Fer frá Kastrup til Heathrow

Thomas Woldbye, fráfarandi forstjóri Kaupmannahafnarflugvallar og verðandi flugvallarstjóri á Heathrow. MYND: LONDON HEATHROW

Fyrir heimsfaraldur var Heathrow í London fjölfarnasta flughöfn Evrópu og batinn þar á bæ hefur aukist hratt síðustu misseri. Núverandi forstjóri Heathrow ætlar hins vegar að láta af störfum síðar á árinu og í hans stað kemur Daninn Thomas Woldbye sem stýrt hefur Kaupmannahafnarflugvelli síðustu 12 ár.

Í fréttatilkynningu frá Heathrow segir að Woldbye hafi gert flugvöllinn í Kaupmannahöfn að helsta tengiflugvelli Norður-Evrópu sem jafnframt fær almennt góða umsögn farþega.

London er sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli en umferðin dreifist á fjóra mismunandi flugvelli, þar á meðal Heathrow. Þangað taka þotur Icelandair stefnuna tvisvar sinnum á dag og eins heldur British Airways úti reglulegu Íslandsflugi þaðan.