Fjölga flugferðunum hingað um helming milli ára

Þau sem klipptu á borðann fyrir jómfrúrflugið til Detroit voru Romanoff hjónin, sem eru stórviðskiptavinir Delta og Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. Mynd: DELTA AIR LINES

Delta Air Lines verður með 808 flugferðir í boði milli Íslands og Bandaríkjanna í sumar. Það er fjölgun um helming frá því í fyrra. Mestu munar um hina nýju flugleið Delta milli Íslands og Detroit en í sumar verða 95 ferðir til og frá borginni. Að auki hefur ferðum til New York fjölgað um 26 prósent en í ár hóf bandaríska flugfélagið áætlunarflugið þaðan strax í mars í stað þess að bíða fram í maí. Delta flýgur einnig til Minneapolis í sumar frá Keflavíkurflugvelli.

„Í gegnum þessa þrjá áfangastaði býður Delta fleiri tengimöguleika til Norður-Ameríku frá Íslandi en nokkurt annað flugfélag. Sætaframboð Delta hefur aukist um 27 prósent frá því í fyrra og eru tæplega 146 þúsund sæti í boði til áfangastaðanna,“ segir í tilkynningu en þetta er tólfta árið í röð sem Delta flýgur milli Íslands og Bandaríkjanna.

„Það er mikil og jákvæð eftirspurn eftir ferðum til Íslands frá viðskiptavinum okkar vestanhafs, sem vegur þungt í ákvörðun okkar um að auka áætlunina milli Íslands og Bandaríkjanna um 50 prósent frá því í fyrra,“ segir Jan Feenstra, sölustjóri Delta á Íslandi.