Svisslendingar og vetrarferðir um Norðurland

Svissneska ferðaskrofstofan Kontiki býður viðskiptavinum ferðir til Norðurlands næsta vetur. Flogið verður beint einu sinni í viku frá Zürich til Akureyrar frá 4. febrúar til 10. mars, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Kontiki.

Vetrarferðamenn koma til Akureyrar MYND: Isavia

Þetta er í fyrsta skipti sem svissneska ferðaskrifstofan Kontiki býður sérstakar ferðir til Norðurlands en skrifstofan býr að reynslu af Íslandsferðum.

„Kontiki hefur einsett sér að stuðla að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu á Norðurlöndum og hefur tekið virkan þátt í henni. Til að sýna það í verki höfum við ákveðið að hefja þetta verkefni á Norðurlandi með sjálfbærni efst á blaði í samvinnu við Markaðsstofu Norðurlands. Markmiðið er að efla áfangastaðinn Norðurland, lengja dvöl þeirra ferðamanna sem þangað koma og efla heilsársþjónustu, með hag heimamanna og ferðamanna að leiðarljósi,“ er haft eftir Kontiki á Upplifðu Norðurland, ferðavef Markaðsstofu Norðurlands.

Á síðasta ári unnu Markaðsstofa Norðurlands og Kontiki saman að verkefni um sjálfbæra þróun áfangastaðarins Norðurlands, og meðal annars var haldin stór vinnustofa í Hofi á Akureyri sem fulltrúar Kontiki stjórnuðu.

„Áherslur Kontiki ríma mjög vel við áherslur norðlenskrar ferðaþjónustu um aukna uppbyggingu yfir vetrartímann, sem stuðlar að fjölgun heilsársstarfa í ferðaþjónustu og minni árstíðasveiflu. Fyrirtæki á Norðurlandi fá þarna tækifæri til að stuðla enn frekar að sjálfbærri ferðaþjónustu, sem mun koma öllu samfélaginu til góða,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í tilkynningu.