Forstjóraskipti hjá Arctic Adventures

Gréta María Grétarsdóttir, fráfarandi forstjóri Arctic Adventures. - MYND: ÓJ

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures, hefur sagt upp stöðu sinni og hefur Ásgeir Baldurs verið ráðinn í hennar stað. Gréta kom til starfa hjá Arctic Adventures í árslok 2021 en var áður framkvæmdastjóri hjá Brimi og Krónunni.  

Ásgeir hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu bæði sem stjórnandi, ráðgjafi, fjárfestingastjóri og stjórnarmaður. Hann var forstjóri VÍS, fjárfestingarstjóri TM, forstöðumaður í fyrirtækjaráðgjöf Kviku og forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Kviku.

Ásgeir hefur störf á næstu dögum að því segir í tilkynningu.

Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar um allt land. Ársvelta félagsins var um 5,2 milljarðar króna í fyrra.

Fjárfestingafélagið Stoðir eignaðist í lok apríl 35 prósent hlut í Arctic Adventures en aðrir stórir hluthafar eru Icelandic Tourism Fund, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, með fimmtungs hlut og Freyja, framtakssjóður á vegum Kviku eignastýringar, með 16 prósent hlut.