AECO leitast við að styrkja tengslin við heimamenn

Útgerðir skemmtiferða- og leiðangursskipa sýna Íslandi vaxandi áhuga, eins og skipaumferðin um landið er til vitnis um. AECO eru samtök skipafélaga leiðangursskipa á norðurslóðum. Þau leggja áherslu á samstarf við heimafólk og segjast vilja sýna ábyrgð í umhverfismálum.

MYND: AECO

Fulltrúar AECO hittu hagaðila á nokkrum stöðum á siglingu kringum landið. Komið var við á níu stöðum, m.a. á Patreksfirði, Akureyri og í Grímsey.

„Áhuginn á Íslandi sem áfangastað hefur aukist og þar með einnig umsvif AECO á Íslandi. Nýjasta verkefni samtakanna er Clean Up Iceland sem hófst formlega í Skagafirði í maí. Skipulagðar strandhreinsanir eru ein leið fyrir leiðangursskip til að skapa ágóða á áfangastöðum. Annað verkefni kallast Made in the Arctic, og miðar að því að ýta undir fjárhagslegan ágóða af leiðangursskipum með því að kortleggja hvað er framleitt á hverjum stað. Það mun gera skipafélögum leiðangursskipa og gestum þeirra auðveldara að kaupa meira af vörum og þjónustu á hverjum stað. Verkefnið felur einnig í sér fyrstu sýningu AECO í október, AECO Market Place, sem mætir þörfum skipafélaga og fyrirtækja,“ segir í fréttatilkynningu frá AECO.

Meðal þess sem rætt var á fundum AECO með heimafólki var álagsstýring. Í fréttatilkynningunni er þetta haft eftir Elfari Steini Karlssyni, hafnarstjóra á Patreksfirði:

„Við höfum verið að skoða að takmarka fjölda skipa eða fjölda farþega á dag sem koma til Patreksfjarðar. Þannig munum við geta veitt gestum betri upplifun og bæjarbúar verða rólegri við að vita að við höfum tök áþessari grein ferðaþjónustunnar. Það gladdi okkur að heyra að AECO styður okkur í þessum aðgerðum.“