Fann draumadjobbið sextán ára

Það er að færast fjör í leikinn á Ísafirði. Ferðafólki fjölgar með degi hverjum. Meðal þess vinsælasta sem í boði er fyrir ferðafólk er að sigla út í Vigur, á Hornstrandir og í Jökulfirði. Stefnan er sett á að auka hvalaskoðun í Djúpinu. Stígur Berg Sophusson hjá Sjóferðum var á bryggjunni þegar Túristi kom í bæinn.

Stígur Berg Sophusson MYND: ÓJ

Sjóferðir eru gamalgróið fyrirtæki, stofnað árið 1993 af Hafsteini Ingólfssyni og Guðrúnu Kristjönu Kristjánsdóttur, kölluð Kiddý.

Stígur Berg Sophusson byrjaði að vinna hjá Hafsteini og Kiddý árið 2006, fyrst sem háseti en síðar varð hann skipstjóri. Hann er með þetta í blóðinu, á ættir að rekja í Hornvík. Síðla árs 2020 keyptu Stígur og kona hans Henný Þrastardóttir, fyrirtækið af Hafsteini og Kiddý, tvo báta og bryggjuhús.

Eigendur Sjóferða á Ísafirði, Henný og Stígur Berg – MYND: ÓJ

Í maí í fyrra bættist svo þriðji og stærsti ferðaþjónustubáturinn við í flota Sjóferða: Sjöfn, 58 tonna farþegabátur frá Noregi, sem tekur 48 farþega. Sjöfn er með krana og getur því líka sinnt þungaflutningum. Fyrir átti útgerðin Ingólf og Guðrúnu. Í allt getur þessi floti flutt 126 manns. Þetta er nokkuð umsvifamikill rekstur. Frá maí og út september eru 10 manns við störf en þau hjónin sinna rekstrinum ein hina mánuðina, þreyja þorra og góu. 

Við stöndum á bryggjunni í dásemdarveðri. Túristi er nýkominn úr Reykjavík og kallar þetta veðurlag logn. Það er raki í lofti, hlýtt og notalegt. Bjart er yfir stjórnanda útgerðarinnar í vestfirsku blíðunni. Átjánda sumarið hans í fljótandi ferðaþjónustu við Ísafjarðardjúp er hafið fyrir alvöru. 

„Ég var ekki nema 16 ára gamall þegar ég fann draumadjobbið.“

Hvernig hefur gengið það sem af er átjánda sumrinu?

„Alveg ljómandi vel. Veðrið var aðeins að stríða okkur í maí og framan af júní. Suðvestan áttin kom  hressilega í rassgatið á okkur. En það er ekki ónýtt að vera hér í dag í 18 stiga hita. Alvöru kraftur hefur verið að færast í þetta nú í vikunni. Annars er mjög misjafnt hvenær þetta fer af stað. Í hitteðfyrra byrjaði vertíðin strax í maí. Sumarið í fyrra var ekki eins og margir bjuggust við en við gengum sátt frá borði.“

Sjöfn komin úr skemmtiferð með farþega MS Deutschland – MYND: ÓJ

Skemmtiferðaskipin koma hingað til Ísafjarðar hvert af öðru. Fáið þið farþega þeirra til ykkar?

„Já, þeir kunna vel að meta þessar ferðir okkar. Skemmtiferðaskipin lengja tímabilið hjá okkur – gera september að alvöru mánuði – vanalega líka maí, þó að skipin hafi verið fá að þessu sinni í þeim mánuði. Komur skemmtiferðaskipanna til Ísafjarðar gera það að verkum að við getum verið með svona stóran og góðan bátaflota. Ef við hefðum bara húsbílafólkið og Íslendingana, eins og þegar ég byrjaði, þá værum við ekki að stækka flotann.“

Þá er bara að leggjast að bryggju – MYND: ÓJ

Þú vilt taka þetta með í reikninginn þegar verið er að gagnrýna offjölgun skemmtiferðaskipa?

„Þessar raddir sem oft heyrast hér í bænum – þegar fólk er að bölva túristunum – yrðu enn háværari ef skemmtiferðaskipin hyrfu af því að þjónustustigið hér á Ísafirði myndi hríðfalla. Fjölmargt í bænum myndi hverfa.“

Þurfið þið hér á Ísafirði að bæta ykkur í móttöku skipanna og auka þjónustu við farþegana?

„Góður maður sagði mér að ef ég væri orðinn það stór að ég gæti sinnt öllum álagstoppum yfir árið þá væri ég orðinn of stór. Það er í þessu eins og öðru að ekki er hægt að hafa fullnægjandi þjónustu þegar fólkið er flest. Það koma dagar þegar ekki er hægt að sinna öllu. Það verða fimm til sjö dagar í sumar sem of margt fólk kemur en restinni af sumrinu eigum við að geta annað. Ýmislegt mætti laga, eins og aðgangsstýringu farþeganna um bæinn, bæta salernisaðstöðu og ýmislegt svoleiðis.“

Sjöfn og MS Deutschland á Ísafirði – MYNDIR: ÓJ

Stígur Berg bendir á kamra við höfnina sem ekki eru í notkun af því að enginn sinnir þeim. Hann segir að Sjóferðir hafi beðið um að fá að taka yfir rekstur þeirra, eignast þá eða leigja, en án árangurs. Ísfirðingar eru ekki einir um þennan vandræðagang. Það ætti að vera augljóst að bæta verður salernisaðstöðu verulega með stórfjölgun ferðafólks. Enn er langt í land hvað þau mál varðar.

Við dæsum dálítið út af þessu en förum svo að ræða skemmtilegri hluti: siglingar um Djúpið með ferðafólk.

„Við förum með farþegana af skemmtiferðaskipunum í Vigur, til Hesteyrar – og í hvalaskoðun, sem við erum að hella okkur út í. Almennir farþegar fara í samskonar ferðir en líka á Hornstrandir eins og þær leggja sig – alveg norður í Hornvík. Við bjóðum bæði upp á dagsferðir og áætlunarferðir fyrir ferðafólk sem ætlar að ganga með bakpoka. Tímabilið er alltaf að lengjast. Svo fer drjúgur tími í það á veturna að fara yfir allan búnað og dytta að hlutum. Þetta er stutt tímabil sem reksturinn er í fulllum gangi en allt verður að vera 110 prósent.“

Þú ert ekki með strandveiðileyfi?

„Nei, þá þyrfti ég að fara að röfla svo mikið. Ég hef ekki orku í það.“

Ferðafólkið af þýska skemmtiferðaskipinu kveður eftir skemmtisiglingu um Djúpið – MYND: ÓJ

Hverju breytti það að fá Sjöfn í fyrra?

„Við sáum það á fyrsta degi í maí í fyrra þegar við fórum með farþega af skemmtiferðaskipi í Vigur. Það var norðaustan þræsingur. Við fórum á Sjöfn og Guðrúnu, sem var stærsti farþegabáturinn hér í 20 ár. Við gátum krúsað á Sjöfn á 18 mílum inn eftir og allir höfðu það ljómandi gott um borð – en á meðan var Guðrún að snöflast á 8 mílum. Fyrir Guðrúnu var þetta bræla. Það er hægt að bjóða Sjöfn miklu meira, þetta er betri sjóbátur, stærra skip en hin tvö. Og fyrir fólk sem á hús norður á Hornströndum þá er kominn vinnubátur með krana og góðu dekkplássi. Nú eru allir farnir að bæta húsin sín, smíða og lagfæra. Nú á eftir förum við með mikið af efni í prestsbústaðinn í Aðalvík, sem er verið að laga: nýja glugga og timbur. Svona bát vantaði hingað.“

Svo sigldi MS Deutschland inn í bjarta nóttina – MYND: ÓJ

Og þú segir að þetta hafi gengið vel hjá ykkur hingað til?

„Þegar við keyptum fyrirtækið haustið 2020 áformuðum við að reka þessa tvo báta í 2-3 ár og stækka síðan hugsanlega við okkur en strax eftir fyrsta sumarið hófum við leit að þriðja bátnum. Enginn bjóst við neinu á þessu fyrsta sumri á Covid-ári en það kom ljómandi vel út hjá okkur.“

Ingólfur og Sjöfn – MYND: ÓJ

Langar ykkur til að stækka Sjóferðir ennþá meira eða eruð þið sátt eins og þetta er?

„Við erum alltaf að leita leiða til að gera betur og stækka við okkur. Næsti póll sem við stefnum á er að auka hvalaskoðun hér í Djúpinu. Það er mjög mikið af hnúfubak í Djúpinu, ein og ein hrefna, háhyrningar koma hingað en eru sjaldséðir. Svo sáum við steypireyði í einni ferðinni en ég veit ekki til þess að hún hafi sést hér í Djúpinu. Ég talaði við bændur og þá sem hafa verið að sigla þar. Enginn hafði séð steypireyði áður. Lífríkið er að breytast. Hnúfubakurinn kom ekki hingað áður fyrr. Þetta opnar nýja möguleika á atvinnu. Sjöfn hentar vel í hvalaskoðun. Það væri gott að hafa annan svoleiðis bát.“

Hafa engin stórfyrirtæki viljað kaupa ykkur?

„Nei. Þetta er sem betur fer þannig hér á Ísafirði að það er heimafólk sem sinnir ferðaþjónustunni. Það hugsar vel um svæðið – hefur taugar til þessara slóða sem við siglum um. Við viljum halda þessu góðu og fínu.“

Nú kemur Sjöfn fyrir hornið og stefnir til okkar. Viðmælandi Túrista er rokinn. Það verður að taka vel á móti farþegum, sem flestir komu til Ísafjarðar með skemmtiferðaskipinu MS Deutchland, sem kvaddi síðan með flauti og sigldi út í bjarta júnínóttina.

Stígur Berg er tilbúinn í átjánda sumarið í sjóferðaþjónustunni – MYND: ÓJ