Samfélagsmiðlar

Áformum um stækkun á Kastrup mótmælt

Danskir umhverfisverndarsinnar eru mjög óánægðir með lagafrumvarp sem miðar að því að stækka Kaupmannahafnarflugvöll umtalsvert. Boðað er til mótmæla við flugvöllinn á laugardag. Krafan er að draga úr losun frá flugi.

Flugvél við landgang á Kaupmannahafnarflugvelli

Samtökin Höldum jarðsambandi (Bevar Jordforbindelsen) og Samtök um sjálfbærar samgöngur (Rådet for Bæredygtig Trafik) berjast gegn frekari stækkun Kaupmannahafnarflugvallar og lýsa megnri andstöðu við frumvarp sem lagt hefur verið fram til kynningar en í því felst heimild til einkaaðilanna sem eiga og reka flugvöllinn að ráðast í umtalsverða stækkun á komandi árum.

Uppi eru áform um að auka verulega afkastagetu flugvallarins í Kastrup. Árið 2018 fóru um 30 milljónir farþega um völlinn en draumur eigendanna er að geta afgreitt um 40 milljónir – jafnvel allt að 55 milljónir í framtíðinni. Þetta segir baráttufólk í umhverfismálum að muni hafa skelfilegar afleiðingar fyrir danska loftslagsstefnu. Óásættanlegt sé að einkaaðilar fái lagalegt svigrúm til að vinna gegn markmiðum Danmerkur og alþjóðasamfélagsins um að draga úr losun frá samgöngum.

Brottfararsalurinn á Kaupmannahafnarflugvelli – MYND: ÓJ

Boðað er til mótmæla við Kaupmannahafnarflugvöll laugardaginn 13. maí. Þar ætla félagar úr áðurnefndum samtökum, sem berjast fyrir því að dregið verði úr losun frá flugi og öðrum samgöngum, að láta til sín taka. Þessi tvenn samtök halda því fram að umhverfisáhrifin af flugi Dana séu næstum fjórum sinnum meiri en opinberrar tölur gefi til kynna. Meginboðskapurinn á laugardaginn verði því sá að stjórnmálamenn ljúki áætlunum um hvernig draga eigi úr losun frá flugi áður en samþykkt verði lög sem heimila stækkun Kaupmannahafnarflugvallar. 

Við öryggishlið – MYND: ÓJ

Þau sem eiga leið um flugvöllinn á Kastrup á laugardag gætu séð til 24 mótmælenda í líki mörgæsa fyrir framan Terminal 3 og rapparana í sveitinni MC Dommedag&Klimahystaden stíga á stokk. Fleiri uppákomur gætu fylgt fyrir framan flugstöðvarbyggingarnar. 

Hvernig á að verðleggja losun frá flugi? – MYND: Bevar jordforbindelsen

Á heimasíðu Höldum jarðsambandi er lýst skýrri andstöðu við fjölgun flugferða og stækkun flugvalla á meðan það er í fullkominni andstöðu við stefnu Dana og alþjóðasamfélagsins í losunamálum. Litlu breyti þó samsteypustjórnin hafi hækkað áform fyrri ríkisstjórnar jafnaðarmanna um umhverfisskatt á farmiða úr 13 í 100 krónur að meðaltali. Fyrirhugað er að tekjurnar renni til orkuskipta í flugiðnaðinum. Gagnrýnendur segja hinsvegar að gjaldið sé of lágt, breyti of litlu – og óvíst sé að það renni allt í að gera samgöngukerfið grænna. 

Á leið með lest út á flugvöll einn rigningardaginn – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …