Meðal þeirra sem hafa lagt orð í belg að undanförnu um skipulags- og umferðarmál miðborgar Reykjavíkur er myndlistarmaðurinn Harpa Björnsdóttir, sem jafnframt starfar sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna. Harpa segir í færslu á Facebook-síðu sinni að oft þyki sér sem fagurfræðin sé fyrir borð borin en þessa dagana er hún með hugann við þau umferðarvandamál sem skapast vegna fjölda nýrra hótela og vaxandi umferðar ferðamanna um miðborgina. Hún telur brýnt að borgaryfirvöld ræði þessi mál við íbúa, rútufyrirtæki, ferðaskipuleggjendur, lögregluyfirvöld, leiðsögumenn og marga aðra:

Leiðsögumaðurinn Harpa Björnsdóttir við eldgosið í Geldingadölum – MYND:HB
„Á sama tíma og talað er um bíllausan lífsstíl og takmörkun bílaumferðar í borginni er von á því að 60-70 þúsund bílaleigubílar verði á ferðinni í sumar. Allir þurfa þeir stæði, sum í bílastæðahúsum, sum tekin frá íbúum. Þetta á eftir að verða áhugavert sumar og ef til vill verðum við öll að berjast um pláss,“ segir þessi reyndi leiðsögumaður á Facebook og lýsir áfram baráttunni við að komast ferðar sinnar um miðborgina með ferðafólk:

Hótel í miðborg Reykjavíkur gúgluð – MYND: Google
„Á sama tíma er þrengt að rútunum, sem er hagkvæmari ferðamáti, þær mega ekki keyra inni í hverfum, aðeins afmarkaðar leiðir leyfðar, og það er bara af hinu góða. En hótelum í grónum hverfum hefur fjölgað með ógnarhraða, aldrei gerð krafa um aðkomu bifreiða við þau og látið eins og allir hótelgestirnir komi bara gangandi. Komi þeir í rútum er staðan jafnvel verri vegna þess að þær mega ekki keyra hvar sem er og skilgreindum rútustæðum þar sem hægt er að setja þá út hefur verið fækkað umtalsvert á síðustu árum. Hugsið t.d. um öll hótelin í Kvosinni, frá hafnarbakka að ráðhúsi.“

Ferðafólk í Lækjargötu – MYND: ÓJ

Þá er að koma sér yfir Geirsgötu með sitt hafurtask – MYND: ÓJ
Harpa bendir réttilega á að rútustæði eru við Ráðhúsið, við Miðbakka og fyrir framan Hard Rock í Lækjargötu – en þau dugi engan veginn:
„Þetta gengur einfaldlega ekki upp með 2 milljónir ferðamanna, tvöföldun skemmtiferðaskipa með tilheyrandi rútuumferð og svo 60.000 bílaleigubíla [Leiðrétting: Skráðir bílaleigubílar eru um 30 þúsund]. Hugguleg bíllaus miðborg er útópía sem gengur ekki upp og skipulagsmál borgarinnar ganga heldur ekki upp. Í guðanna bænum Dagur og þið hin, takið samtalið, þetta stefnir í óefni!“ segir Harpa Björnsdóttir, myndlistar- og leiðsögumaður.