Í það minnsta 100 Íslendingar slepptu Eurovision í ár

Við rásmarkið í Kaupmannahöfn í morgun. MYND: KS

Nú í morgunsárið, klukkan hálf átta að íslenskum tíma, hófst Kaupmannahafnarmaraþonið en til leiks eru skráðir 12.500 hlauparar, þar af rúmlega 100 Íslendingar. Þessi hópur hefur væntanlega látið úrslitakvöld Eurovision fram hjá sér fara því útsendingunni frá Liverpool lauk ekki fyrr en um eitt í nótt að dönskum tíma, rúmum átta tímum áður ræst var í hlaupið.

Óhætt er að segja að maraþonið muni setja svip sinn á höfuðborg Dana í dag en leið hlauparanna liggur frá Parken fótboltavellinum, í austurhluta borgarinnar, inn í miðborgina og þaðan til vesturs áður en haldið er haldið er á ný að Parken þar sem markið er.

Skipuleggjendur hlaupsins gera ráð fyrir að tugir þúsunda Kaupmannahafnarbúar muni hvetja hlauparana áfram í dag en veðrið í borginni er gott í dag, 20 stiga hiti og næstum heiðskýrt.