjölskyldu eins og hún er. En við vildum gera þetta, bæði okkar vegna en líka fyrir strákana. Okkur fannst mikilvægt að sýna þeim að maður á alltaf að eltast við drauma sína. Strákarnir okkar eru að glíma við alls konar áskoranir á hverjum degi sem aðrir þurfa ekki að glíma við. Við vildum vera þeim fyrirmyndir. Og vonandi, ef allt gengur upp, erum við að búa þeim bjarta framtíð og öryggi. Þetta er auðvitað nett bilun! Ég held að það sé óhætt að segja það.”

Fylgst með storknandi hrauninu – MYND: ÓJ

Við fáum mörg hugmyndir en það sem gildir er auðvitað að hrinda þeim í framkvæmd.

„Það hafa alveg örugglega einhverjir fengið þessa hugmynd en engir aðrir hafa látið hana verða að veruleika. Allir geta fengið hugmynd. Þetta snýst um framkvæmdagetu og þrautseigju. Það er stanslaust verið að berja þig niður. Getur þú ímyndað þér hvernig það er að fá leyfi til að vera með alvöru hraunsýningu – bræða hraun upp í 1.100°C innandyra? Þetta er ekkert grín! Að vera með bræðsluofn í einu rými og hella rauðglóandi hrauni í gegnum gat inn í annað rými og niður rennu inn í sal fullan af fólki!“

Júlíus og Ragnhildur á Mannamótum í janúar – MYND: ÓJ

Fulltrúar tveggja fyrirtækja í VÍK á Mannamótum: Ragnhildur og Sveinn Sigurðsson í Smiðjunni Brugghúsi – MYND: ÓJ

Hvernig getum við stutt betur við þau sem fá góðar hugmyndir?

„Sem betur fer er frumkvöðlaumhverfið alltaf að styrkjast en ég hef gagnrýnt að fjármagnið sem er í boði í dag í frumkvöðlastarf er mjög takmarkað við tæknilausnir. Ekki að það sé eitthvað slæmt – en það er líka fullt af fínum hugmyndum sem hafa góða arðsemis- og stækkunarmöguleika sem ekki eru tæknilausnir. Þá eru til hugmyndir, eins og okkar, þar sem vissulega er heilmikil tækni að baki því að endurskapa fullkomið hraunrennsli mörgum sinnum á dag, en eru ekki dæmigerðar tæknilausnir. Þetta er ekki app.

Okkur reyndist erfitt að fá fjármagn. Við reyndum og reyndum. Það gekk ekki vel. Mjög oft fengum við það svar að við værum að biðja um of lítið fjármagn. Mjög oft var okkur sagt að ekki væri um að ræða tæknilausn. Ég er þeirrar skoðunar að það verði að styðja meira við annars konar hugmyndir. En ég vil nefna að til viðbótar við framlag úr Tækniþróunarsjóði fengum við styrk frá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga. Þetta voru ekki stórir styrkir en þeir hjálpuðu svo sannarlega. Á fyrstu stigum fyrirtækjareksturs skiptir allt máli.”

Þið náðuð ekki sumarvertíðinni 2018 en nutuð ferðamannastraumsins 2019. Svo kom heimsfaraldurinn. Nú er 2023 og þið með starfsemi á tveimur stöðum. Hvernig eru horfurnar?

„Við erum rosalega vongóð. Við renndum blint í sjóinn þegar við opnuðum í Reykjavík varðandi áhrifin á sýninguna í Vík í Mýrdal – hvort það drægi úr aðsókn þar. Hið gagnstæða hefur gerst. Sýningin í Vík hefur fest sig í sessi og hefur fengið jafnt og þétt framúrskarandi ummæli og einkunnir viðskiptavina. Við höfum ekki aðeins uppfyllt væntingar fólks heldur erum í mörgum tilvikum að fara fram úr þeim.

Opnun Lava Show á Fiskislóð – MYND: Lava Show

Áhrifamáttur sýningarinnar kom gestum á óvart – ekki síst auðvitað að fá tækifæri til að sjá logandi hraun renna og storkna, skynja hitann og finna lyktina af glóandi hrauni. Sú reynsla verður flestum örugglega minnisstæð en eftir situr líka myndrænn fróðleikurinn um áhrif eldgosa á samfélag fólks í þessu landi.

Til þess að fólk raunverulega mæli með einhverju þarf það að vera nægilega uppnumið til að vilja tala um það. Það er ekki nóg að það segi við sjálft sig á eftir: „Já, þetta var bara eins og við áttum von á.” Það þarf að koma: „Váá!!! Ég átti alls ekki von á þessu!”  Það eru bæði kostir og gallar við það hversu erfitt er að útskýra fyrir fólki út á hvað Lava Show gengur. Fólk verður eiginlega að koma og sannreyna þetta á eigin skinni. Það er sama hversu margar myndir þú sérð, þær skila raunverulega aldrei sömu hughrifum sem fylgja því að sjá logandi heitt hraunið renna.

Við byggjum líka mjög mikið á frásagnargleði, að segja sögur, eins og í Vík af langafa Júlíusar og dramatíska flóttanum undan hamfaraflóðinu úr Kötlu 1918. Hér í Reykjavík segjum við frá víkingunum sem fundu þetta land. Veðrið var ekki gott en það var hægt að búa hér. Eftir um fimmtíu ára búsetu hefjast óskapleg umbrot og hraunið rennur í Eldgjá og landnám stöðvast í kjölfarið. Við reynum að segja sögur og tengja fólkið í landinu við náttúruna. Það er ekki auðvelt en ég held að okkur hafi tekist vel upp. Þau sem horfa á geta áttað sig betur á því hvað felst í því að búa í þessu landi.

Margir ferðaskipuleggjendur og viðskiptavinir segja við okkur að best sé að koma á sýningu Lava Show snemma í ferð um landið þar sem upplifunin setji allt umhverfið og náttúruna í annað samhengi.

Ragnhildur í nýju setustofunni á efri hæðinni vestur á Granda – MYND: ÓJ

Við teljum okkur eiga enn mikið inni, sérstaklega að ná til fleiri hópa. Það tekur tíma að ná til þeirra. Við þekkjum það frá Vík. Þegar eru töluvert margir hópar sem bóka sig á sýningar, t.d. skólahópar, en líka 10 til 20 manna hópar. Við erum hinsvegar að fá meira af stökum gestum en við áttum von á. Það er ánægjulegt. Við seldum líka heilmikið af gjafabréfum fyrir jólin. Íslendingar eru að kveikja meira á þessu – að þetta sé raunverulega frábær upplifun til að fara á með fjölskyldu og vinum.”

Hvernig er að vera hér vestur á Granda, sem er í senn dálítið út úr en líka nærri miðborginni?

„Grandinn er í mínum huga mjög spennandi svæði. Eitt það mest spennandi í borginni. Hér er mikil uppbygging sem er rétt að byrja. Hér er að verða til upplifunarkjarni höfuðborgarinnar. Við eigum gott samstarf við aðila eins og Fly Over Iceland, Aurora Reykjavík, Whales of Iceland og fleiri. Við reynum að vinna saman að því að byggja upp svæðið. Hér er mikil gróska, flott nýsköpunarfyrirtæki, margir veitingastaðir, brugghús – og þessar geggjuðu upplifanir á sýningum.

Grandinn ætti að vera skyldustopp allra sem koma til Reykjavíkur. Hér er líka mikil gróska fyrir fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu.”

Ofninn tilkomumikli og bræðslustjórinn á Lava Show vestur á Granda – MYND: Lava Show

Hraunsýning Lava Show hlýtur að vera orkufrek og töluverð losun frá ofninum. Hvernig takið þið á umhverfis- og loftslagsmálum?

Sjálfbærni er okkur mikið hjartans mál og við erum mjög stolt af því að notast við græna orku. Þegar við byrjuðum notuðum við própangas sem orkugjafa fyrir hraunbræðsluna. Það var gert af illri nauðsyn þar sem rafmagnið í Vík er ekki það öruggasta sem þekkist á landinu auk þess að vera frekar dýr kostur fyrir starfsemi eins og okkar. En umhverfismál eru okkur afar hugleikin og okkur var mikið í mun að fara í orkuskipti eins fljótt og auðið var. Það var svo í fyrra sem við fórum í samstarf við Sorpu um grænan orkugjafa. Þau framleiða metangas sem unnið er úr lífrænum úrgangi og er frábær grænn kostur fyrir starfsemi eins og okkar. En við létum ekki staðar numið þar. Við fórum jafnframt í þá vegferð að nýta umframhitann sem fer frá bræðsluofninum upp í strompinn, þar sem við föngum hitann og notum til að hita upp húsnæðið. Þannig hámörkum við orkunýtinguna. Þetta er eitthvað sem við erum afskaplega stolt af en höfum kannski ekki verið nógu dugleg að tala um.

Við erum ekki enn komin með formlega vottun en erum að vinna í sjálfbærnistefnu fyrir Lava Show og munum sækjast eftir vottun í kjölfarið. Þetta skiptir okkur máli bæði fyrir okkur sjálf en auk þess eru margir ferðamenn sem pæla mikið í þessu og sumir koma meira að segja gagngert til landsins til að kynna sér nýtingu á grænni orku, til dæmis hvernig við Íslendingar höfum byggt upp raforkukerfið okkar og svo eru verkefni á borð við Carbfix stöðugt að fá meiri athygli.

Við viljum meina að Lava Show sé gott dæmi um hvernig nýta megi græna orku til að búa til eitthvað geggjað!”

Logandi hraun – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …