Ætla að rukka við bresk landamæri

Frá og með næsta ári þarf að greiða fyrir sérstaka heimild áður en ferðast er til Bretlands.

Allir þeir sem ekki eru með vegabréfsáritun munu þurfa að greiða fyrir sérstaka ferðaheimild til að fá að fara yfir bresk landamæri frá og með lokum næsta árs. Fyrirkomulagið verður álíka og þekkist í Bandaríkjunum en þar borga ferðamenn 21 dollar (um 3.000 kr.) fyrir ferðaheimild sem gildir í 2 ár.

Ekki liggur fyrir hversu hátt breska gjaldið verður en stjórnvöld hafa gefið út að upphæðin verði í takt við það sem þekkist vestanhafs. Allir aðrir en íbúar Bretlands og handhafar breskra og írskra vegabréfa verða skildaðir til að skrá sig fyrir ferðalag til Bretlands þegar nýju reglurnar öðlast gildi.

Bretar eru þó ekki einir í Evrópu um að ætla fylgja fordæmi Bandaríkjamanna því samskonar áform eru uppi á Schengen svæðinu. Gildistöku þeirra breytinga var hins vegar frestað vegna innrásar Rússa á Úkraínu. Þar sem Ísland er hluti af Schengen-svæðinu þá munu Íslendingar ekki þurfa á þeirri ferðaheimild að halda.

Bretar verða aftur á móti að greiða fyrir þess háttar þegar þeir ferðast til nágrannaríkja sinna og hingað til lands.