Samfélagsmiðlar

Fyrsti viðkomustaðurinn í Íslandsferðinni

Grindavík er ekki stórt pláss en þar er að finna marga veitingastaði. Hjá Höllu við Víkurbraut er einn þeirra. Halla María Svansdóttir hefur lagt mikið af mörkum við að þróa matarmenningu í heimabæ sínum. Auk veitingastaða í Grindavik og í Leifsstöð starfrækir hún umsvifamikla fyrirtækja- og veisluþjónustu.

Halla María Svansdóttir, veitingamaður í Grindavík

Það var hlýtt og notalegt á veitingastaðnum Hjá Höllu í Grindavík þegar TÚRISTA bar að garði einn rigningardaginn. Ferðamenn sátu við flest borðin og nutu matarins, einhverjir höfðu vafalaust áður gengið að nýja hrauninu við Fagradalsfjall, aðrir baðað sig í Bláa lóninu – eða voru bara nýkomnir til landsins og ákváðu að koma fyrst við í Grindavík og kynnast góðum íslenskum mat.

Horft inn fyrir – MYND: ÓJ

Stemmningin þarna inni var afslöppuð þó að augljóslega væri nóg að gera hjá starfsfólkinu. Eigandinn, Halla María Svansdóttir, gaf sér þó tíma til að setjast niður stutta stund og spjalla dálítið um reksturinn.

Halla María og Sigurpáll Jóhannsson, maður hennar, reka tvo veitingastaði undir þessu nafni: Hjá Höllu, í Grindavík og í suðurbyggingu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, og sinna líka fyrirtækja- og veisluþjónustu.

Grámyglulegur dagur. Gott að fá sér að borða – MYND: ÓJ

Grindvíkingar kunna vel að meta framlag Höllu Maríu til matarmenningar í bænum og voru henni veitt Menningarverðlaun Grindavíkur árið 2019. Síðustu 10 árin hefur hún stuðlað að bættri matarmenningu og sinnt veitingarekstri í þessu góða plássi. Í upphafi voru það námskeiðspakkar sem hún seldi fólki heiman frá sér, svokallaða námskeiðspoka, sem í var matarréttir, safar, þeytingar, te, millimál – og leiðbeiningar um mataræði. Næsta skref var rekstur útrétta-staðar (take-away) við gömlu hafnarvigtina. Svo í byrjun árs 2016 var opnaður nýr veitingastaður, Hjá Höllu, í húsinu við Víkurbraut 62. Þangað eiga margir erindi: Bæjarskrifstofur Grindavíkur og heilsugæslan eru undir sama þaki, líka Lyfja og Vínbúðin. Hárgreiðslustofa er við hlið veitingastaðarins og fyrir kemur að konur með blautan lit í hári skreppi yfir til Höllu og fái sér einn kaldan.

„Við vorum alls ekki viss um að svona stað vantaði í Grindavík,“ 

segir Halla María. En þetta gekk vel. Viðtökur voru framar vonum.

Við afgreiðsluna – MYND: ÓJ

„Við höfum aldrei tekið á móti stærri hópum en 20 manns í hádeginu. Rútufyrirtækin hafa viljað bóka stærri hópa en við höfum ekki gert það. Fólk á að geta gengið að því sem vísu að hér sé hægt að setjast niður og fá að borða. Ég held að þetta hafi bjargað okkur í gegnum Covid-19. Rúturnar voru farnar og við hefðum verið verkefnalaus. En gestirnir komu áfram til okkar af því að við höfðum aldrei lokað á þá. Viðskiptavinirnir studdu vel við okkur. Við höfðum opið á kvöldin og vorum með útrétta-þjónustu (take-away).“

Erlendir ferðamenn sem ákváðu að fá sér hádegismat í Grindavík – MYND: ÓJ

Árið 2018 opnaði Hjá Höllu í suðurbyggingu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Halla María segir að þau hafi viljað æfa sig fyrir stóra sviðið – taka þátt í að auka veitingaþjónustu í stækkandi flugstöð. Hún segir þó að mikil binding felist í að reka núverandi stað á Keflavíkurflugvelli. Isavia hafi krafist ákveðinnar viðveru á Covid-19-tímanum þó ekkert væri að gera. Frekar dauflegt sé á köflum um háveturinn en svo fari allt á hraðan snúning yfir sumarið. Íslendingar sæki mjög staðinn fyrir flug. 

„Maðurinn minn fór fyrir klukkan fjögur í morgun í flugstöðina með 400 samlokur.“

Hjá Höllu á Keflavíkurflugvelli – MYND: Hjá Höllu

Hjá Höllu er orðið nokkuð umsvifamikið í veitingarekstri með um 40 manns í vinnu. Og nú þarf reksturinn meira rými.

„Við höfum keypt húsnæði fyrir framleiðslueldhús, þar sem við munum gera samlokurnar, grautana og fleira. Nýja húsnæðið fáum við afhent í ágúst. Þar var áður fiskvinnsla með góðum kælum og frystum, sem eru okkur mikilvægir. Álagið er orðið mikið í eldhúsinu hjá okkur á Víkurbraut. Hér er unnið frá klukkan sex á morgnana til klukkan eitt um nóttina. Við þurfum að baka seinnipartinn og smyrja á kvöldin. Það verður að hagræða í rekstrinum og vinna sem mest í dagvinnu. Það er auðveldara að fá fólk í dagvinnu en í kvöld- og helgarvinnu.“

Halla María, þetta er langur vinnudagur.

„Já, þetta er langur vinnudagur. Ég er þreytt. Var að til klukkan eitt í nótt.“

Þú ert aðallega með fólk héðan úr Grindavík í vinnu. Hér vinna ekki margir útlendingar.

„Nei. Það er ekki af því að við viljum þá ekki. Við höfum bara verið svo heppin að hafa getað mannað störfin að mestu með heimafólki. Margt af því hefur verið hjá okkur í 10 ár. Það er alveg ótrúlegt.“

Nýr matseðill í hverri viku – MYND: ÓJ

Hver er stefnan í matargerðinni á þessum stað, Hjá Höllu?

„Við erum alltaf með nýjan matseðil í hverri viku. Fiskurinn og gellurnar eru alltaf til staðar en til viðbótar er ný súpa í hverri viku, nýtt salat, nýr grænmetisréttur, nýir kjöt- og kjúklingaréttir – og veganréttur.“

Þetta er langur og fjölbreyttur matseðill. Því fylgir væntanlega mikið álag í eldhúsinu.

„Já, þessu fylgir mikill undirbúningur og ýmislegt annað. En fjölbreytnin kemur sér vel af því að við sinnum veitingaþjónustu fyrir starfsfólk í Play-flugvélunum, útbúum um 150 skammta á dag. Það er gott að geta boðið starfsfólkinu fjölbreyttan mat. Við erum með önnur stór fyrirtæki í viðskiptum, flest í Reykjavík en líka á Suðurnesjum.“

Kaffisopi eftir matinn – MYNDIR: ÓJ

Þið flytjið í nýtt framleiðslueldhús í haust en eigið eftir að kaupa tæki í það. Hér á Víkurbraut ætlið þið að vera áfram – og líka suður á velli. Hafa lánastofnanir skilning á þörfum ykkar fyrir fjármagn til fjárfestinga? Er erfitt að sannfæra þær um að þið séuð lánshæf?

„Já, það hefur alltaf verið þannig. Þetta hefur verið vesen alveg frá byrjun. Þetta er krefjandi. Ég get ekki alltaf sýnt mjög fallegar tölur. Við þurftum að kveðja Landsbankann af því að hann vildi ekki lána okkur. Það var erfitt að komast í gegnum áramótin vegna verðhækkana sem tóku við af Covid-19. Ég var ekki viss um að ég vildi komast í gegnum þetta og langaði að loka. Verð á hinu og þessu hækkar stöðugt og það er erfitt að fá það til baka.“

Hvernig er viðskiptamannahópur ykkar?

„Fólk á öllum aldri – af ólíku þjóðerni. Eldgosið var happdrættisvinningur fyrir okkur. Fólk er enn að ganga þarna upp eftir og skoða nýtt hraunið. Það kemur svo við hjá okkur og borðar. Við opnum snemma. Fólk getur komið hingað strax klukkan átta og fengið morgunmat. Margir koma beint úr flugi til okkar, borða morgunmat og fara svo í Bláa lónið eða aka hring á Reykjanesskaganum.“

Hádegismatur Hjá Höllu – MYND: ÓJ

Eru túristarnir búnir að kanna vel áður hvað er í boði – vita þeir af ykkur fyrirfram?

„Já, mér sýnist það. Svo á laugardögum er alltaf smekkfullt hérna af fólki úr Reykjavík og annars staðar að á helgarrúntinum. Það kemur hingað og fær sér að borða og ekur svo áfram.“

Grindavík er fræg að fornu og nýju fyrir fiskinn. Er hann ekki vinsælastur á matseðlinum?

„Jú, hjá útlendingunum sérstaklega. Íslendingar biðja reyndar frekar um annan mat, borða fiskinn heima. Annars er fólk líka hrifið af því að taka með sér fisk heim í bökkum og hita upp heima.“

Við göngum yfir í eldhúsið. Þar er líf og fjör. 

Þær hafa margar unnið lengi saman – MYND: ÓJ

Ertu bara með konur í vinnu, Halla María?

„Það vill enginn karl vinna með okkur. Við erum komnar á þann aldur að við erum mjög erfiðar og hreinskilnar!“

segir Halla María og skellir upp úr. 

Kíkt inn í eldhús – MYND: ÓJ

Allt á fullu – MYND: ÓJ

Túrista er bent á að nokkrar kvennanna sem vinna á þessum vinsæla veitingastað hafi byrjað saman í beitningu. Þær vöndust því að vinna í akkorði .

Túristi er farinn að þvælast fyrir starfsfólki og gestum, lætur sig því hverfa út í rigninguna og þokuna sem grúfir yfir plássinu.

Eftir að hafa lokið öðrum verkefnum í Grindavík laumast Túristi aftur inn á þennan góða stað þegar dálítið hefur róast, kemur sér fyrir í horni við gluggann og pantar djúpsteiktar gellur með sætkartöfluflögum. Diskurinn sem skömmu síðar var lagður á borðið reyndist vera himnasending á þessum grámyglulega degi. 

Gellur – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …