Samfélagsmiðlar

„Þetta verkefni krefst þess að við tölum saman“

„Við þurfum að dreifa ferðamönnum betur um höfuðborgarsvæðið og ákveða hvar við viljum byggja eitthvað upp og fá fólk til að fara víðar," segir Inga Hlín Pálsdóttir framkvæmdastjóri nýrrar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, í viðtali við TÚRISTA. Um leið og hún leggur áherslu á að styrkja víðtæka ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu vill hún auka samstarf við markaðsstofur annarra landshluta.

Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins er nýtt fyrirbæri og Inga Hlín Pálsdóttir var ráðin fyrsti framkvæmdastjórinn. Að Markaðsstofunni standa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins. Inga Hlín býr að mikilli reynslu í ferða- og markaðsmálum. Auk þess að hafa um árabil starfað hjá Íslandsstofu og Útflutningsráði hefur hún verið ráðgjafi á sviði ferðamála fyrir fyrirtæki og stofnanir. TÚRISTI settist niður með Ingu Hlín á kaffihúsi í Hafnarfirði og ræddi verkefnin framundan og sýn hennar á ferðaþjónustuna.

„Þetta er samsstarfsvettvangur um ferðamál á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir gríðarlega miklu máli að koma því á laggirnar, eiga þennan vettvang sveitarfélaga og fyrirtækja. Hann hefur vantað. Stóra verkefnið er áfangastaðaáætlunin sem unnin var á síðasta ári. Þar er lýst verkefnum og hugmyndum sveitarfélaganna og hagaðila um þróun ferðamála. Svo eru markaðsmálin meðal helstu verkefna stofunnar.“

Rafskutlur fyrir utan Sky Lagoon í Kópavogi. Reykjavík í baksýn – MYND: ÓJ

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins tekur að vissu leyti við keflinu af Höfuðborgarstofu. Það átta sig kannski ekki allir á því af hverju þessar breytingar voru gerðar – að leggja niður Höfuðborgarstofu en stofna síðan Markaðsstofu. Er verið að finna hjólið upp á nýtt?

„Höfuðborgarstofa vann mjög gott starf en hún einbeitti sér að viðburðum og markaðssetningu og var rekin af Reykjavíkurborg. Á síðustu árum hafa verið stofnaðar áfanga- og markaðsstofur um allt land og unnið hefur verið að því að efla þeirra markaðsstarf. Höfuðborgarsvæðið er síðasta svæðið að eignast slíka stofu. Þetta er sjálfseignarstofnun sveitarfélaganna og Ferðamálasamtakanna á höfuðborgarsvæðinu. Síðan geta fyrirtæki gerst aðilar að stofunni. Við kynnum þetta fyrirkomulag á fundi 8. júní. Í þessu felst stærsta breytingin frá því sem var á Höfuðborgarstofu. Áður var þetta starf allt innan Reykjavíkurborgar, en þó með ákveðnu samstarfi við sveitarfélögin. Framvegis verður markvissar unnið að þessu samstarfi allra á svæðinu.“

Ferðamenn yfirgefa Sky Lagoon og halda á vit næstu ævintýra – MYND: ÓJ

Hver er helsti ávinningurinn af því að tengja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu betur saman á vettvangi ferðamála?

„Framvegis horfum við yfir allt svæðið í heild. Það hafa orðið breytingar víða að undanförnu: Sky Lagoon er komið í Kópavog, brú kemur yfir Fossvog og þá tengjast svæðin beggja vegna betur saman. Einn stærsti áfangastaður ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu eru Bessastaðir á Álftanesi. Við megum ekki gleyma því. Svo eru aðrir staðir að byggjast upp. Meðal áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu er Krýsuvík í landi Hafnarfjarðar. Þá eru mörg útivistarsvæði, eins og t.d. Heiðmörk, þar sem eru mörg tækifæri. Gríðarlegur fjöldi ferðamanna gengur á Esju. Þetta þarf allt að halda utan um og tengja saman. 

Ferðamaðurinn gerir sér enga grein fyrir því hvar Reykjavík endar og Kópavogur tekur við, hvar mörkin liggja milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Það skiptir engu máli. Hinsvegar þarf að horfa á tækifærin sem blasa við þegar komið er inn á þetta svæði – og þau þarf að kynna enn betur fyrir ferðamanninum. 

Hótel Víking í Hafnarfirði – MYND: ÓJ

Við þurfum að dreifa ferðamönnum betur um höfuðborgarsvæðið og ákveða hvar við viljum byggja eitthvað upp og fá fólk til að fara víðar. Hér í Hafnarfirði erum við með Víkingahótelið, gamla miðbæinn, fullt af kaffihúsum – og Hellisgerði er mjög vinsælt. Eitt af því sem fram kemur í áfangastaðaáætluninni eru möguleikarnir sem felast í því að kynna strandlengjuna. Getum við gert meira af því að kynna fjörurnar? Svo eigum við 17 sundlaugar! Hver og ein þeirra hefur sína sérstöðu. Einnig má nefna sjóböðin og hvernig hugsanlega má byggja upp meiri aðstöðu í kringum þau.“

Í huga erlends ferðamanns er hann væntanlega staddur í Reykjavík þó hann fái sér kaffi á Norðurbakkanum í Hafnarfirði. 

„Mjög líklega. Það er samstaða um að vinna undir merki Visit Reykjavík. Fólk gerir sér grein fyrir veruleikanum í þessum efnum. Á sama tíma er það líka hlutverk Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins að tala til íbúanna. Það eru stöðugar umræður um offjölgun ferðamanna og þess vegna skiptir máli hvernig unnið er með þessi mál.“

Leitað skjóls á kaffihúsi í Hamraborg – MYND: ÓJ

Fyrirtækin eiga að geta tengst Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins til að vinna að framgangi ferðaþjónustu á svæðinu. En eitt helsta markmið margra þessara fyrirtækja er þó að koma ferðamönnum út úr borginni – í ferðir um landið. 

„Yfir 90 prósent ferðamanna sem koma til landsins gista á höfuðborgarsvæðinu – að meðaltali þrjár til fjórar nætur. Reykjavík og nágrannasveitarfélögin eru og verða alltaf stærsti áfangastaðurinn á Íslandi. Það er gisting í öllum sveitarfélögunum. Við höfum öll hag af því að þróa svæðið áfram sem áfangastað ferðamanna. Það verður hlutverk Markaðsstofunnar. Þetta verkefni krefst þess að við tölum saman. Eitt sveitarfélag getur ekki farið út í horn með sitt. Og fyrirtækin þurfa að vera með. Þess vegna er gott að hafa þennan nýja vettvang fyrir umræður.“

Ferðamenn yfirgefa hótelið – MYND: ÓJ

En það eru ekkert endilega hagsmunir einstakra fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu – hvað þá íbúanna – að halda ferðamönnunum hér á suðvesturhorninu.

„Það er alveg rétt. Við viljum hinsvegar fá gesti okkar til að skoða sig betur um og gera fleira á meðan þeir dvelja á svæðinu. En meðal verkefna okkar er líka að eiga samstarf við aðrar markaðsstofur á landinu, líka Ferðamálastofu og Íslandsstofu – og horfa á stóru myndina.“

Margir hafa áhyggjur af offjölgun ferðamanna í Reykjavík, mikilli samþjöppun þeirra á litlu svæði þar sem byggð hafa verið mörg glæsilega hótel. Þetta er sagt valda umferðarálagi og skapa brag sem við viljum ekki endilega hafa í miðborginni. Er ekki eitthvað til í þessu?

„Jú, þetta er stöðugt til umræðu. Eitt af því sem hefur verið nefnt er að fjölga þurfi rútustöðvum utan miðborgarinnar og stöðum þar sem farþegum er safnað saman í ferðir. Það væri liður í því að auka sjálfbærni að dreifa þessu meira, auka möguleika á að ferðamenn gisti víðar á svæðinu. Þetta er allt til umræðu. En fyrst er að vinna eftir áfangastaðaáætluninni að þeim verkefnum sem þar er lýst. Getum við búið til sameiginlegar gönguleiðir um svæðið – til að létta álagið annars staðar? Væri hægt að skapa betri forsendur fyrir því að fólk sjái norðurljósin án þess að fara í burtu af höfuðborgarsvæðinu? Allt er þetta samspil. Það er enginn að fara taka neitt af neinum. Við þurfum að þróa möguleikana áfram í sátt og samlyndi.“

Beðið eftir rútu í Lækjargötu – MYND: ÓJ

Alls staðar þar sem ferðamönnum fjölgar veldur það einhverjum núningi við íbúa eða starfsemi sem fyrir er. Það er eilífðarverkefni að finna jafnvægi sem flestir geta sætt sig við.

„Meðal þess sem Ferðamálaráð Sameinuðu þjóðanna lagði til á sínum tíma var að stofnaðar yrðu áfangastaðastofur. Hingað til hafa svona stofur lagt áherslu á markaðssetningu en nú er líka mikið unnið að þróunarmálum. Hjartað í þessu er samstarf og samtal hagaðila. Þetta er það sem stjórnvöld hér tóku á sínum tíma til sín og hvöttu landshlutana til að setja á laggirnar áfangastaðastofurnar sem vettvang fyrir samtal allra hagaðila. Það verður að hugsa um stóru myndina. Hér á höfuðborgarsvæðinu þurfum við að ákveða hvernig við viljum vera eftir 10 ár. Það þarf að búa til ferðamálastefnu fyrir Ísland en líka hvert svæði fyrir sig. Við þurfum að huga að því hvað verið er að mæla. Við þurfum að mæla fleira en fjöldann og gistinæturnar. Við þurfum líka að mæla áhrifin á umhverfið – og svo framvegis. Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir t.d. á komum skemmtiferðaskipanna en við þurfum að greina áhrifin betur. Mín meginskoðun er sú að við eigum að hafa fjölbreytta flóru ferðamanna – ekki bara t.d. horfa til þess að fá hingað lúxusferðamenn. Við þurfum fjölbreytni og við þurfum að geta dreift álaginu yfir árið. Það munu aldrei allir fara hringinn í kringum landið í desember en það má þróa margskonar vörur til að bjóða á þeim tíma.“

Leiðsögumaður kynnir miðborgina – MYND: ÓJ

Vantar ekki töluvert upp á að fólk átti sig á því hvert vægi ferðaþjónustunnar er og hversu mikil áhrif hún hefur á allt samfélagið?

„Jú, hluti af þeirri hugmyndafræði sem er að baki áfangastofunum er að bæta úr þessu. Það skiptir líka máli í þessu sambandi hvað mælt er. Það er hægt að segja margt um góð áhrif en ef engar mælingar eru að baki slíkum fullyrðingum þá er erfitt að standa við þær. En það er óhrekjanlegt að komur ferðamanna hafa haft jákvæð áhrif. Hér eru verslanir sem ekki myndu lifa án ferðaþjónustunnar og fjöldi veitinga- og kaffihúsa hefur sprottið upp. Sama er að segja um uppbyggingu glæsilegra hótela og afþreyingar. Hvarvetna á höfuðborgarsvæðinu er verið að ræða frekar uppbyggingu til að þjóna ferðamönnum. Við hljótum að vera ánægð með þetta – að þjónusta batni.“

Hvernig metur þú alþjóðlega stöðu þessa áfangastaðar – Reykjavíkur, höfuðborgar Íslands?

„Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt hafa sterka ímynd. Ferðamenn hugsa í dag mikið um borgir – tengja ekkert endilega við einstök lönd. Fólk heimsækir borg en nefnir ekki landið sem hún er í. Þetta skiptir miklu máli í þeirri þróunarvinnu sem við erum að fara í – að við byggjum upp sterkt vörumerki fyrir höfuðborgarsvæðið. Það hefur þegar verið unnið gríðarmikið verk á þessu sviði en halda verður áfram með þá vinnu. Þá verður að vera alveg skýrt fyrir hvað við viljum standa.“

Í miðbæ Hafnarfjarðar – MYND: ÓJ

Skilur þú óánægju og gagnrýni margra á landsbyggðinni á að suðvesturhornið sogi til sín allt fjármagn og fyrirtæki þar beini kröftum sínum að mestu að því að efla það svæði?

„Ég hef unnið á Íslandsstofu og mikið með markaðsstofum landshlutanna og hef góðan skilning á þeim verkefnum sem landsbyggðin er að kljást við. Það er alltaf hægt að beina reiði að þessum landshluta en staðreyndin er sú að hér er höfuðborgin okkar. Það verður mikilvægur hluti af mínu starfi að vinna betur með markaðsstofum landshlutanna. Vandamál okkar eru þau sömu og annars staðar. Það er t.d. ekki bara á Íslandi sem vantar starfsfólk í ferðaþjónustu. Þetta er vandamál um allan heim. Við eigum í samkeppni við aðra áfangastaði – höfuðborgarsvæðið og Ísland allt, berjumst um starfsfólk og forskot í tækni og sjálfbærnimálum.“

Hvað er á matseðlinum? – MYND: ÓJ

Hefur þú svar við því sem reiðiraddirnar segja: Það er komið meira en nóg af þessum túristum og nú ættum við að skrúfa fyrir?

„Nei ég get ekki svarað því beint en velti fyrir mér hvað við getum gert betur og eitt af því hlýtur að vera að efla samtal og samstarf íbúa og ferðaþjónustunnar.“

Nýtt efni

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …