Aukinn hagvöxtur vegna kröftugrar ferðaþjónustu

Ferðafólk við Bæjarins bestu nú í byrjun viku. MYND: ÓJ

Ný þjóðhagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir 4,8 prósenta hagvexti á árinu en fyrri spá bankans, frá því í febrúar, hljóðaði upp á 2,6 prósenta vöxt. Hækkunin skrifast á aukningu innlendrar eftirspurnar og horfurnar í ferðaþjónustunni enda útlit fyrir kröftug umsvif í greininni eins og segir í nýrri útgáfu Peningamála sem kom út í morgun.

Þessi krafur í ferðaþjónustunni gæti þó, að mati bankans, sett meiri þrýsting á húsnæðisverð vegna fjölgunar innflytjenda og aukinnar skammtímaleiga húsnæðis til erlendra ferðamanna.

Í Peningamálum segir jafnframt að efnahagsumsvif í helstu viðskiptalöndum hafi gefið eftir og alþjóðlegar hagvaxtarhorfur séu heilt yfir lakar. Áhrifa þessa gætir þó varla þegar horft er til ferðalaga hingað til lands.

„Miðað við áform innlendra flugfélaga virðist ekkert lát á eftirspurn eftir ferðalögum til landsins og er útlit fyrir að framboðið verði meira á seinni hluta ársins en áður var talið. Auk þess virðist leitum að gistingu og flugi til Íslands á leitarvél Google hafa fjölgað það sem af er ári,“ segir í Peningamálum og hefur Seðlabankinn hækkað fyrri spá sína um fjölda túrista í ár um 100 þúsund manns eða upp í tæplega 2,2 milljónir.

Þetta mat er þó háð töluverðri óvissu að því segir í Peningamálum og bent er á að ferðamönnum gæti fjölgað hraðar ef hlutfall skiptifarþega helst lágt. En eins og Túristi hefur áður fjallað um þá hefur vægi þess farþegahóps verið óvenjulegt hjá Icelandair í ár.

„Á hinn bóginn gæti ferðamönnum einnig fjölgað hægar en gert er ráð fyrir ef áhrif hækkandi framfærslukostnaðar í viðskiptalöndunum verða meiri, eftirspurn minnkar og áætlanir flugfélaga breytast,“ er útskýrt í Peningamálum.