Stjórnvöld hafi manndóm til að stöðva hvalveiðar strax

„Við vonum að þessi skýrsla gefi stjórnmálamönnum, og þeim sem með þessi mál fara, kjark til að stöðva þetta - hætta bara núna!" segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, í tilefni skýrslu Matvælastofnunar um hvernig staðið er að hvalveiðum hér við land.

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði
Ferðafólk fylgist með þegar hvalur er dreginn á land MYND: ÓJ

Veiðar Hvals hf., fyrirtækis Kristjáns Loftssonar, á stórhvelum samræmast ekki markmiðum laga um velferð dýra, segir Matvælastofnun (MAST) í skýrslu sem vakið  hefur hörð viðbrögð. Undrast margir ráðaleysi ráðherra og stjórnsýslunnar gagnvart þessum veiðiskap. Horfur eru á að enn ein hvalveiðivertíðin sé framundan – hugsanlega þó sú síðasta – og að hún eigi eftir að draga að meiri athygli en þær fyrri – meiri undrun og andstyggð fólks víða um heim. Þrátt fyrir að brotin séu lög um velferð dýra skal haldið áfram ósjálfbærum veiðum í þágu þröngra eiginhagsmuna. 

MYNDIR: ÓJ

Niðurstöður MAST um veiðar Hvals hf. á síðustu vertíð eru auðvitað sláandi þó þær komi í sjálfu sér ekki á óvart:

„Af þeim 148 hvölum sem voru veiddir, voru 36 hvalir (24%) skotnir oftar en einu sinni. Þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir hvalir skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í 5 klukkustundir án árangurs.” (MAST)

MYND: ÓJ

Þarna er um að ræða aðferðir við veiðar á spendýrum með þróað vitsmuna- og tilfinningalíf, skepnur sem þjóna mikilvægu hlutverki í vistkerfinu. MAST telur að þrátt fyrir gagnrýniverðar veiðiaðferðir hafi lög ekki verið brotin og haft er eftir matvælaráðherra á RÚV að ekki sé lagagrunnur fyrir því að stöðva hvalveiðarnar strax. Margir hafa orðið til þess að gagnrýna þessi viðbrögð ráðherra og stjórnsýslu harðlega.

Bjarnheiður Hallsdóttir

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF – MYND: ÓJ

„Þetta er það sem okkur hefur grunað í áratugi,” segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, aðspurð um viðbrögð við niðurstöðum skýrslu MAST.

„Það er gott að fá þetta staðfest. Ferðaþjónustan hefur talað fyrir því áratugum saman að hvalveiðarnar séu í andstöðu við það sem við höfum verið að byggja upp og þá sögu sem við erum að segja um sjálfbærni og náttúruvernd – söguna um náttúruparadísina Ísland. Við vonum að þessi skýrsla gefi stjórnmálamönnum, og þeim sem með þessi mál fara, kjark til að stöðva þetta – hætta bara núna! Fólk á öllum okkar markaðssvæðum fordæmir hvalveiðarnar. Þetta vinnur gegn því sem við erum að byggja upp.”

Stundum horfa menn til beinna áhrifa af hvalveiðunum á ferðavilja og komur erlendra ferðamanna. Varla skiptir það mestu – hvort komi dálítið fleiri eða færri ferðamenn, er það?

„Þessi skýrsla setur umræðuna á nýtt plan. Menn hafa þráttað um þetta, hvort veiðarnar séu mannúðlegar – hvort verið sé að veiða hvalina á besta mögulega hátt. Nú hefur verið staðfest að svo er ekki. Þetta er bara skepnuskapur sem viðgengst hér við landið. Það er ekki flóknara. Stjórnvöld eiga að hafa manndóm í sér til að stöðva hvalveiðar strax. Það hlýtur að vera hægt að finna leið til þess ef viljinn er fyrir hendi. Það á að gera það.”