Aftur til Detroit 36 árum síðar

Frá Detroit. Mynd: Alex Bishley / Unsplash

Icelandair hóf í gær áætlunarflug til bandarísku borgarinnar Detroit og var þetta fyrsta ferð félagsins þangað frá árinu 1987. Flugfélagið spreytti sig nefnilega á áætlunarferðum til Detroit á níunda áratug síðustu aldar en jómfrúarferðin var farin sumarið 1984 og þá varð borgin fjórði áfangastaður Icelandair vestanhafs.

Þremur árum síðar ákváðu stjórnendur félagsins að segja þetta gott í bílaborginni og færa sig til Boston í staðinn. Segja má að sú ákvörðun hafi verið farsæl því Icelandair náði góðu flugi í Boston og hafa umsvif félagsins þar í borg lengi verið mikil.

Auglýsing Icelandair á fluginu til Detroit í Lögberg-Heimskringlu árið 1984. Eins og sjá má spilaði Luxemburg á þessum tíma lykilhlutverk í leiðakerfi Icelandair. – Skjámynd: Tímarit.is

Nú kemst Detroit á ný á kortið hjá Icelandair og segir Bogi Nils Bogason forstjóri að borgin sé áhugaverð viðbót. „Við höfum haft af því góða raun undanfarin ár að bæta við leiðarkerfi okkar áfangastöðum vestanhafs sem hafa fáar beinar tengingar við Evrópu og þannig passar Detroit vel inn í öflugt leiðarkerfi okkar,“ segir Bogi Nils.

Icelandair verður ekki eitt um flugferðir héðan til Detroit í sumar því hið bandaríska Delta ætlar einnig að spreyta sig á þessari flugleið í sumar. Þar með takast Icelandair og Delta á í flugi héðan til þriggja bandarískra borga; New York, Minneapolis og núna Detroit.