Ísland fær auknar losunarheimildir

Evrópusambandið vill draga úr vexti í flugsamgöngum með því að leggja auknar álögur á losun frá flugi. Forseti framkvæmdastjórnar ESB tekur undir að þetta hafi meiri áhrif á Íslandi þar sem engir aðrir samgöngukostir eru raunhæfir í ferðum til annarra landa.

Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Undanfarin misseri hafa íslensk stjórnvöld unnið að því að fá aðlögun að breyttu viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir sem öðlast gildi um áramótin. Ljóst var að málið yrði á tekið upp á fundi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ursula von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í ráðherrabústaðnum dag og á blaðamannafundi að honum loknum tilkynntu þær að lausn hafði fundist fyrir Ísland.

Samkvæmt henni fær Ísland auknar heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda frá flugi árin 2025 og 2026. Þessum viðbótarheimildum geta íslensk stjórnvöld deilt á milli flugfélaga en ekki kom fram hversu margar þær verða en Icelandair og Play borga nú þegar milljarða fyrir losunarheimildir.

Hvort sá reikningur hækki umtalsvert árið 2027, þegar þessari boðuðu aðlögun Íslands að viðskiptakerfinu lýkur, á eftir að koma í ljós. Ráðamenn í Brussel hafa gefið út að allt alþjóðaflug frá Evrópu verði fellt undir viðskiptakerfið í ársbyrjun 2027 og þar með þurfi flugfélög frá öðrum heimsálfum líka að borga fyrir losun gróðurhúsalofttegunda í evrópskri lofthelgi.

Bandaríkjamenn, Kínverjar og fleiri þjóðir hafa mótmælt þeirri hugmynd en ef af þeirri breytingu verður þá mun kerfið leggjast jafnt á öll flugfélög og þar með ekki koma sérstaklega niður á flugi til og frá Íslandi eins og annars yrði raunin.