Ferðaþjónusta í blárri móðu

Hollenska skemmtiferðaskipið MS Zuiderdam er lengsta skip sem lagst hefur að bryggju á Ísafirði. Tvö önnur farþegaskip voru þar á laugardag og mikill fjöldi fólks í bænum. Blá móða lá í loftinu og hafnarstjórinn viðurkennir að þessi mengun sé ekki ásættanleg.

MS Zuiderdam, lengsta skip sem lagst hefur að bryggju á Ísafirði MYND: ÓJ

Það er einskonar síldarbragur á Ísafirði nú um hásumarið. Atgangurinn er slíkur á bryggjunum og margt fólk í bænum. Skemmtiferðaskipin koma hvert af öðru; eitt, tvö og allt upp í fimm sama daginn – í heildina yfir 200 komur í sumar með meira en 200 þúsund farþega. Þetta eru mikil uppgrip fyrir Ísafjarðarbæ, ferðaþjónustufyrirtækin, verslanir og veitingahús. 

Mikill floti rútubíla bíður á hafnarbakkanum hvern skipadag eftir farþegum sem vilja kynnast dálítið undrum Vestfjarða á þessum stutta tíma sem skip þeirra staldrar við. Aðrir láta sér duga að rölta um bæinn, virða fyrir sér húsin eða skoða varning í verslunum, setjast inn á kaffihús, gægjast inn í kirkjuna og fara á söfnin. Þau frískustu halda fótgangandi upp í Naustahvilft eða inn í Tungudal. Á Ísafirði býðst margskonar afþreying fyrir ferðafólkið: Lengri og skemmri bátsferðir og ævintýraferðir með leiðsögn uppi á landi á ýmiskonar farartækjum. 

Horft út um hótelherbergisglugga upp úr klukkan sjö. Morgunsól gyllir reykinn frá MS Nieuw Statendam – MYND: ÓJ

Það er laugardagsmorgunn og Túristi vaknar á hótelherbergi á Ísafirði. Dauf hljóð berast utan af Skutulsfirði inn um opinn gluggann. Þarna liggur MS Nieuw Statendam frá Holland America Line með um 2.500 farþega og rúmlega 900 manna áhöfn. Farþegar verða fluttir í land á þjónustubátum. Ekki er pláss fyrir tvö stór skip við legukantinn í höfninni. Þar er fyrir annað skip frá Holland America Line, MS Zuiderdam, með um 1.800 farþega og 800 manna áhöfn. Lítið fimm stjörnu könnunarskip Swan Hellenic-útgerðarinnar er þarna líka, Vega, með um 150 farþega og 120 manna áhöfn. Það má ætla að um 5.000 erlendir gestir fari í land á Ísafirði í dag – tvöfalt fleiri en búa þarna í gamla kaupstaðnum. 

Blá skipamóða – og tóbaksreykur – MYNDIR: ÓJ

Eftir að hafa gleypt í sig morgunmatinn skundar Túristi niður á Sundabakka. Fyrsta sem vekur athygli er blá móðan frá skipunum. Mengunarslæða strýkur fjöllin sem umkringja bæinn. Útblásturinn frá skipunum er mikill og auðvitað í hrópandi mótsögn við markmiðin um að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en 2040 – eftir rúm 16 ár. Því er ævinlega slegið á frest að grípa til markvissra aðgerða – þær eiga að koma síðar, lenda á einhverjum öðrum en okkur hér og nú. Ísafjarðarbær vill fá skipin og tekjurnar sem fylgja, setur ekki mengunarmörk, ræður ekki við að byggja upp nauðsynlega innviði til að tryggja skemmtiferðaskipunum rafmagn um tengingar við land. 

Það er verið að skoða málin.

Skemmtiferðaskipin á Ísafirði með um 5.000 farþega – MYNDIR: ÓJ

„Þetta er ekki einn af stóru dögunum í sumar með tilliti til farþegafjölda. Hinsvegar er þetta sögulegur dagur að því leyti að í fyrsta skipti leggst hér upp að kanti 285 metra langt skip. Zuiderdam er lengsta skip sem lagst hefur að bryggju hér á Ísafirði.“ 

Hilmar hafnarstjóri er vélfræðingur og skipstjóri og hefur starfað hjá Ísafjarðarhöfnum frá 2018 – MYND: ÓJ

Þetta segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri, sem hefur í mörg horn að líta þennan daginn – eins og flesta hina dagana í sumar.

Farþegafjöldinn fer yfir 6.000 sjö daga í sumar. Þessi laugardagur er ekki einn þeirra en það er alveg nóg að sýsla fyrir 10 starfsmenn Ísafjarðarhafnar. Þeir leggja sig fram um að allt gangi slysalaust fyrir sig. Ekki var annað að sjá en móttaka skipanna og farþega þeirra gengi vel. Vestfirðingar eru góðir heim að sækja.

Það koma margir að móttöku skipafarþeganna – MYNDIR: ÓJ

Eru þessir dagar ekki erfiðir þegar fjögur eða fimm skip koma með fimm til sex þúsund manns?

„Jú þeir eru það. Það er hafin umræða í bænum um að reyna að finna einhvern meðalveg í þessu – fá hingað ásættanlegan fjölda. Um daginn þegar hingað komu 6.000 farþegar hitti ég mann sem sagði: Þú vilt ekki hafa fleiri hérna! Þetta byggist allt á samvinnu fólks; við vinnum með rútufyrirtækjunum,  leiðsögufólkinu og ferðaþjónustufyrirtækjunum, sem bjóða upp á hvalaskoðun og fleira. Mér skilst að um 80 prósent farþeganna fari í bókaðar ferðir. Þau sem fara í fyrstu ferðirnar úr bænum koma svo aftur og skoða sig hér um áður en farið er aftur um borð. Það dreifist töluvert úr þessu.“

Allir eru á leið eitthvert annað – MYNDIR: ÓJ

Þegar við horfum hér út fjörðinn þá sjáum við bláa móðuna liggja yfir. Finnst þér þetta ásættanlegt?

„Nei! Ég hef sótt ráðstefnu og hitt fólk í skipabransanum. Mér er tjáð að unnið sé að því að bæta úr þessu. Það er alltaf verið að þróa þetta og gera betra.“ 

Farþegar MS Zuiderdam streyma frá borði og ganga á land – MYNDIR: ÓJ

Kemur til greina að setja skilyrði um vistvænna eldsneyti en dísilolíuna, sem þessi skip brenna hér í allan dag – og að maður tali ekki um að koma á landtengingum?

„Jú, Faxaflóahafnir hafa þegar tekið upp norskt kerfi (Environmental Port Index, EPI) sem verðlaunar þau skip sem menga minna – eftir því hvaða olíu þau brenna. Við erum að ræða okkar þátttöku í þessu.“

Er ekki langt þangað til lítill bær eins og Ísafjörður getur séð svona stórum skipum fyrir rafmagni á meðan þau liggja í höfn?

„Hér á Ísafirði myndi það þýða að leggja þyrfti nýjan kapal frá spennistöð inni í firði og hingað að höfninni. Eitt svona skip tekur jafn mikið af rafmagni og allur bærinn. Innviðirnir eru bara ekki til.“

Hafnarstjórinn svarar símtali – MYND: ÓJ

Enn er það dísilolían sem knýr þennan anga ferðaþjónustunnar á Ísafirði eins og víðar um land. Reyk leggur frá skipunum og saman við kemur útblástur frá fjölda bíla á hafnarsvæðinu. Sumar rúturnar eru komnar vel til ára sinna og menga mikið eftir því. Engar reglur gilda um þetta enn í íslenskri ferðaþjónustu. Mengunarmálin á að leysa síðar – eins og fleira. 

Farkostir dagsins eru sumir komnir til ára sinna – MYNDIR: ÓJ

Bæjaryfirvöld á Ísafirði, eins og víðar á landinu, eiga eftir að móta framtíðarstefnu varðandi komur skemmtiferðaskipanna. Þetta er enn dálítið eins og á síldarárunum, sem lauk með hruni: Síldin var veidd þangað til hún hvarf. Það var veitt meira af kappi en forsjá. Þegar nokkur þúsund manns spranga um götur Ísafjarðar á einum og sama deginum blasir auðvitað við að þetta er of margt fólk. Það dugar að nefna það sem fáir vilja tala um: Salerni vantar og snyrtiaðstöðu fyrir allt þennan mannskap. Ef á að taka á móti fólki þá verður að mæta brýnustu þörfum þess.

Ísafjörður breytist í borg – MYNDIR: ÓJ

Ræddar hafa verið hugmyndir í bæjarstjórn Ísafjarðar um að gera Hafnarstræti að göngugötu þegar skipafarþegarnir eru flestir. Bæjarstjóra var falið að undirbúa málið í samráði við verslunareigendur. Við sjáum hvað hvað kemur út úr því.

Verslun og viðskipti í miðbæ Ísafjarðar – MYND: ÓJ

Þennan laugardag var veður gott á Ísafirði. Fólkið sem gekk um bæinn mætti aðallega ferðafélögum af eigin skipi. Ísfirskir ökumenn sýndu erlendu gestunum tillitssemi. Margt óvenjulegt og skemmtilegt varð á vegi farþeganna þarna í miðbæ Ísafjarðar, í þessu gamla, söguríka og virðulega menningar- og útgerðarplássi. Útlendingarnir sáu þó enga sjóara að dytta að bátum sínum eða veiðarfærum, enga matarvagna með freistandi snarli. Varla nokkur heimamaður var á ferð nema þau sem voru að vinna við móttöku og leiðsögn.

Pollurinn á Ísafirði er vettvangur afþreyingar og upplifunar – MYNDIR: ÓJ

Þessi angi ferðaþjónustunnar, móttaka skemmtiferðaskipa, er enn fremur vanþróaður þó að margt fólk leggi sig augljóslega mjög fram um að veita góða þjónustu og gera dvöl ferðafólksins eftirminnilega. Ísfirðingar eru gestrisnir og alúðlegir. Fróðlegt verður að fylgjast með því hverju sú stefnumótunarvinna skilar sem Túrista er sagt að framundan sé á Ísafirði.

Það er gott að hafa stefnu – rýna í gegnum móðuna og átta sig hvert maður skal halda.  

Ísafjörður kvaddur – MYND: ÓJ