Um þúsund krónur á dag fyrir símann

Ef stefnan er tekin á Norður-Ameríku, Sviss eða Asíu á næstunni þá er vissara að kaupa ferðapakka símafyrirtækjanna.

Mynd: Enrique Alarcon / Unsplash

Áður en Evrópusambandið setti hámarksverð símataxta innan EES-svæðisins var rándýrt að nota íslenska farsíma á ferðalagi í Evrópu. Það eitt að svara símtali kostaði um þrjátíu krónur og borga þurfti hundruðir fyrir stutt spjall við fólkið heima. Tásumyndir frá Tenerife væru sennilega óþekkt fyrirbæri ef gjaldskrár íslensku símafyrirtækjanna hefðu fylgt verðlagsþróun í stað þess beygja sig undir verðþakið frá Brussel.

Í dag er Evrópska efnahagssvæðisins eitt gjaldsvæði og íslenskir símnotendur geta því notað símann sinn á Spáni, Danmörku og víðar fyrir sama verð og hér heima.

Ekki lengur 13 þúsund fyrir stutta stund á Facebook

Öðru máli gegnir um ferðalög til Evrópulanda sem ekki eru innan ESS-svæðisins og svo auðvitað annarra heimsálfa. Sá sem ferðast til Sviss, Bandaríkjanna eða Japan þarf að borga miklu meira fyrir að vera í sambandi við heimalandið.

Kostnaðurinn er samt miklu lægri en áður. Fyrir áratug síðan rukkuðu íslensku símafyrirtækin allt að 13 þúsund krónur fyrir netsamband í 10 mínútur í Bandaríkjunum og sá sem hringdi þaðan heim til Íslands greiddi nærri 400 krónur fyrir hverja mínútu.

Lítill munur á keppinautunum

Í dag er verðlagið allt annað ef fólk kaupir sérstaka ferðapakka símafyrirtækjanna þegar ferðast er til landa utan EES-svæðisins. Sá sem ekki bókar ferðapakka greiðir tífalt meira fyrir netnotkunina.

Hjá Hringdu, Símanum og Vodafone kosta ferðapakkarnir nákvæmlega það sama eða 990 krónur á dag. Innifalið í því verði er gagnmagn upp á 500 megabæt en sá sem klára þau innan sólarhrings borgar sjálfkrafa aðrar 990 krónur og fær þá jafn mörg megabæt.

Nova fer aðeins aðra leið en keppinautarnir því þar kosta 500 megabæt 890 krónur en einnig er hægt að borga 1.990 krónur fyrir fjórfalt meira gagnmagn eða 2 gígabæt. Svo mikil netnotkun á einum sólarhring kostar tvöfalt meira hjá keppinautunum.

Vodafone er það eina af þessum fjórum fyrirtækjum sem lætur öll símtöl og sms fylgja með ferðapakkanum.