Flugmiðar á uppleið

Farþegar um borð í þotu Easyjet. Mynd: Easyjet

Icelandair og Play eru síður en svo einu flugfélögin sem nú selja flugmiða á hærra verði en verið hefur síðustu misseri. Víða um heim hækka farmiðarnir nefnilega jafnvel langt umfram verðbólgu. Í Bandaríkjunum hefur meðalfargjaldið til að mynda hækkað tvöfalt meira en sem nemur almenni verðlagsþróun þar í landi samkvæmt frétt Financial Times sem byggir á göngum frá greiningafyrirtækinu Cirius.

Þar kemur jafnframt fram að á 600 vinsælustu flugleiðunum á heimsvísu þá hækkuðu fargjöldin um 27,4 prósent í febrúar en ekki liggja fyrir nýrri gögn en það. Þetta var fimmtánda mánuðinn í röð sem farmiðaverðið hækkaði hlutfallslega um meira en tíu prósent og þar með er verðlagið núna orðið hærra en það var fyrir heimsfaraldur.

Þessi þróun skrifast á mikla eftirspurn eftir ferðalögum nú þegar heimurinn hefur að mestu opnast á ný en fargjöldin endurspegla einnig þá staðreynd að olíuverð var mjög hátt í fyrra en hefur reyndar lækkað síðustu vikur eins og hér var farið yfir.