Næsta vor hefst áætlunarflug Icelandair til Færeyja og verður flogið frá Keflavíkurflugvelli í morgunsárið. Frændur okkar ná því hingað til lands í tíma fyrir brottfarir Icelandair til Bandaríkjanna seinnipartinn. Ferðalagið frá Vagar flugvelli við Þórshöfn til New York, með stuttu stoppi í Leifsstöð, mun þá taka 9 klukkustundir og 40 mínútur samkvæmt bókunarvél Icelandair.
Akureyringur sem ætlar að ferðast með flugfélaginu úr heimabyggð og alla leið til New York þarf aftur á móti að leggja á sig flóknara ferðalag. Sá verður nefnilega að fara á milli flugvalla fyrir sunnan og innrita farangurinn í tvígang, jafnvel þó flogið sé með sama flugfélagi. Ferðalagið tekur 10 klukkutíma og 10 mínútur.
Heimferðin er tveimur klukkutímum lengri og ferðalagið, báðar leiðir frá Akureyri til New York, tekur að minnsta kosti 22 klukkutíma og 10 mínútur samkvæmt bókunarvél Icelandair. Það er tveimur og hálfum klukkutímum lengra ferðalag en bíður Færeyingsins sem flýgur með íslenska flugfélaginu úr heimabyggð og til fjölmennustu borgar Bandaríkjanna.
Í dag er eingöngu hægt að bóka flugmiða með Icelandair fram í byrjun júní á næsta ári og miðað fargjöldin í byrjun næsta sumars þá er það í dag almennt ódýrara fyrir Færeyinga en Akureyringa að bóka miða með Icelandair til New York úr heimabyggð.
Ameríkureisur frá Akureyri gætu þó orðið einfaldari á næsta ári því Icelandair hefur haft uppi áform um að fljúga milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar á ný en það hefur þó ekki verið tilkynnt formlega. Icelandair ætlar hins vegar að spreyta sig á þessari flugleið á nýjan leik í október og nóvember nk.