Samfélagsmiðlar

„Þurfum að sameina kraftana“

Nýr formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna, Jóna Fanney Friðriksdóttir, vill að kannað verði hvort rétt sé að fara í bandalag með öðrum stéttarfélögum til að styrkja stöðuna í baráttunni fyrir bættum kjörum. TÚRISTI ræðir við Jónu Fanneyju um starfið og hagsmunamál leiðsögumanna.

Jóna Fanney Friðriksdóttir, formaður Leiðsagnar

Við mæltum okkur mót á kaffihúsi við Bankastræti. Leiðtogar Evrópuríkja voru horfnir á braut en venjulegir túristar fóru óhindraðir ferða sinna um súldarlega miðborgina. Þegar við settumst niður með kaffibollana byrjar Jóna Fanney Friðriksdóttir á því að segja mér að hún sé algjörlega ósofin eftir að hafa skilað af sér ferðamannahópi suður á Keflavíkurflugvöll í nótt. Svona er líf leiðsögumannsins. Það er vaknað snemma og oft farið seint að sofa – já, eða því bara sleppt.  

Jóna Fanney tók nýverið við sem formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna á Íslandi. Um 900 manns eiga aðild að félaginu en miklu fleiri starfa við leiðsögn hérlendis – margir þeirra eru útlendingar sem sinna ökuleiðsögn.

Leiðsögumenn eru sundurleitur hópur, fólk úr ýmsum áttum og með ólíka menntun og bakgrunn. Helsta baráttumál Leiðsagnar hefur frá upphafi verið að auka gæði leiðsögustarfsins. Það er vafalaust mjög krefjandi verkefni. Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega mikið á rúmum áratug og það hefur auðvitað reynt mjög á getu Íslendinga til að sinna gestgjafahlutverki sínu. Við ræðum stöðu ferðaþjónustunnar og verkefni leiðsögumanna á meðan við súpum á kaffinu. Allt í kringum okkur sitja erlendir ferðamenn að velta fyrir sér næstu áföngum í Íslandsferðinni. 

Erum við of fámennur hópur til að standa ein í þessari baráttu?“ – MYND: ÓJ

Stærsta hagsmunamál leiðsögumanna í dag eru kjaramálin. Samningar verða lausir í janúar 2024. Við erum að mynda hóp til að fara í þau mál og vonast ég til að þau sem hafa unnið að þeim fyrir okkur geri það áfram. Kjaramálin eru númer eitt, tvö og þrjú. Mig langar líka til að við leiðsögumenn spyrjum okkur hvort við værum betur komin í bandalagi með öðrum stéttarfélögum. Erum við of fámennur hópur til að standa ein í þessari baráttu? Þetta er eitt af því sem við munum skoða. Með þessu er ég ekki að segja að sameining við annað stéttarfélag fylgdi því að ganga í bandalag með öðrum. 

Annað stórt hagsmunamál okkar er að sameina hópinn – sameina leiðsögumenn. Ýmsir hópar sem sinna leiðsögn eru utan félagsins – eins og ökuleiðsögumenn og fjallaleiðsögumenn. Þetta er ekki góð þróun. Við erum í heildina fámenn stétt og megum ekki við því að kljúfa okkur í marga litla hópa. Þá verður lítið bit í okkur. Við þurfum að sameina kraftana.  

„Ég tel að við þurfum að koma okkur inn í 21. öldina hið fyrsta“ – MYND: ÓJ 

Vandinn liggur að hluta í því hvernig Leiðsögn hefur hingað til metið skilyrði til aðildar að félaginu – út frá því hvaðan viðkomandi hefur lokið leiðsögumannaprófi. Þetta þarf að fara betur yfir. Félag leiðsögumanna fer ekki með völdin menntamálum, það gera yfirvöld menntamála. En það dugar ekki lengur að vinna eftir gömlum námsskrám og úreltum kröfum. Félag leiðsögumanna þarf að sameina krafta leiðsögumanna og beita sér fyrir því að koma námskrárgerð leiðsögumanna í örugga höfn í ráðuneyti menntamála. Ég tel að við þurfum að koma okkur inn í 21. öldina hið fyrsta. 

Þriðja atriðið sem ég vil nefna af því sem blasir við í starfi Leiðsagnar er þörfin á því að móta framtíðarsýn félagsins. Hvernig félag viljum við vera? Mér finnst mjög brýnt að við spyrjum okkur þeirrar spurningar. Raddirnar eru margar. Það er óánægja víða. Litlir hópar hafa klofið sig frá heildinni. Nú þurfum við að koma saman og ákveða hvernig við viljum að félagið verði. Viljum við sinna hagsmunamálum stéttarfélagsins í sjálfboðastarfi? Viljum við fá skjól af öðru sterku stéttarfélagi? Þessu svara ég ekki ein. Það er félagsmanna að svara þessum spurningum. Ljóst er að við þurfum að styrkja okkur. Við þurfum að greina betur forsendur fyrir kröfum okkar um betri laun fyrir starfið.“ 

Jóna Fanney sat í stjórn Landverndar – MYND: JFF

Jóna Fanney hlaut réttindi sem leiðsögumaður árið 1987 en hefur á starfsævinni sinnt fjölmörgum öðrum störfum, m.a. verið bæjarstjóri á Blönduósi.  

„Ég hef iðulega hlaupið í leiðsögn á sumrin þó ég hafi verið í stjórnarstörfum, hef litið á það sem frí. Hef mikið verið í hestaferðum. Þegar ég bjó á Blönduósi fór ég oft sem leiðsögumaður í hestaferðir yfir Kjöl í sumarfríum.“ 

Ferðamenn á Skólavörðuholti – MYND: ÓJ

Hvernig myndir þú lýsa breytingunni á ferðaþjónustunni frá þeim tíma þegar þú varst að byrja? 

„Það hafa orðið algjör umskipti. Þetta er allt annað landslag – allt annar heimur en þegar ég byrjaði 1987. Þá komu öðruvísi gestir, fólk sem þekkti Ísland betur fyrirfram en vildi fara meira á dýptina. Fjöldatúrisminn er öðruvísi. Starf leiðsögumanna breytist með þessari þróun. Vaxandi fjölda ferðamanna hefur fylgt að hingað koma margir leiðsögumenn frá öðrum Evrópulöndum, ungt fólk sem sér þarna tækifæri á starfi. Það er ekkert sem stöðvar þetta fólk í að koma hingað og starfa.“ 

Þetta er opinn og frjáls atvinnumarkaður fyrir fólk af Evrópska efnahagssvæðinu. 

„Já, akkúrat. Og kannski getum við sagt: Sem betur fer! Við erum ekki nægilega mörg til að sinna þessum fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Ekki frekar en á hótelunum. Þetta er orðin stærsta atvinnugreinin í landinu og við náum ekki að manna hana ein.“ 

Þykir nýja formanninum einhver ógn stafa af þessu vinnuafli að utan – leiðsögumönnum frá öðrum Evrópulöndum? 

„Nei, alls ekki. Ég tel að flest þetta unga fólk frá Evrópu sé að gera mjög vel. En það má flokka þjónustuna betur. Þá er ég engan veginn að tala um lögverndun starfsins. Mín sýn er að það myndi skili okkur litlu. Það verður hinsvegar að vera ljóst þegar atvinnurekandi ræður leiðsögumenn að um er að ræða nokkra flokka eftir menntun, starfsaldri og reynslu, Atvinnurekandinn ræður þessu. Sum ferðaþjónustufyrirtækin ráða eingöngu lærða leiðsögumenn, önnur blöndu úr báðum hópum: faglærða og minna menntaða, en leggja áherslu á að þau yngri sem koma að utan fái þjálfun hér – fari í ferðir fyrst með reyndum leiðsögumönnum.“ 

Hópferðabílar við Reynisfjöru – MYND: ÓJ

Er ekki erfitt fyrir Leiðsögn að sækja launahækkanir á sama tíma og fyrirtækin geta mannað störfin með ódýru, ungu vinnuafli frá meginlandinu? 

„Þá komum við kannski að því hvers virði menntunin er. Hvers virði er menntun leiðsögumanna hér í landinu? Þarf ekki að miða launin út frá því?“ 

Það gæti verið freistandi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að horfa einfaldlega framhjá því og telja fullgott að ráða lítt þjálfaða leiðsögumenn? 

„Jú, það er veruleikinn í dag. En mörg fyrirtækjanna leggja mikla áherslu á menntun og reynslu – ráða jafnvel eingöngu Íslendinga í þessi störf – telja að í því því felist mikil verðmæti.“ 

Hvernig horfir sumarið við þér sjálfri? 

„Það er allt komið í fullan gang. Í nótt skilaði ég af mér hópi suður á Keflavíkurflugvelli. Þetta var starfsmannahópur frá Indlandi í sex rútum. Eigandinn var í rútunni með mér. Þetta er mjög stórt fyrirtæki á sínu sviði. Farnar verða fimm ferðir um Ísland í sumar með valið starfsfólk frá indverska fyrirtækinu, yfir þúsund manns. Í þessu verð ég í maí og júní. Ég er frílans og sinni mikið hvataferðum, eins og þeim sem Indverjarnir eru að fara í. Það er ekki bara ekið að Gullfossi og Geysi heldur líka farið á jökul, boðið upp á stuð og ævintýri – hefðbundin dagskrá er brotin upp með einhverju skemmtilegu.“ 

Það verður nóg að gera hjá þér í sumar. 

„Já, ég gæti unnið endalaust. Það er nóg að gera í þessum bransa árið um kring – aðeins rólegra núna eins og venja er í apríl og maí.“  

Gott að kunna jóga. Jóna Fanney á vettvangi starfsins – MYND: JFF

Hvaða kostir prýða góðan leiðsögumann?  

„Góður leiðsögumaður þarf að muna að vera hann sjálfur og kunna að lesa salinn, eins og sagt er. Ferðamenn eru ekki endilega komnir til að hlýða á langa fræðilega fyrirlestra, góð kímnigáfa er nauðsynleg öllum leiðsögumönnum. Þeir verða að geta byggt brú fyrir ferðamennina yfir í okkar menningarheim og samtímis að efla hópinn innbyrðis. 

Þetta síðasta sem ég nefni – að að efla hópinn innbyrðis – má líklega segja að sjálfir leiðsögumennirnir þurfi að gera í dag: efla hópinn og byggja á samtakamættinum!“

Ferðamaðurinn er stundum einn – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …