Ferðaþjónustan á að skila meiri tekjum

Kyriakos Mitsotakis hefur tekið aftur við embætti forsætisráðherra Grikklands eftir stórsigur í þingkosningunum á sunnudag. Hann lofar efnahagslegum umbótum, fleiri störfum, launahækkunum - og meiri tekjum af ferðaþjónustu. Þingmaður Krítverja, Olga Kefalogianni, tekur við embætti ferðamálaráðherra í nýju ríkisstjórninni.

Olga Kefalogianni, nýr ferðamálaráðherra Grikklands MYND: Facebook

Kyriakos Mitsotakis tók ekki mikla pólitíska áhættu með því að boða til nýrra kosninga eftir að hægri-miðjuflokki hans Nýju lýðræði tókst ekki að tryggja sér meirihluta í kosningunum sem haldnar voru 25. maí. Nógu margir Grikkir þrá festu við stjórn landsins. Því var boðað til nýrra kosninga 25. júní og láta þá reyna á úthlutunarkerfi sem verðlaunar þann flokk sem fær flest atkvæði með fleiri þingsætum en hlutfallslegur styrkur segir til um. Þannig tryggði Nýtt lýðræði sér 158 þingsæti af 300 með innan við 41 prósent atkvæða og heldur áfram starfi sínu frá síðasta kjörtímabili. Það er sjaldgæft í seinni tíð að ríkisstjórn starfi tvö kjörtímabil í röð í Grikklandi.

Ferðafólk á Ermou í Aþenu – MYND: ÓJ

Mitsotakis lofar miklum breytingum: að endurheimta lánshæfismat Grikkja, fjölga störfum, hækka laun í landinu og auka tekjur ríkisins. Sjálfur er Mitsotakis fyrrverandi bankamaður af gróinni valdaætt í landinu, sonur fyrrum forsætisráðherra, Konstantinos Mitsotakis.

Meðal nýrra ráðherra í endurnýjaðri hægristjórn Grikklands er Olga Kefalogianni, þingmaður Rethymno-kjördæmis á Krít, sem margir Íslendingar þekkja úr ferðum sínum. Hún er eins og Mitsotakis afsprengi valdastéttarinnar í landinu, dóttir fyrrum ráðherra og þingmanns. Kefalogianni hefur áður gegnt embæti ferðamálaráðherra. Það var á árunum 2012 til 2015 í stjórn Antonis Samaras.

Stúlkur hvíla sig í Plaka-hverfinu í Aþenu – MYND: ÓJ

Meðal þess sem Mitsotakis hefur heitið er að auka tekjur af ferðaþjónustu í Grikkland. Einn af hverjum fimm Grikkjum starfar við ferðaþjónustu sem skilar um 18 prósentum af þjóðarframleiðslunni. Góðar horfur eru í ferðaþjónustu landsins á þessu ári – ef tekið er mið af fjölda ferðafólks. Líkir eru á að fleiri komi til Grikklands en árið 2019 þegar um 31 millljón ferðamanna kom til landsins. Vöxturinn á síðasta ári var meiri en víðast annars staðar og hefur haldið áfram á þessu ári.